25.04.1955
Neðri deild: 77. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

183. mál, húsnæðismál

Frsm. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Afgreiðsla þessa stórmáls við 2. umr. hér í hv. deild hlýtur að hafa valdið öllum þeim, sem nú búa við húsnæðisböl, sárum vonbrigðum. Samkvæmt þeim fyrirheitum, sem gefin hafa verið á undanförnum mánuðum um áhuga núverandi stjórnarflokka á því að bæta kjör þeirra, sem eiga við húsnæðisvandræði að stríða og hafa verið eða ætla að ráðast í þá framkvæmd að koma þaki upp yfir höfuð sér, hlaut það frv., sem ríkisstj. lagði fram fyrir nokkrum víkum, að valda miklum vonbrigðum.

Við hv. 9. landsk. þm. (KGuðj), sem skipum minni hl. í hv. fjhn., gerðum tilraun til þess við 2. umr. málsins að bæta frv. þetta á marga lund. Við bárum fram ýmsar till., allar þó hóflegar og sanngjarnar og þann veg rökstuddar, að þær hlutu að teljast auðveldlega framkvæmanlegar. En allt kom fyrir ekki. Liðsmenn stjórnarfl. hér í hv. deild felldu till. þessar allar og samhljóða. Þó var fram á það sýnt í umr. um málið, hversu mjög skortir á það, að þetta frv. leysi vanda þeirra fjölmörgu, þeirra hundraða, þeirra þúsunda, sem nú stynja undan hinu geigvænlega húsnæðisböli. Það var sýnt fram á, að lánsféð, sem ætlað er að veita samkv. þessu frv., hrekkur engan veginn til þess að sinna þörfum hinna væntanlegu húsbyggjenda.

Það var enn fremur sýnt fram á, að jafnvel þeir, sem náðarinnar eiga að njóta samkv. þessu frv., mundu verða að sæta slíkum afarkostum að því er snertir vaxtakjör og lánstíma, að mánaðarafgjald af meðalíbúð mundi verða tæpar 1900 kr. Það var enn fremur sýnt fram á, að það væri í raun og veru síðlaus regla, sem ákveðið væri nú að taka endanlega upp að því er snertir lánveitingar til íbúðarhúsabygginga, að fulltrúar stjórnmálaflokka ættu að hafa úthlutun lánsfjárins með höndum, eins og hér er gert ráð fyrir, en beinlínis komið í veg fyrir, að þeir aðilar, sem hér hafa sérstaka sérþekkingu til brunns að bera, þ.e. bankarnir, hafi þar nokkur afskipti af.

Þetta vildum við reyna við 2. umr. að fá lagfært, en án árangurs. Nú við þessa umr. viljum við enn gera nokkra tilraun til þess að fá endurbætur á frv. og höfum leyft okkur ásamt hv. 8. þm. Reykv. (GilsG) að flytja brtt. á þskj. 638. Enn fremur leggja sömu flm. fram skriflega brtt., sem ég einnig mun gera nokkra grein fyrir. Sú till. hefur verið afhent til prentunar og liggur vonandi fyrir prentuð, áður en atkvgr. fer fram.

Skal ég nú í örfáum orðum gera grein fyrir þessum brtt. Við hv. 9. landsk. þm. tókum fram í nál. okkar, að við teldum þau vaxtakjör, sem gert er ráð fyrir í frv., vera óhæfilega óhagstæð. En eins og ég gat um áðan, hafa þau það væntanlega í för með sér, að mánaðarleiga í meðalíbúð, 350 m3 íbúð, verði milli 1850 og 1900 kr. Mánaðarleiga í ódýrustu íbúð, sem hugsanlegt er að hægt verði að koma upp, yrði með sama hætti milli 1400 og 1500 kr. Er alveg augljóst mál, að slík húsaleiga er ekki við alþýðuhæfi, og þarf að gera ráðstafanir til þess, að almenningur þurfi ekki að stynja undir svo geigvænlegu húsaleiguokri.

Það var til þess vitnað við 2. umr. málsins, að til væri stofnun, byggingarsjóður verkamanna, sem einmitt hefði það hlutverk að sjá efnalitlu fólki fyrir húsnæði við viðunandi kjörum. Sú stofnun hefur verið máttlaus undanfarin ár sökum fjárskorts, hún hefur ekki getað sinnt hlutverki sínu sem skyldi, vegna þess að fjármagnsmarkaðurinn hefur verið henni lokaður og ríkisvaldið hefur ekki reynzt nægilega viðsýnt og frjálslynt til þess að útvega þeirri stofnun hæfilegt starfsfé. Við gerðum tilraun til þess með till. við 2. umr. málsins að tryggja þeirri stofnun nokkuð aukið starfsfé, 12 millj. kr. á ári af því fé, sem er gert ráð fyrir að muni aflað í þessu skyni á næstu árum, og var það jöfn upphæð og kom í ljós að búið var að tryggja byggingarsjóði sveitanna. En allt kom fyrir ekki, sú till. var felld. Eftir 2. umr. stendur byggingarsjóður verkamanna því engu betur að vígi en hann hefur staðið undanfarið til þess að sinna þörfum hinna lágt launuðu í þjóðfélaginu. Þegar þannig er ástatt, teljum við sjálfsagt að gera till. til breytinga á vaxtaákvæðum frv. og færa þau nokkuð til lækkunar, þannig að sú húsaleiga, sem gera má ráð fyrir að þeir verði að borga, sem lán fá samkv. lögunum, verði ekki jafnofsalega há og hún mundi verða að öðrum kosti. Höfum við því lagt til á þskj. 638, að vextir af lánunum verði færðir úr 7% í 6%. Teljum við 6% vextina vera það hæsta, sem hægt er að ætlast til að almenningur greiði af slíkum lánum.

Þá leggjum við enn fremur til í till. á sama þskj., að aftan við 7. gr. frv., þar sem svo er kveðið á, að heimilt sé að lána byggingarsjóði og byggingarsjóði verkamanna af fé því, sem veðdeild Landsbankans fær til útlána, verði því bætt, að lán til beggja sjóðanna skuli vera jafnhá. Ég sé ekki, hvernig hægt ætti að vera að forsvara það að lána byggingarsjóði sveitanna hærri upphæð af þessu fé en byggingarsjóði verkamanna. Það hefur verið margtekið fram, að svo virðist sem stjórnarflokkarnir hafi þegar samið um það sín á milli, að byggingarsjóður sveitanna skuli fá 12 millj. kr. af því fé, sem hér er um að ræða. Látum nú vera, að stjórnarflokkarnir vilji ekki binda þessa upphæð fastmælum í sjálfum lögunum, að þeir vilji hafa eitthvað frjálsari hendur um upphæð fjárins og þeir hafi fellt till. okkar hv. 9. landsk. þm. af þessum sökum. En hitt sé ég ekki, hvernig þeim gæti verið stætt á því að neita byggingarsjóði verkamanna um jafnmikið fé og byggingarsjóður sveitanna fengi. En ef þessi till. okkar yrði samþ., ætti það að vera tryggt. Hér er að ýmsu leyti um hliðstæðar stofnanir að ræða. Byggingarsjóður verkamanna tekur að vísu til miklu fleira fólks en byggingarsjóður sveitanna. Á hinn bóginn má segja, að starfsemi byggingarsjóðs verkamanna sé ekki miðuð við nema nokkurn hluta kaupstaðabúa, þ.e.a.s. þá, sem eru undir því tekjumarki, sem nefnt er í lögunum, en byggingarsjóði sveitanna er ætlað að liðsinna öllum, sem í sveitum búa. Látum þetta tvennt jafnast hvort á móti öðru. Er þá eðlilegt, að báðir sjóðirnir fái sömu upphæð, þ.e.a.s., að hið háa Alþingi geri ekki upp á milli þeirra. Till. þessi er svo sanngjörn og í raun og veru svo sjálfsögð, að ég trúi ekki öðru en að hún finni náð fyrir augum hv. deildarmanna.

Þá flytjum við sömu fim., hv. 9. landsk. og hv. 8. þm. Reykv., nokkrar skriflegar brtt. Kjarni þeirra er þetta:

Fyrir tveimur dögum var frá því skýrt í ríkisútvarpinu, að Iðnaðarmálastofnun Íslands hefði ákveðið að gera á næstunni áætlun um byggingarframkvæmdir á Íslandi í næstu 12 mánuði, og hefði Iðnaðarmálastofnun Íslands þegar ráðið sér erlendan sérfræðing til aðstoðar við samningu þessarar byggingaráætlunar. Enn fremur var í þessari útvarpsfrétt, sem ég held að hafi komið í flestum eða öllum blöðum, frá því greint, að fyrirhugað væri ferðalag nokkurra sérfræðinga til nágrannalanda til þess að kynna sér skipun byggingarmála hjá þessum þjóðum, ef reynsla þeirra mætti gera okkur kleifara en ella að gera ráðstafanir til þess að lækka byggingarkostnað hér á landi. Það, sem strax vakti athygli mína, þegar ég heyrði þessa útvarpsfrétt og las hana nánar í blöðum, var, að hér er um að ræða alveg sama verkefnið og húsnæðismálastjórninni er ætlað í þessu frv. Hér er um að ræða annað aðalverkefni húsnæðismálastjórnarinnar. En hitt er, sem kunnugt er, það, að hún á að úthluta lánunum, sem veitt verða samkvæmt lögunum.

Nú er það næsta furðulegt, að samtímis því sem hæstv. ríkisstjórn leggur fyrir Alþingi frv. um nýja stofnun, húsnæðismálastjórn, og ætlar henni að koma á fót og hafa yfirumsjón með leiðbeiningastarfsemi fyrir húsbyggjendur í því skyni að lækka byggingarkostnað og að gangast fyrir tæknirannsóknum og kynningu nýjunga í byggingariðnaði o.s.frv., þá skuli nýstofnuð ríkisstofnun, Iðnaðarmálastofnun Íslands, tilkynna almenningi, að hún hafi þegar ákveðið að taka þetta hlutverk að sér. Það hlýtur að koma öllum almenningi spánskt fyrir sjónir, að svona skuli vinstri hönd ríkisvaldsins ekki hafa hugmynd um það, hvað sú hægri er að hafast að. Hér virðist ekki vera nema um tvennt að ræða, annaðhvort að Iðnaðarmálastofnunin verði látin hætta við sína fyrirhuguðu framkvæmd, ef húsnæðismálastjórninni verður komið á fót samkvæmt þessu frv., eða þá að frv. verði breytt, hætt við að koma húsnæðismálastjórninni á fót og Iðnaðarmálastofnunin látin annast þessa framkvæmd. Hitt er augljós fjarstæða, að samtímis því sem Iðnaðarmálastofnunin væri að vinna að þessu, þá væri komið upp annarri ríkisstofnun til þess að framkvæma nákvæmlega sama verk. Annaðhvort þarf því að gera. Við þremenningarnir teljum skynsamlegra að láta Iðnaðarmálastofnunina halda áfram við þetta verk, láta hana sinna því, en hætta við að koma á fót þessu nýja skrifstofubákni, húsnæðismálastjórninni. Till. okkar miðar að því, að horfið skuli frá því að koma á fót húsnæðismálastjórninni, en Iðnaðarmálastofnuninni skuli falið að hafa þau verkefni með höndum, sem lögin að öðru leyti fjalla um á þessu sviði, enda hefur hún þegar lýst því yfir, að hún ætli að gera þetta hvort sem er. Við treystum hinum ungu forráðamönnum Iðnaðarmálastofnunarinnar vel til þess að hafa þessar rannsóknir með höndum með aðstoð þeirra sérfræðinga, sem þeir sumpart hafa ráðið sér og sumpart munu ætla að ráða sér á þessu sviði.

Þá vaknar spurningin um það, hverjir eigi að annast lánveitingarnar samkv. frv. Eins og ég tók fram við 2. umr., þá tel ég það einn megingalla þessa frv., að þar skuli gert ráð fyrir, að 2 fulltrúar stjórnmálaflokka skuli eiga að hafa upp undir 50 millj. kr. lánveitingar með höndum. Við bárum fram till. um það, minni hl. í fjhn., að þessar lánveitingar skyldu verða í höndum Landsbankans. Það var fellt. Ég heyrði einhvers staðar þá röksemd gegn því, að það væri óeðlilegt, að Landsbankinn einn ætti hér um að fjalla. Hinir bankarnir legðu einnig fram fé til þessara framkvæmda og það væri þá óeðlilegt að gera upp á milli bankanna, láta einn bankann annast þetta algerlega, en láta hina hvergi koma nærri. Nú viljum við því, þessir sömu flm. ásamt hv. 8. þm. Reykv., flytja brtt. um, að úthlutun lánanna skuli vera í höndum 5 manna nefndar, sem ríkisstj. skipi eftir tilnefningu bankanna 5, Búnaðarbankans, Framkvæmdabankans, Iðnaðarbankans, Landsbankans og Útvegsbankans, en þessir bankar greiði allir kostnað við störf nefndarinnar. Það teljum við þá vel hafa efni á að gera, þannig að ríkissjóði yrðu þá spöruð öll útgjöld í sambandi við samþykkt þessa frv. Ég rökstyð það ekki frekar en ég gerði við 2. umr., að það er í alla staði eðlilegra, að þeir menn, sem hafa starfs sins vegna sérfræðilega þekkingu á því, hvernig meta beri verðleika umsækjenda um lán, eigi um slíkt að fjalla, en ekki pólitískir útsendarar einhverra stjórnmálaflokka.

Þetta segi ég um þær brtt., sem ég flyt ásamt tveimur áðurnefndum þm. Þá hef ég einnig leyft mér að flytja brtt. á þskj. 637, sem í felst nokkurt nýmæli. Ég legg þar til, að ef fjölskyldumenn, sem eiga ekki 90 m2 íbúð eða stærri, taka þá ákvörðun að leggja til hliðar af tekjum sínum til þess að geta eignazt íbúð, m.ö.o., ef þeir taka þá ákvörðun að stofna eins konar eigin byggingarsjóð, þá skuli framlög í þennan byggingarsjóð vera skattfrjáls, það skuli ekki lagður tekjuskattur á þann hluta teknanna, sem maður, sem ekki á meðalibúð, ákveður að leggja til hliðar upp í að geta byggt sér eða keypt sér íbúð.

Hv. þm. verður auðvitað fljótlega ljóst, hvar er að finna hliðstæðu þessarar hugmyndar, en hún er raunverulega sótt í reglurnar um varasjóði eða nýbyggingarsjóði gildandi skattalaga, eins og þau ákvæði gilda um hlutafélög og samvinnufélög. Þar eru veitt sérstök skattfríðindi fyrir þann hluta tekna, sem fyrirtæki ákveður að leggja til hliðar og varðveita til uppbyggingar fyrirtækisins. Það hefur um langan aldur verið talið eðlilegt, að fyrirtæki nytu fríðinda fyrir þann sparnað, sem þau þannig leggja á sig. Nú hefur í umr. um húsnæðismálin verið bent á það rækilega og af mörgum aðilum, að ein höfuðundirstaða þess, að hægt sé að leysa húsnæðisvandamálið á næstunni, er sú, að sparnaður aukist með þjóðinni. Það er ekki hægt að auka húsbyggingarnar að neinu ráði, nema því aðeins að sparnaður þjóðarinnar sé með einhverjum hætti aukinn. Það ætti því að mega telja, að allar ráðstafanir, sem stuðla að auknum sparnaði, séu mjög vel til þess fallnar að hjálpa til þess að leysa húsnæðisvandamálið. Þeim mun meir sem einstaklingar og fyrirtæki spara, þeim mun meira fé er fyrir hendi í þjóðfélaginu til þess að festa til langframa í byggingum. Gera má ráð fyrir því, að þeir einstaklingar, sem eiga ekki meðalíbúð, en vilja eignast hana, mundu, ef þeim yrði gefinn kostur á skattfríðindum af því fé, sem þeir leggja til hliðar, leggja miklu meira að sér en ella; þeir mundu leggja hart að sér til þess að spara og geta eignazt íbúð síðar. Ég tel því, að eitt hið gagnlegasta, sem hægt væri að gera í húsbyggingarmálunum núna, væri að veita slík skatthlunnindi þeim mönnum, sem reiðubúnir væru til þess að leggja sérstaklega mikið að sér til þess að spara í því skyni að eignast íbúð. Ég get getið þess, að í ýmsum nágrannalandanna hefur verið gert allmikið á þessu sviði og alls staðar með mjög góðum árangri. T.d. má geta þess, að ýmsir telja, að sá miklu árangur, sem náðst hefur í húsbyggingarmálum Vestur-Þýzkalands, eigi að verulegu leyti rót sína að rekja til þess, að þar í landi hafa verið og eru enn í gildi mjög veruleg skattfríðindi fyrir það fé, sem menn spara og leggja í byggingar. Ég geri ráð fyrir því, að árleg framlög í þennan eigin byggingarsjóð megi nema allt að fjórðungi teknanna, en þó ekki meira en 20 þús. kr. á ári og 200 þús. kr. alls, en byggingarsjóðinn á að ávaxta í banka eða sparisjóði á nafni eigandans. Svo eru í till. nánari reglur um það, að ef eigandinn síðar ráðstafar fénu á annan hátt eða til annarra þarfa en til húsbyggingar, þá eigi að greiða skatt af fénu eftir nánar tilteknum reglum, sem greint er frá í till.

Ég vona, að þessi till. verði athuguð rækilega af hv. þdm., því að ég er sannfærður um það, að með samþykkt hennar mundi vera stigið mikilvægt spor í þá átt að efla sparnað í landinu og þá um leið í þá átt að leysa hið mikla húsnæðisvandamál, sem nú er við að etja á Íslandi.