31.03.1955
Neðri deild: 68. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

183. mál, húsnæðismál

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs nú af því, að enginn annar var á mælendaskrá. Það er í raun og veru fátt eitt, sem ég þarf að segja í sambandi við það, sem fram hefur komið. Að vísu hefur hv. 2. þm. Reykv. látið í ljós ýmsar efasemdir og gagnrýni á þessu frv. Það eru atriði, sem sum er rétt að athuga nánar. Annað er minna um vert og kemur til athugunar í meðferð þingnefndar á þessu máli. Ég tel, að það sé þess vegna eðlilegast núna, að málið fái sem skjótasta afgreiðslu til nefndar, og vildi aðeins takmarka mig við örfá atriði úr ræðu hv. 2. þm. Reykv., sem rétt er að vekja athygli á strax.

Hann talaði um úthlutun lánanna, um það væru engar reglur í lögunum og það væri í raun og veru hneyksli; hér ætti að hefja einhverja ógurlega mútustarfsemi að tilhlutan Sjálfstfl. og Framsfl. Það stendur nú í frv., að þriggja manna húsnæðismálastjórn á að úthluta lánunum, og það er ákveðið í frv. Hins vegar kemur það fram í bréfi frá Landsbankanum, að hann óskar ekki eftir að hlutast til um lánveitingarnar. Engu að síður hafa þessir þrír menn samkv. frv. rétt til úthlutunar lánunum, eins og frv. er. Hvaða reglur gilda um það í lögum um banka og aðrar peningastofnanir, hvernig úthluta eigi lánunum? Mig undrar það, að hv. þm. skuli furða sig á því, að hér skuli ekki settar nánari reglur um þessi lán, sem húsnæðismálastjórnin á að úthluta. Ekki virðist hann fetta neinn fingur út í það, þó að engar sérstakar reglur séu um það umfram það, sem gengur og gerist, að þau lán, sem t.d. til landbúnaðarins eiga að fara eða byggingarsjóðsins, fari í gegnum Búnaðarbankann. Þar er einn bankastjóri. Hann veitir þessi lán o.s.frv. Hvaða ástæða er til að ætla, að þrír menn í húsnæðismálastjórn séu eitthvað öðruvísi gerðir menn en aðrir forráðamenn peningastofnana, þegar að því kemur, að þeir taki ákvarðanir um þessi lán. — Hann vék dálítið að smáíbúðalánunum og talar um heilmikið hneyksli í sambandi við úthlutun þeirra lána. Ekki eitt einasta dæmi nefndi hv. þm. því til sönnunar. Þetta hafa flokksbræður hans og ýmsir aðrir áður talað um, en það hefur líka verið látið við það sitja, án þess að nokkur rökstudd gagnrýni hafi komið fram á opinberum vettvangi um þau hneyksli og þá mútustarfsemi, eins og hv. þm. orðaði það, sem þar hafi átt að eiga sér stað.

Að vísu er það nú svo, að í reglunum í frv. er beinlínis í 12. gr. tekið fram, að íbúðir þær, sem byggðar eru í því skyni að útrýma heilsuspillandi íbúðum, skuli njóta lána samkv. l. kafla, svo að það er beinlínis ákveðið. — Honum fannst kaflinn um útrýmingu heilsuspillandi íbúða vera rýr að vöxtum, sagði: Ef það þarf að byggja 100 íbúðir til að útrýma bröggum t.d., segjum á 150 þús. kr. hver íbúð, þá eru það 15 millj., sem til þess þarf. Hér eru áætlaðar einar 3 millj. frá ríki, og komi annað eins frá bæjarfélögum, þá eru það 6 millj. — En það er gert ráð fyrir, að lán séu einnig veitt til þessara aðila, og þá um 7 millj., svo að samtals er með lánum og þeim möguleikum, sem felast í framlögum II. kafla, um að ræða 13 millj. kr. Þetta er því ekki eins rýrt og hv. þm. vildi vera láta.

Menn geta harmað það, að numinn sé úr gildi III. kafli laga um opinbera aðstoð við íbúðarhúsnæði frá 1946, sem skyldaði ríkið til þess að lána 85%, held ég, eða 75–85%, ef bæjarfélag byggði til að útrýma heilsuspillandi íbúðum, til 40–50 ára með 2% vöxtum o.s.frv. Þetta leit allt saman vei út á pappírnum. Í eitt ár stóðu þessi lög í framkvæmd og síðan ekki meir. Þó að lögin hafi ekki verið numin úr gildi, þá hefur framkvæmd þeirra verið frestað og þau engum komið að liði til þessa dags. Og ég fyrir mitt leyti legg miklu meira upp úr raunhæfum ákvæðum í löggjöf, sem borgararnir fá notið góðs af, heldur en pappírsákvæðum, sem hafa sýnt sig í framkvæmdinni að vera einskis virði.

Það er rétt, að það er ekki talað um vexti af B-lánunum hér í frv. En það mun hafa verið um það rætt, án þess að það liggi nokkuð fyrir um það, enda er gert ráð fyrir því, að nánari reglur verði settar um það í reglugerð, að það væru lægri vextir, hversu mikið skal ég ekki segja, kannske eitthvað um 5% vextir af þeim. Og það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að hér er um nýjung að ræða, sem kannske er ekki eins auðveld og ekki eins einföld í framkvæmd og menn kunna að hyggja við fyrstu sýn. En aðalatriðið er nú samt sem áður það, að hér er verið að gera tilraun, og það veltur mikið á því, hvernig sú tilraun tekst, hvað verður um áframhald hennar. Það, sem er veigamikið í sambandi við þessi B-lán, er að reyna að örva menn til þess að leggja fé sitt í verðbréfakaup og með þessu móti að tryggja þeim, að peningarnir falli ekki of mikið í gildi. Að vísu kemur á móti sú hætta, sem lántakandinn á þá yfir höfði sér, að verðsveiflurnar verði of miklar og lánin síðar meir honum of dýr. Allt er þetta að sjálfsögðu sjónarmið, sem verðskulda fyllstu athygli og þurfa að takast um miklu nánari ákvarðanir, áður en sett verða ákvæði um það. En það er gert ráð fyrir því, að um það verði sett ákvæði í reglugerð og undir forstjórn og þá einkum og aðallega á ábyrgð þjóðbankans, sem forgöngu hefur í þessu máli.

Lánsupphæðina taldi hv. ræðumaður litla, 2/3 miðað við 150 þús. kr. íbúð. Að vísu væri það ekki há upphæð, 150 þús. kr., og sennilega yrðu lánin ekki nema 70–100 þús. kr. til að byrja með, kannske fremur til að byrja með 70 þús. kr. Alveg er það rétt, að þetta eru ekki háar upphæðir, en það er þó réttilega fram tekið af hv. 2. þm. Reykv., að þær eru nokkuð veigamiklar, miðað við það ástand, sem verið hefur og ríkt hefur í þessum efnum, og komizt hér á veðiánakerfi það, sem gert er ráð fyrir og er þá byggt upp og staðið á bak við af Landsbankanum, þá ættu nokkrar vonir að standa til þess, að það gæti sjálft átt fyrir sér að eflast og vaxa, miðað við það, sem gert er ráð fyrir í frv. að sé fyrst í stað. Og það er rétt að hafa það í huga, þegar sagt er, að ekki sé nóg fyrir eignalausa eða eignalitla menn að fá 70–100 þús. kr. út á íbúð með 1. veðrétti, það vantar þá einar 80 þús. kr., ef íbúðin á að kosta 150 þús. kr., hvað hefur gerzt í sambandi við smáíbúðabyggingarnar, og vil ég þar víkja að því, sem hefur gerzt fyrr hér í Reykjavík. Ég man eftir því, þegar Reykjavíkurbær skipulagði smáíbúðahverfið svokallaða og það var gefið frjálst að byggja smáíbúðir innan vissra takmarka, og var þó enginn almennur lánamarkaður, sem viðkomandi húsbyggjendur áttu aðgang að, að þá var því haldið fram af mörgum, að þetta væri ekki nema til að sýnast og hér væri verið að byggja nýtt fátækrahverfi í Reykjavík. En hver hefur svo orðið reyndin? Þetta hverfi hefur byggzt upp með 500–600 íbúum á örskömmum tíma, með undraverðum hraða og ævintýralega mikilli atorku af þeim mönnum, sem að þessu hafa staðið, og sannast að segja eru fjölmörg dæmi til þess og ég þekki þau persónulega, að eignalausum mönnum hefur við þau skilyrði, sem hér hafa ríkt, tekizt með dugnaði sjálfs sín, sinna vina og vandamanna að koma þarna upp mjög sómasamlegum íbúðum yfir höfuðið, sem kosta sennilega meira en hér er um að ræða, áreiðanlega að kostnaðarverði um 200 þús. kr., þegar miðað er við þá, sem þurfa að kaupa bæði alla vinnu og allt efni. Sú reynsla, sem þarna er fengin, gefur vonir um það, að þó að þessi lán séu lægri en æskilegt væri, þá geti þau samt sem áður orðið verulega mikil örvun til nýrra framkvæmda á sviði húsnæðismálanna.

Það eru ekki fleiri atriði, sem gefa mér tilefni til athugasemda nú á því, sem fram hefur komið. Ég tel langveigamesta þáttinn í þessu máli vera þann, að hæstv. ríkisstj. hefur sýnt einlægan hug á því að framkvæma það stefnuskráratriði, sem hún setti sér, þegar stjórnin var mynduð, að leggja grundvöllinn að því að leysa lánsfjármálið til frambúðar. Það eru m.ö.o. tímamót, sem eiga sér stað í peningamálum okkar með framlagningu þessa frv., enda þótt það gangi í veigamiklum atriðum skemmra en menn kunna að óska. Peningastofnanir landsins og bankarnir hafa verið lokaðir fyrir fólki til íbúðalána á undanförnum árum. Nú eru þessar peningastofnanir opnaðar, og það er til þess ætlazt, að þeir, sem vilja og hafa atorku til þess að reyna að byggja yfir sig íbúðir, eigi hæfilegan aðgang að lánum hjá þessum peningastofnunum landsmanna, og þjóðbanki landsins hefur tekið að sér forgönguna, heitið ríkisstj. forustu sinni í þessu efni, og að þessu leyti eru mjög mikil straumhvörf á orðin í þessum málum frá því, sem verið hefur.

Mér er það ljóst, að það veltur að verulegu leyti um framgang þessa máls á forgöngu og atorku Landsbankans, sem hefur samkv. því, sem fram kemur í grg., heitið ríkisstj. sínum fyllsta stuðningi í þessu máli.

Vafalaust eru ýmis atriði, sem þurfa nánari athugun við meðferð málsins hér á þingi, en ég tel fyllstu ástæðu til þess að fagna mjög, að þetta frv. er fram komið, en alveg sér í lagi vegna þess, að mér er kunnugt um það við undirbúning þessa máls að tilhlutun ríkisstj. í húsnæðismálanefnd, að innan hæstv. ríkisstj. hefur ríkt mjög mikill og einlægur áhugi fyrir framgangi þessa máls, og ríkisstj. hefur fyrir sitt leyti viljað ganga á fremsta hlunn með að bæta úr því, sem aflaga hefur farið í þessu efni á undanförnum árum. Þegar saman fer slík stefna og slíkur samstilltur vilji hæstv. ríkisstj. og sú aðstoð, sem heitið er af þjóðbanka landsins, þá vil ég leyfa mér að gera mér vonir um, að hér sé kannske miklu stærra mál á ferðinni en við fyrstu sýn sýnist.