05.05.1955
Neðri deild: 84. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

199. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. virtist eiga dálítið erfitt með að skilja mínar hugleiðingar og var nú að minnast á, að ég hefði sagt, að það hefði ekki staðið á ríkisstj. að koma fram með þessar tillögur. Ég var nokkuð að reyna að koma með hugleiðingar út af réttlætinu í sambandi við þetta og baráttu verkamanna fyrir sínum kauphækkunum. Ef sú kauphækkun, sem hér á að fara fram til starfsmanna ríkisins, er réttlát nú 5. maí, var hún þá ekki réttlát í marzbyrjun eða í desemberlok? Ef hæstv. ríkisstj. álítur, að starfsmenn ríkisins eigi réttlætiskröfu á að fá uppbót á laun sín nú í dag, 5. maí, frá 1. júlí, hvað er það þá, sem hefur breytt afstöðu ríkisstj. frá því í marzbyrjun, áður en verkfallið hófst, þegar ríkisstj. virtist taka þá afstöðu, að það væri óréttlátt, að verkamenn fengju hækkun, og frá því um miðjan desember, þegar ríkisstj. lagðist á móti þeim tillögum um launahækkun til láglaunaðra starfsmanna ríkisins, sem sósíallstar og aðrir stjórnarandstæðingar voru með? Hvað er það, sem hefur breytzt í mati hæstv. ríkisstj. á réttlætinu? Eða er það svo, að það séu eingöngu Dagsbrúnarmennirnir og aðrir verkamenn í Reykjavík, sem eiga að' skapa réttlæti í þjóðfélaginu? Á héðan af að meta allt, t.d. allar kröfur frá starfsmönnum ríkisins, hvort þær séu réttlátar eða réttlátar ekki, hvort það eigi að verða við þeim, við það eitt, hvílíkt vald verkamenn í Reykjavík eru eða hvílíkar fórnir þeir vilja leggja á sig til þess að knýja fram launahækkanir? Á það að vera svo að segja hinn löggilti mælikvarði á réttlætið? Á þá að afhenda verkamannastéttinni í Reykjavík það að skapa þetta réttlæti í þjóðfélaginu, og eiga starfsmenn hins opinbera enga aðra kröfu á réttlæti en þá, sem þessum verkamönnum tekst að skapa í harðvítugri baráttu við auðmannastéttina?

Við lögðum til í vetur, sósíalistar og fleiri stjórnarandstæðingar, að þeim 12 milljónum, sem þá var úthlutað til starfsmanna ríkisins, væri úthlutað öðruvísi en ríkisstjórnin lagði til, að í staðinn fyrir að þeir hæst launuðu fengju t.d. 6 þúsund og þeir lægst launuðu 500, þá væru þeir lægst launuðu látnir fá nokkru meira og þeir hæst launuðu nokkru minna. Þá fannst ríkisstj. það ekki réttlæti að láta þá láglaunuðu fá hærra; nú finnst ríkisstj. það réttlæti. Af hverju? Hvað er það, sem hefur breytzt í áliti ríkisstj. á réttlæti? Er það eina, sem hefur breytzt, það, að verkamenn í Reykjavík hafa orðið að stöðva vinnu hér í 6 vikur og hálfsvelta margir þeirra til þess að skapa nýja réttlætishugmynd hjá ríkisstj.? Ef því þetta er rétt í dag, af hverju var það ekki rétt í marzbyrjun eða um miðjan desember? Það er þetta, sem hæstv. ráðherra virðist eiga erfitt með að skilja, og það er þetta, sem veldur um leið þeim hugleiðingum, sem ég kom með.

Ég gat ekki fengið hjá hæstv. fjmrh. upplýsingarnar. Hann vissi þær ekki og gat ekki látið mér þær í té þess vegna um, hvað þetta raunverulega þýddi hjá láglaunuðu og hálaunuðu mönnunum.

Í vetur varð hjá lægst launuðu mönnunum 3% grunnkaupshækkun. Mér skilst, að hún muni verða einhvers staðar á milli 5% og 8%. Mér skilst hins vegar, að hæst launuðu mennirnir, sem fengu 10% hækkun í vetur, muni þó vera tryggir með að fá a.m.k. 5% hækkun þarna núna, þ.e., allt upp í 15% væri þeirra grunnkaupshækkun, en hinna láglaunuðu kannske ekki meira en 8–10%. Þó væri gott að fá þetta við 2. umr. sæmilega vei reiknað út. En ef svo er, þegar þetta frv. hérna bætist við það, sem ákveðið var í vetur, að grunnkaupshækkunin er minni hjá þeim láglaunuðu en þeim hálaunuðu og krónutalan náttúrlega, sem hálaunamennirnir fá, miklu hærri en láglaunamannanna, þá sýnist mér réttlætishugmyndir ríkisstj. vera enn þá álíka bágbornar og í vetur.

Ég fæ ekki betur séð en hæstv. ríkisstj. hefði eins getað fallizt á till. stjórnarandstöðunnar í desember í vetur um hækkun á laununum hjá þeim lægst launuðu og dregið þá heldur úr hjá þeim hæst launuðu eins og að koma núna með þetta, nema það sé þá meiningin, að héðan af eigi að láta verkamannastéttina í Reykjavík eina um að heyja baráttu fyrir alla launamenn á landinu, berjast á móti henni eins og hægt sé á meðan hún sé að vinna að kauphækkun, valda ríkinu og þjóðfélaginu stórkostlegum skaða með því að styðja auðmannastéttina í slíku, en koma svo á eftir undireins og segja: Það er sjálfsagt, að allir aðrir fái svona hækkun.

Hv. 1. landsk. (GÞG) sagði, að sér hefði fundizt kenna nokkurs kala í garð Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hjá mér. Hann veit ósköp vel, að við höfum hér yfirleitt, stjórnarandstæðingar og sósíalistarnir, lagt fram sérstakar till. um það hvað eftir annað að reyna að bæta kjör sérstaklega hinna láglaunuðu starfsmanna ríkisins. En það er ein siðferðisleg krafa, sem verður að gera til hverra þeirra manna, sem sjálfir vilja fá launahækkun, og það er, að þeir hafi dug í sér til þess að berjast fyrir henni. Það fær enginn neitt án þess að hafa vilja til þess að fá það fram. Og það vil ég segja við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og þá, sem því stjórna, að sá vilji, sem ég veit að starfsmenn ríkisins mjög almennt hafa til að fá bætt sín kjör, þarf að koma fram ótvírætt og heiðarlega. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja er að verða sér til skammar gagnvart samtökum hins vinnandi fólks í landinu með þeirri framkomu, sem það lætur sinn formann hafa ár eftir ár, þegar jafnvel fátækustu verkamennirnir í landinu verða að leggja það á sig að vera vinnulausir vikum saman, svo að sverfur að þeirra heimilum. Hvað gerir þá formaður Bandalags ríkis og bæja? Hann leggur rýtinginn í bakið á þeim, á meðan þeir berjast. Er von til þess, að þeir verkamenn, sem búið er, eftir því sem mér skilst á hæstv. fjmrh., að afhenda alla baráttu fyrir réttlæti í landinu, réttlæti í launakjörum, horfi upp á slíkt án þess að það gæti nokkurs kala til þeirra manna, sem hinir opinberu starfsmenn hafa valið til þess að koma fram fyrir síg opinberlega? Það gengur svo rammt til, að meira að segja 1. maí, á baráttudegi verkamanna, fá þeir ekki að vera í friði fyrir svívirðingum og rógi þessa formanns Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Verkamenn Reykjavíkur eru ekki fyrr búnir að heyja langa og erfiða baráttu, þar sem þeir m.a. verða að berjast alveg sérstaklega við þennan formann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem misnotar sína vísindamannsaðstöðu til þess að reyna að leggja andstæðingum verkamanna og launþega lið, en hann tekur aftur að rægja þá á ný.

Það getur ekki hjá því farið, að það komi upp kall hjá verkamannastéttinni gagnvart stjórn BSRB, ef hún ætlar að láta þetta haldast áfram, og það er eins gott, að það komi alveg greinilega fram. Menn, sem eru að berjast fyrir því að fá hækkuð laun sín, eiga að sýna sig í því og láta stjórn sína og formann samtaka sinna sýna sig í því að berjast fyrir þessu á heiðarlegan hátt. Maður hefði frekar getað búizt við því, þegar verkamenn byrjuðu sína baráttu hér um miðjan marz, að í stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefði verið ákveðið að leggja þó ekki væri nema 10% af launum allra starfsmanna ríkisins í verkfallssjóð verkamanna í Reykjavík til þess að gera þeim mögulegt að halda út heldur en að það væri ráðizt aftan að þeim, eins og gert hefur verið. Og það eru margir hinna óbreyttu starfsmanna ríkis og bæja, sem hafa sýnt það, að þeir hafa gert slíkt, en stjórn bandalagsins og formaður þess hafa ekki skipað það.

Það er varla hægt að hugsa sér lúalegri bardagaaðferð en þá af formanni samtaka, sem kalla sig launþegasamtök, að leggjast á móti þeim verkamönnum, sem eru að heyja baráttuna fyrir starfsmenn ríkis og bæja, og koma svo á eftir, þegar þeir þrátt fyrir andúð hans og hjálp hans andstæðinga hafa unnið sigur, og heimta að fá það sama sem þeir hafi fengið í gegn.

Afstaða Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og stjórnar þess gagnvart verkamannasamtökunum þarf að breytast. Ef þeir fá ekki sinn verkfallsrétt og fá sjálfir að berjast á þann hátt, sem verkamenn gera fyrir sínum launahækkunum, þá eiga þeir héðan af að taka upp bandalag við verkamennina um að heyja þessa baráttu sameiginlega og leggja þá sitt fram til þess, að þetta geti náðst.

Þetta var það, sem ég vildi láta koma hér fram í sambandi við þessi mál.

Hitt, sem hæstv. ráðh. gat ekki gefið mér upplýsingar um núna, hvernig þessi grunnlaunahækkun kemur út, lögð saman við grunnlaunahækkunina í vetur, eftir launaflokkum, má þá geyma að ræða, þar til þetta kemur til 2. umr. Vona ég, að þar verði þá komnar betri upplýsingar um þetta og eins hitt, sem hann ekki heldur gat gefið neitt svar um, hvaða tekjurýrnun hefur orðið hjá ríkissjóði vegna verkfallsins. En ég held, að það hefði verið heppilegra, að sú afstaða að vilja veita kauphækkanir hjá starfsmönnum ríkis og bæja, sem nú eru lagðar til með þessu frv., hefði komið fram hjá ríkisstj. þegar í upphafi og að orðið hefði verið við þessum till. þá þegar í staðinn fyrir að láta þá leggja út í þá löngu og hörðu baráttu til þess að reyna að brjóta verkamenn á bak aftur, sem háð var nú í 6 vikur.