05.05.1955
Efri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

183. mál, húsnæðismál

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, og þær ráðstafanir, sem á að gera samkvæmt því, eru án efa stærsta átakið, sem til þessa hefur veríð gert í húsnæðismálum þjóðarinnar, og er bæði frv. og aðrar ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar í sambandi við það, afleiðing af þeim samningi, sem gerður var á milli stuðningsflokka stjórnarinnar, um leið og núverandi ríkisstj. var mynduð.

Frv., eins og það var lagt fyrir þingið, fylgdi mjög ýtarleg grg. með skýringum á frv. og áætlunum og alls konar upplýsingum; auk þess talaði hæstv. félmrh. hér við 1. umr. málsins, þegar frv. var lagt fyrir deildina, og skýrði frá efni þess. Ég mun því algerlega sleppa því að tala um málið almennt.

Fjhn. hefur haft þetta mál til meðferðar, kynnt sér það rækilega og rætt það, og eins og nál. á þskj. 727 ber með sér, klofnaði n. Hv. 4. þm. Reykv. (HG) skilar séráliti og mun gera grein fyrir sinni afstöðu, en við hinir nm. leggjum til, að frv. verði samþ. með einni breytingu við 1. gr., sem prentuð er í nál. á þskj. 727. Brtt. fjallar um það að umorða 1. gr., en þó er ekki gerð breyting frá því, sem frv. var, nema um eitt atriði; það er kannske hægt að segja tvö atriði. Í staðinn fyrir að í húsnæðismálastjórninni áttu að vera 3 menn samkv. frv., leggur n. til, að það verði 5 menn í þessari stjórn. Er þessi till. n. gerð samkv. tilmælum hæstv. félmrh. En svo bætir n. því við, að einn af þessum mönnum skuli vera skipaður samkv. tilnefningu Landsbanka Íslands. Þetta mun í sjálfu sér ekki vera mikil breyting, því að mér skilst og n. skildist það vera samkomulag við Landsbankann, að hann fengi að ráða einum nm., en þá þótti okkur nm. í meiri hl. réttara að taka þetta beinlínis fram í lögunum og í raun og veru ástæðulaust að gera það ekki, þar sem þetta muni vera ætlunin. Einnig má benda á það, að þó að það sé samkomulag á milli Landsbankans og núverandi hæstv. ríkisstj., þá getur komið önnur ríkisstj., sem ekki teldi sig bundna af þessu, og er þá réttara að hafa þetta tiltekið í lögum.

Málið er þess vert, að um það hefði verið rætt meira en ég hef gert hér, en þar sem fundartíminn er afskammtaður, en hins vegar liggur á að afgreiða þetta mál, þá læt ég þessi orð, sem ég nú hef sagt, nægja.