28.04.1955
Efri deild: 75. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

183. mál, húsnæðismál

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson) :

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 654 um húsnæðismálastjórn, veðlán til íbúðabygginga og útrýmingu heilsuspillandi íbúða hefur þegar gengið í gegnum hv. Nd. og var afgreitt þaðan með tiltölulega mjög litlum breytingum frá því það fyrst var fram borið sem stjórnarfrumvarp í þeirri deild.

Ég skal taka það fram, að að þessu frv. stendur ríkisstj. öll. Hún vann að undirbúningi málsins og stendur því ábyrg gagnvart Alþ. að því er frv. varðar.

Það fylgir frv. allýtarleg grg., eins og það var í fyrstu fram borið á þskj. 522, og af þeirri ástæðu er það, að ég tel nú ekki þörf á mjög langri framsögu um þetta mál, en tel þó eðlilegt að segja hér nokkur orð um frv. við 1. umr. í hv. Ed.

Það mun nú ekki orka tvímælis, að eitt af því erfiðasta, sem við Íslendingar höfum við að stríða, er að koma upp góðum íbúðum yfir íbúa landsins. Þetta er náttúrlega í flestum þjóðfélögum svo, en er þó allmjög mismunandi, og flestar ástæður eru þannig hér á landi, að íbúðir hjá okkur hljóta að verða mjög dýrar, mjög kostnaðarsamar, sem stafar af ýmsu, sumpart af loftslagi, sem er fremur kalt og mjög rakt og umhleypingasamt, og þar sem slíkt loftslag er, þar geta byggingar stundum enzt illa, a.m.k. úr óvaranlegu efni, og verða að vera vandaðar, ef þær eiga að geta þolað slíka veðráttu til lengdar. En það, sem þó kannske er enn erfiðara, er það, að hér innanlands hefur í raun og veru ekki verið um neitt byggingarefni að ræða nema torfið og grjótið, sem við höfum notað í veggi á okkar húsum allt frá landnámi og fram að síðustu aldamótum. Þó að ýmislegt gott megi kannske segja um það byggingarefni að vissu leyti og dálítið vafamál, hvort ekki mætti nota það eitthvað meira en við gerum, jafnvel nú á þeirri öld framfara, sem er, þá er það víst, að eins og það hefur verið notað á undanförnum öldum, hafa það verið mjög ófullkomnar byggingar, sem á þann hátt hafa verið gerðar, lélegar og umfram allt endingarlitlar, svo að hver kynslóð varð að byggja yfir sig.

Það er því ekki undarlegt, þó að þess gæti mjög í löggjöf okkar Íslendinga á síðustu áratugum að reyna með félagslegum aðgerðum ýmsum að koma á móti almenningi um það að koma upp sæmilega góðum íbúðum, sem yrðu þó ekki ofviða hvað kostnað snerti, enda er það svo,.að á síðustu 20 árum hefur verið sett hér margvísleg löggjöf varðandi aðstoð við byggingar húsa, bæði íbúðarhúsa og annarra húsa, bæði í sveit og við sjó.

Þetta hefur náttúrlega, eins og gefur að skilja, þar sem um frumsmíð var að ræða, tekizt misjafnlega á ýmsan hátt, en þó mun ekki um það deilt nú, að einmitt slíkar félagslegar ráðstafanir, sem settar eru með löggjöf og notaðar eru á þann hátt, hafa orðið til mjög mikilla hagsbóta fyrir okkur í þessum efnum, enda má fullyrða það, að á síðustu þrjátíu árunum hefur verið unnið algert stórvirki hér hjá okkur í byggingarmálum, jafnt í þéttbýll við sjóinn, þar sem stór kauptún og kaupstaðir hafa verið byggð upp frá grunni, en einnig í sveitunum, þar sem unnið hefur verið geysimikið að því að byggja hús úr varanlegu efni, upp á síðkastið nær eingöngu úr steinsteypu, í stað torfbæjanna og torfútihúsanna, sem áður voru.

Þetta voru aðeins almennar hugleiðingar, en kemur ekki beint við því frv., sem hér liggur fyrir, nema styður það, sem oft hefur verið sagt áður, hver þörf er alltaf að vera á verði um að gera eitthvað til þess að létta undir í þessum efnum.

En segja má, að það, sem hrundið hefur þessu frv. af stað, er það ákvæði í málefnasamningi þeim, sem núverandi ríkisstj. gerði, þegar hún kom að starfi í september 1953, fyrir rúmu hálfu öðru ári, að einn liður í starfssamningi ríkisstjórnarinnar hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Tryggt verði aukið fjármagn til íbúðabygginga í kaupstöðum og kauptúnum og þorpum, lögð áherzla á að greiða fyrir byggingu íbúðarhúsa, sem nú eru í smíðum, og lagður grundvöllur að því að leysa þetta vandamál til frambúðar.“

Þarna var í sjálfu sér lofað allmiklu, og það er náttúrlega alltaf hægt að deila um það, að hve miklu leyti fullnægt sé loforðum eins og þessu. En þessu ákvæði hefur nú ríkisstj. fullnægt á þann hátt, að fyrir s.l. ár, 1954, samdi hún um það við bankastofnanir landsins, — það var nú Landsbankinn, sem lagði það fé fram að miklu leyti, — að 20 millj. kr. yrðu lagðar í íbúðarhúsabyggingar í þéttbýlinu, og var það framhald af því, sem fyrrverandi ríkisstj. hafði gert um að koma af stað hinni svonefndu smábýladeild, þar sem lánuð var að vísu tiltölulega lág upphæð, 30 þús. kr., út á 2. veðrétt í íbúð, smáíbúð, en 1. veðréttur var þá laus, og gat þá sá, sem byggði, eftir því sem hann gat fengið lán, notað hann að ákveðnu hámarki.

Þetta hafði komið að góðu gagni, það er ekki nokkur vafi á því, þar sem á árunum 1952–54 höfðu samtals verið byggðar um 1600–1700 íbúðir samkvæmt löggjöfinni um smáíbúðalánin. Og það má segja, að þessar íbúðir hafi því nær skipzt jafnt á Reykjavík og landið utan Reykjavíkur.

Þetta voru 40 millj. kr., sem á þessum þremur árum höfðu til þess gengið, og hefur komið að mjög góðu gagni, þrátt fyrir það að ýmis gagnrýni hafi komið fram á þá starfsemi, eins og alltaf má við búast. En þó munu held ég allir sammála um það, að sem heild hafi þetta orðið til þess að stuðla að því, að fjölmennur hópur fólks, sem áður hafði eiginlega enga möguleika til þess að byggja yfir sig, hefur gert það og komið upp tiltölulega ódýrum íbúðum vegna þess, hve margir hafa sjálfir lagt fram eigin vinnu í þetta og sumir í mjög stórum stíl, svo að það er jafnvel undravert, hvað íbúðirnar hafa orðið ódýrar, samanborið við þá dýrtíð, sem hér er nú í þeim efnum. — Þetta taldi ég rétt að nefna í þessu sambandi.

En ríkisstj. var ljóst, að það var ekki til frambúðar að undirbyggja þessa starfsemi á þann hátt, sem gert hafði verið með árlegum samningum við peningastofnanirnar, fyrst og fremst Landsbankann, um að leggja fram nokkra upphæð á ári, heldur yrði að taka þetta mál fastari tökum og — eins og segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. — reyna að leggja grundvöll að því að leysa þetta vandamál til frambúðar. Það var á þessum grundvelli, sem n. var skipuð af ríkisstj. á s.l. vori, 5 manna n., og formaður hennar var Benjamín Eiríksson bankastjóri. Auk þess voru skipaðir í n. Björn Björnsson hagfræðingur, Hannes Jónsson félagsfræðingur, Hilmar Stefánsson bankastjóri og Jóhann Hafstein bankastjóri.

Þessi n. vann að undirbúningi þessa frv. s.l. sumar að meira eða minna leyti, safnaði upplýsingum úr ýmsum löndum í sambandi við starf sitt og skilaði ríkisstj. s.l. haust lauslegu — getum við sagt — bráðabirgðaáliti um þær upplýsingar, sem hún hafði aflað sér, bæði innanlands og utan, og jafnframt nokkrum drögum að því, hvernig löggjöf hún hafði hugsað sér um þetta mál.

En á sama tíma var það, að ríkisstj. tók upp samninga við Landsbankann um að starfa með n. að þessum málum og leitaðist jafnframt við að ná samkomulagi við bankann um það, að hann hefði forgöngu um þær fjárútveganir, sem yrðu að nást, ef nokkuð ætti úr þessu að verða. Þetta varð til þess, að það komu tveir fulltrúar Landsbankans í n. um áramótin síðustu, þeir Gunnar Viðar bankastjóri og Jóhannes Nordal hagfræðingur Landsbankans. Það var því þessi 7 manna nefnd, sem síðan starfaði áfram og skilaði till. til ríkisstj. í frv: formi að nokkru leyti og að nokkru leyti í sérstökum álitum, og með nokkrum breytingum, sem á því frv. voru gerðar, var svo komið að því frv., sem lagt var fyrir hv. Nd. nú fyrir skömmu, því að það hafði farið langur tími í allt þetta vafstur.

Ég ætla ekki og sé ekki ástæðu til þess að fara að rekja efni frv. að neinu verulegu leyti. Það liggur sjálft fyrir og ýtarleg grg. um ýmis atriði í sambandi við það og komið þar inn á ýmsar athuganir, sem n. gerði á sínum tíma um þörf fyrir byggingar hér. Það má þó nefna það svona fljótlega, að niðurstöðurnar urðu þær, að árlega yrði að byggja hér í kringum 900 íbúðir í þéttbýli, og er þá gert ráð fyrir, að það sé ekki einungis um venjulegt viðhald að ræða, heldur beint að útrýma ýmsum lélegustu íbúðum hér, þannig að þær verði algerlega teknar úr notkun, eins og braggaíbúðirnar, sem eru aðallega hér í Reykjavík. En úti um land eru líka hliðstæðar íbúðir viða, engu betri, þó að ekki séu gerðar eða til komnar á þann hátt. Átti samkvæmt áliti n. nokkurn veginn að nægja, ef hægt væri að reisa í kringum 900 íbúðir árlega. Í meðförum málsins kom svo það, að inn í þetta voru einnig teknar byggingar í sveitum og byggingarsjóði sveitanna ætlað að geta fengið lán úr því sameiginlega fjármagni, sem fengist í gegnum það skipulag, sem hér er verið setja, og þar sem gera má ráð fyrir, að 150–200 íbúðir þurfi árlega að reisa í sveitunum, er það komið upp í 1000–1100 íbúðir alls á ári, sem þarf að reisa, ef viðunandi reisn væri í þessum málum, samkvæmt því, sem n. áætlaði.

Nú hefur verið byggt geysimikið síðustu árin, og eru hér nokkrar upplýsingar um það í þeim skýrslum, sem fengnar eru frá nefndinni. T.d. er talið, að um mitt s.l. ár, 30. júní 1954, hafi verið í byggingu um allt landið, bæði í kaupstöðum og sveitum, í kringum 2250 íbúðir á ýmsu stigi, allt frá því, að verið sé að gera grunninn, til þess að sé verið að ljúka við húsið. Það gengur nú, eins og við vitum, misjafnlega, einkum þegar fjármagnsskortur er. Tekur þá oft langan tíma og allt of langan tíma að ljúka byggingu, sem byrjað er á. En hvað sem því annars liður, þá sýnir þetta, hve byggingarstarfsemin í landinu er þó mikil á þessum árum, enda hefur enginn dregið í efa, að svo sé.

Það er því, held ég, alveg rétt, sem hér er skýrt frá og tekið upp úr áliti n., að það séu einkum 4 atriði, sem einkenna ástandið í byggingarmálunum, eins og þá var og eins og er enn, því að það er ekki það langt síðan. Það er í fyrsta lagi, að talsverður húsnæðisskortur ríkir, í öðru lagi, að það er geysimikið húsnæði í byggingu, og er það stutt með þeim rökum, sem þegar hafa verið nefnd, í þriðja lagi, að mikið skipulagsleysi er ríkjandi í byggingariðnaðinum og í byggingarvöruverzluninni, þannig að sama og engin samhæfing á sér stað á byggingarefni og íbúðarhlutum, og oft tefjast framkvæmdir vegna þess, að byggingarvörur eru ekki til, þegar þeirra þarf með, og svo í fjórða lagi, að ekkert almennt veðlánakerfi er til, þannig að menn geti fengið hæfileg lán til að byggja íbúðir eða kaupa þær.

Ég held, að þetta sé rétt túlkað eins og það kemur hér fram um ástandið eins og það hefur verið.

Ég skal svo aðeins nefna í ósköp stórum dráttum, þremur eða fjórum atriðum — og koma lítið inn á hvert um sig, meginatriðin í þessu frv., sem hér liggur fyrir, og tek ég þá efnin eins og þeim er raðað niður í frv.

Það er í fyrsta lagi, að hér er sett á stofn húsnæðismálastjórn, eins og hún er nefnd, og er samkvæmt því, sem nú er í frv., skipuð þremur mönnum. Annars skal ég geta þess, að það getur vei verið, að ríkisstj. muni áður en umr. lýkur athuga þetta atriði, og gæti kannske verið til álita, að einhverjar breytingar kæmu fram um skipan þessarar húsnæðismálastjórnar, en það verður þá rætt við þá n., sem fer með málið hér í hv. Ed., ef til þess kæmi. En þessari húsnæðismálastjórn er ætlað að hafa yfirstjórn þessara mála og þá sérstaklega að því er varðar ýmis skipulagsatriði, eins og talið er hér í 2. gr. frv. Er það að mínum dómi mjög mikilsvert, að þar verði einmitt gerðir ýmsir hlutir varðandi rannsókn byggingarefna, varðandi aðstoð með góða og hæfilega uppdrætti að húsum og margt og margt fleira, gera tilraunir með að „standardisera“ byggingarnar að einhverju leyti, a.m.k. hluta úr þeim, og geta fengið þær á þann hátt sem ódýrastar, eins og hurðir, glugga og margvíslegt annað, þó að ekki væri um það að ræða, að allar íbúðir eða öll hús væru í sama sniði nákvæmlega, og margt fleira getur þarna komið til greina, sem ég skal ekki koma inn á, en er allýtarlega lýst í grg. frv.

Annað meginatriðið, og má kannske kalla, að það sé meginatriðið í sjálfu sér, er að koma á fót almennu veðlánakerfi til íbúðabygginga undir yfirstjórn húsnæðismálastjórnar og veðdeildar Landsbanka Íslands. Það er atriði, sem ríkisstj. tók sérstaklega upp í sambandi við undirbúning málsins, að semja við Landsbankann um að hafa forgöngu og yfirstjórn þessara mála. Í því sambandi vil ég vísa til bréfs Landsbankans, sem birt er í aths. við frv., þar sem hann lofar ákveðnum hlutum næstu 2 árin í sambandi við þetta mál. Ég sé ekki ástæðu til þess að lesa bréfið hér upp, þar sem það er prentað í nál., en í raun og veru er það þungamiðja þessa frv. að því leyti, að þar með er tryggt ákveðið lágmark í þessu skyni fyrstu 2 árin. Það var nú hvort tveggja, að Landsbankinn sá sér ekki fært að lofa lengra fram í tímann í bili, enda taldi ríkisstj., að það væri kannske ekki það þýðingarmesta nú að ákveða þetta um langt árabil, svo mjög sem óvissa ríkir í þeim málum, heldur að nú yrði tryggt, að allmikið fjármagn fengist til þessara hluta nú fyrstu 2 árin, og þá mundi koma í ljós reynsla um það, hvernig þessi starfsemi gengi. Vegna þess, hve nýtt þetta er hér á landi, leit ríkisstj. svo á, að ekki kæmi til greina að tryggja ekki einhverja lágmarksupphæð í þessum efnum nú, um leið og frv. var lagt fram, og teljum við, að með þessu bréfi Landsbankans sé því fullnægt næstu tvö árin, en að sjálfsögðu er það hugmynd ríkisstj. og ákveðin von um leið, að þetta reynist svo, að starfsemi þessi haldi áfram og sé þá hægt að auka hana að meira eða minna leyti, þegar þessi fyrsti próftími er úr sögunni, þessi tvö ár, sem hér er um að ræða.

Ég tel nú ekki ástæðu, held ég, á þessu stigi málsins að fara að ræða hér einstök atriði. Það er þá eðlilegra, að það komi aftur við 2. umr. málsins, þegar n. hefur farið í gegnum frv. og gert sínar athugasemdir um það. En það þarf í raun og veru ekki að taka fram, það er öllum hv. dm. kunnugt um það, að svo er til ætlazt af hálfu ríkisstj., að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi, og án þess að mér detti í hug að fara að reka neitt eftir þeirri n., hv. fjhn., sem væntanlega fær þetta mál til umr., vildi ég þó mega mælast til þess, að meðferð frv. yrði hraðað, eftir því sem ástæður yrðu til, því að vonandi fer nú að liða að þeim tíma, að Alþ. geti lokið störfum að þessu sinni.

Ég skal svo ekki þreyta ykkur með lengri ræðu, en legg til, að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til hv. fjhn.