05.05.1955
Neðri deild: 84. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

199. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins taka það fram, að ég hef deilt við hv. formann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þegar hann hefur átt sæti hér á þingi, og ég veit ósköp vel, að hann getur líka staðið fyrir því máli, sem hann heldur fram á slíkum stöðum, þannig að það er alveg eins gott fyrir hann, þó að hann sé ekki viðstaddur hér, að láta samþm. sína úr Sjálfstfl. tala fyrir hans hönd.

Hitt, að það sé að einhverju leyti ósæmilegt að deila á hann, það get ég ekki fallizt á. Þessi maður, form. Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, er látinn koma fram í útvarpinu fyrir hönd ríkisstj. eða sem prófessor jafnvel hvað eftir annað með villandi og ósæmilegar upplýsingar, þar sem hann er að nota sína aðstöðu sem vísindamaður eða sem form. BSRB til þess að blekkja fólkið með þeim kenningum, sem hann þar flytur, og til þess að reyna að vinna þannig á móti réttlátum kröfum, sem verkamenn eru með. Hann kemur þá fram á vettvangi, þar sem verkamenn fá ekki aðstöðu til þess að ræða við hann um hagfræðikenningar hans og annað slíkt. Við höfum hér aðstöðu til þess að ræða þetta, og það er ekkert óeðlilegt, þó að við notum hana. Sjálfstfl., sem á 21 þm. hér á Alþ., getur sannarlega sjálfur séð um að taka upp málið fyrir hönd þeirra manna, sem hann kýs að tefla fram á eins ósæmilegan hátt og láta flytja eins villandi upplýsingar og Ólafur Björnsson hefur gert.