05.05.1955
Neðri deild: 84. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

199. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil taka það fram út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. (EOI) sagði, að það er ómögulegt að reikna út, hvað tekjutap ríkissjóðs vegna verkfallsins er mikið. Það hefur auðvitað orðið dráttur á innflutningi vara og þar af leiðandi litlar tolltekjur orðið á meðan skip voru ekki afgreidd, en hversu mikið verður raunverulegt tekjutap, er ómögulegt að segja, eins og allir sjá, sem íhuga málið. Þess vegna verður þetta dæmi aldrei sett upp.

Hv. 2. þm. Reykv. spurði, hvers vegna menn teldu nú rétt að samþykkja uppbót á laun opinberra starfsmanna, en hefðu ekki talið réttmætt að gera það fyrr í vetur. Það er einfalt svar við þessu, og hv. 2. þm. Reykv. þekkir það vel. Þetta frv., sem hér er rætt, er fram komið vegna afnáms vísitöluskerðingarinnar. Þetta frv., sem hér er fram komið, kemur ekki fram vegna þess, að hækkun varð á Dagsbrúnarkaupi eða kaupi iðnverkamanna. Það stendur ekki í tengslum við það. Frv. er eingöngu fram komið vegna þess, að í samningunum, sem gerðir vorn, var vísítöluskerðingin afnumin á kaupi iðnaðarmanna og annarra, sem hún náði til. Ef vísitöluskerðingin hefði ekki verið afnumin og haldið hefði verið áfram að greiða eftir sömu reglu og áður, hefði ríkisstj. að sjálfsögðu ekki lagt neitt frv. fram varðandi laun opinberra starfsmanna fyrr en launalagafrv. það, sem hún er að láta undirbúa og á að leggja fyrir Alþingi í haust.

Ég vil einnig endurtaka, að svigurmæli hv. 2. þm. Reykv. í garð forráðamanna bandalags opinberra starfsmanna um það, að þeir hafi krafizt tafarlaust þess sama sem um samdist í deilunni, eiga engan rétt á sér af þeirri einföldu ástæðu, að forráðamenn opinberra starfsmanna hafa ekki farið fram á neitt annað en það, að borguð yrði sams konar vísitöluuppbót á laun opinberra starfsmanna og laun annarra manna, en alls ekki farið fram á neina grunnlaunahækkun sér til handa nú strax, þótt almenn grunnkaupshækkun hafi átt sér stað við samningana.