06.05.1955
Efri deild: 82. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

183. mál, húsnæðismál

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og frá hefur verið skýrt, þá er þetta frv. borið fram af hæstv. ríkisstj. í því skyni að fullnægja ákvæði um húsnæðisvandamálið, sem tekið var í þann málefnasamning, sem stjórnarflokkarnir gerðu sín á milli, er hæstv. núverandi ríkisstj. var mynduð haustið 1953, en um þetta atriði segir svo í málefnasamningnum, með leyfi hæstv. forseta:

„Tryggt verði aukið fjármagn til íbúðabygginga í kaupstöðum og kauptúnum og þorpum, lögð áherzla á að greiða fyrir byggingu íbúðarhúsa, sem nú eru í smíðum, og lagður grundvöllur að því að leysa þetta vandamál til frambúðar.“

Þetta er það fyrirheit, sem hæstv. ríkisstj. gaf, þegar hún tók við völdum, og frv, það, sem hér liggur fyrir, er til þess ætlað að fullnægja þessu fyrirheiti.

Hv. frsm. meiri hl. sagði í ræðu sinni hér í gær, að ef frv. þetta yrði að lögum, þá væri gert stærsta átakið, sem nokkru sinni hefði verið gert í húsnæðismálunum á Alþ. Ég hygg, að þetta sé oflof um frv. og höfunda þess, hæstv. ríkisstjórn. Að vísu er ákveðið í þessu frv., að upp skuli setja veðlánakerfi, eins og þar er frá greint, og að stjórn skuli kosin fyrir þessar framkvæmdir allar, húsnæðismálastjórn, til sex ára. Hins vegar fylgír sá böggull skammrifi, að þær ráðstafanir til fjáröflunar, sem greint er frá í grg. og frv. er miðað við, eru aðeins miðaðar við næstu tvö árin. Ríkisstj. er heimilt að ákveða, að veðdeild Landsbankans skuli gefa út á þessum tveimur árum 200 millj. kr. í bankavaxtabréfum, og látið skina í það, að þetta fé muni koma inn í viðbót við annað til húsbygginga á þessu tímabili. En ekki verður séð, að trygg sé sala á meira af þessum bankavaxtabréfum en sem svarar rösklega 40 millj., eða 44 millj., hvort árið. Það fé, sem ætlazt er til að falli undir ramma veðlánakerfisins þessi tvö ár, er ætlazt til að komi annars staðar frá, frá öðrum stofnunum, og mikill hluti þess fjár, sem þessar stofnanir hafa til umráða og útlána, hefur á undanförnum árum verið lagður til húsbyggingarframkvæmda, svo að þar er engin breyting á önnur en sú, sem verður á vaxta- og lánskjörum samkv. frv.

Ég hygg því, að það sé allt of mikil bjartsýni að telja, að með því að gera þetta frv. að lögum sé bætt úr húsnæðisvandræðunum að verulegu leyti og lagður varanlegur grundvöllur að frambúðarlausn, eins og það er orðað í stjórnarsáttmálanum, ekki sízt þegar þess er gætt, að enn hefur ekkert komið fram, sem bendir til þess, að þegar þau tvö ár eru liðin, sem rætt er um í frv., verði fé fyrir hendi til áframhaldandi starfsemi. Þetta er því að minni hyggju frekar byrjunartilraun í tvö ár innan þeirra takmarka, sem frv. setur, sem svo eru vonir um að geta byggt á síðar og aukið við, en lengra er þessu máli ekki komið, þó að frv. verði samþykkt.

Fjhn. hefur athugað frv., og meiri hl. hennar vill samþykkja frv. svo til óbreytt, hefur aðeins fallizt á þá brtt., sem hann ber fram eftir tilmælum ráðherra, að fjölgað verði í húsnæðismálastjórn úr þremur upp í fimm. Ég tel hins vegar, að ef frv. þetta á að koma að því gagni, sem ég efa ekki að sé til ætlazt, og ef það á að vera til efnda á gefnu fyrirheiti, þá þurfum við að gera á því mjög verulegar breytingar.

Ég skal ekki tefja tímann með því að tala um það nýmæli, sem er í frv. um vísitölutryggð lán, — það er atriði, sem er sérstaks eðlis og ekki beinlínis snertir húsbyggingarmálin frekar en önnur fjárhagsmál. Ég skal ekki gera þessi ákvæði að umræðuefni, en aðeins segja, að ég álít rétt að gera þessa tilraun, af því fæst nokkur reynsla með útgáfu þessara nýju bréfa, bæði hvernig þeim er tekið og hver áhrif þau hafa á peningamarkaðinn yfirleitt. En að því er snertir lánskjör þessa frv., þá er gert ráð fyrir, að útlánsvextirnir verði 71/2%, auk lántökugjalds í eitt skipti 1%, að lánstíminn verði ekki lengri en 25 ár og að lánin til hverrar íbúðar verði yfirleitt um 70 þús. kr., þó að helmilt sé að fara upp í allt að 100 þús. kr.

Ég skal játa það, að fyrir menn, sem hafa nokkuð ríflegar tekjur eða búa við góð efni, væri veruleg fyrirgreiðsla, sem fengist, ef þetta frv. verður að lögum. En ég vil hins vegar fullyrða, að allur þorri almennings í landinu, þeir, sem búa við erfiðust kjör í húsnæðismálum, eru þannig settir, að þeir geta ekki notfært sér þau lánskjör, sem þetta frv. býður upp á. Kostnaðurinn við það húsnæði, sem komið er upp samkv. þessu frv., verður svo mikill, að það verður eignalausum mönnum með lágar eða miðlungstekjur ofvaxið. Í mjög greinargóðu nál., sem minni hl. fjhn. í neðri deild lagði fram, eru teknar upp ýmsar tölur til að sanna þetta, og veit ég, að hv. þdm. hafa kynnt sér þær. Í fyrsta lagi er það, að eftir þeim upplýsingum, sem nú liggja fyrir um byggingarkostnað í Reykjavík, eru þær upphæðir, sem nefndar eru í því sambandi í grg. þessa frv., sýnilega allt of lágar. Í grg. er rætt um, að það megi fá sæmilega íbúð hér fyrir 150 þús. kr. eða kannske tæplega það. Eftir þeim athugunum, sem á þessu hafa verið gerðar, virðist mér óhætt að fullyrða, að sómasamlega íbúð, sem er að stærð 300–350 rúmmetrar, sé ómögulegt að gera sér von um að koma upp hér í Reykjavík fyrir minna en 225– 265 þús. kr. Það svarar til 750 kr. byggingarkostnaðar á rúmmetra, og ég hygg, að það sé varla hægt að reikna með lægri upphæð en því. Fái nú sá maður, sem ræðst í að eignast slíka íbúð, 70 þús. kr. lán samkv. ákvæðum frv., þá þarf hann enn að afla sér til viðbótar a.m.k. tvöfaldrar þeirrar upphæðar. Ef hann hefur ekki fé til sjálfur, getur lagt það fram af eigin efnum, þá er ekki annað að gera en leita til annarrar lánsstofnunar en þessarar, sem hér er sett upp, um viðbótarlán. Og það er mikil bjartsýni að gera ráð fyrir því, að það lán fengist með þó ekki erfiðari kjörum en þetta frv. gerir ráð fyrir. Af íbúð, sem kostaði um 260 þús. kr., yrðu minnstu mánaðargreiðslur 1900 kr. á mánuði. Er þar gert ráð fyrir því, að hann greiði vexti og afborganir af 70 þús. kr. láni til veðlánakerfisins, en aðeins sparifjárvexti af því, sem á vantar, sem í þessu tilfelli yrði um 190 þús. kr. Það er ekki gert ráð fyrir neinum afborgunum í þessu, það eru bara vextirnir einir og afborganir af þessu 70 þús. kr. láni.

Nú má náttúrlega telja vonir til, að ýmsir séu svo, að þeir geti sjálfir lagt fram af eigin fé einhvern hluta, stærri eða minni, af þessari upphæð, sem á vantar, og þeim sé ekki lífsnauðsyn að reikna sér af henni fulla sparsjóðsvexti. (Gripið fram í.) Ég skal játa það. Það er nokkuð til í þessu. En engu að síður er eðlilegt að taka það með í reikningnum. En hitt er líka fullvíst, að af viðbótarláninu, hversu hátt sem það yrði, yrði óhjákvæmilegt að greiða afborganir, sem miðað við sama tíma og veðlánakerfið gerir ráð fyrir mundu taka milli 6 og 8 þús. kr. á hverju einasta ári. Er því enn fremur sýnt fram á í nál., sem ég drap á áðan, að til þess að þurfa ekki að greiða nema 1000 kr. í húsaleigukostnað af slíkri íbúð, þyrfti eigandinn að geta lagt fram ekki minna en 122 þús. kr. í reiðufé, sem hann reiknaði sér enga vexti af, og samt að fá 7 þús. kr. lán í viðbót við lán veðlánakerfisins. 1000 kr. á mánuði eru 25% af 4 þús. kr. mánaðartekjum. Og það hygg ég, að flestir geti orðið sammála um, að húsaleiga sé óhæfilega stór þáttur í framfærslukostnaðinum, þegar hún tekur meira en sem svarar fjórðungi af tekjunum.

Ég ætla, að það verði ekki hægt um það að deila, að þau lán, sem gert er ráð fyrir að veitt verði til íbúðabygginga samkvæmt þessu frv., og sá stuðningur, sem með því fæst til húsbygginga, sé hvort tveggja með þeim hætti, að útilokað er, að menn með lágar eða meðaltekjur, eignalausir, geti fært sér lánskjörin í nyt, geti komið sér upp sómasamlegu húsnæði, þó að þessu veðlánakerfi verði komið á fót. Það eru þeir einir, sem hafa allríflegar tekjur eða geta lagt fram stórar fjárfúlgur, sem geta borið húsnæðiskostnað, sem nemur yfir 2000 kr. á mánuði og jafnvel langt fram yfir það stundum. Ef maður með 3300–4300 kr. á mánuði réðist í slíkt fyrirtæki, þá er augljóst, að húsnæðiskostnaðurinn mundi gleypa meira en helminginn af tekjum hans.

Ég álít því, að ef þetta frv., ef það verður að lögum, á að geta komið almenningi að notum, þá þurfi að taka frá ákveðinn hluta fjárins og lána hann út samkvæmt öðrum reglum og með betri kjörum en gert er ráð fyrir í þessu frv. Hæstv. ríkisstj. hefur bersýnilega einnig komið auga á þessa staðreynd, að lánin, sem hér er að ræða um, eru ekki fyrir efnalaust lágtekjufólk. Þess vegna hefur hún gefið fyrirheit um það, að þau tvö ár, sem búið er að tryggja fé til þessara framkvæmda, skuli lagðar fram 24 millj. kr. til byggingarsjóðs sveitanna, sem hann lánar svo aftur út með stórum mun hagstæðari kjörum. Byggingarsjóður verkamanna hefur svipuðu verkefni að gegna í kaupstöðunum og byggingarsjóðurinn í sveitunum. Því hefði ég vænzt þess, að hæstv. ríkisstj. auk þeirrar almennu heimildar, sem hún hefur sett inn í lögi~ um, að það megi lána honum fé, hefði tryggt það, að einhver ákveðin lágmarksupphæð, ekki lægri en sú, sem ætlazt er til að lögð sé til byggingarsjóðs sveitanna, verði tryggð byggingarsjóði kaupstaðanna með þessum lögum, þannig að þeir geti hjálpað einhverjum hluta af þeim mörgu, sem þurfa að byggja og geta ekki fellt sig við þau lánskjör, sem veðlánakerfið býður upp á. Ég leyfi mér því að flytja brtt. um þetta efni.

Hið annað, sem ég hefði talið sjálfsagt og eðlilegt, þar sem hæstv. ríkisstj. er ljóst, að þetta kemur ekki að notum nema tiltölulega efnuðu fólki, er það, að mjög verulega hefði verið aukið og rýmkað um ákvæði um framlög til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum, þ.e.a.s. til þeirra bygginga, sem kaupstaðir vildu koma upp til þess að hjálpa því fólki, sem ]ítið eða sama og ekkert getur fram lagt af eigin efnum til þess að eignast húsnæði.

Að minni hyggju er óhjákvæmilegt í sambandi við tillögur til úrbóta í byggingarmálunum og húsnæðisvandræðunum að gera sér grein fyrir því, að í raun og veru er um fjóra flokka manna að ræða í sambandi við húsnæðisþörfina.

Í fyrsta lagi eru þeir, sem eru á svo lágum tekjum og eignalausir, að ekki eru neinar líkur til, að unnt sé að lána þeim nægilegt fé til þess sjálfir að eignast íbúðir nema með alveg sérstökum aðgerðum. Ég álít, að ef um ekkert framlag getur verið af kaupendanna hálfu að ræða, sé líklegasta lausnin sú, að bæjarfélögin reisi byggingar fyrir þetta fólk og leigi þeim þar sómasamlegt húsnæði við nútímahæfi og gefi þeim kost á með mánaðargreiðslu smám saman að verða eigendur að húsnæði sínu, ef þeir óska þess.

Í næsta flokki mundi ég telja þá, sem geta lagt fram nokkurt fjármagn, þótt litið sé, og kannske verulega vinnu við að koma upp eigin íbúðum, en hafa svo lágar tekjur, að þeir geta ekki risið undir því að greiða af lánum, sem óhjákvæmilegt er að taka á skömmum lánstíma, venjulega útlánsvexti. Einmitt slíkum mönnum var tilætlunin að hjálpa með stofnun byggingarsjóðs kaupstaðanna fyrir verkamenn og byggingarsjóðs sveitanna, en því aðeins koma þessir sjóðir að gagni, að þeir hafi það starfsfé, sem geri þeim fært að geta bætt úr þörf og nauðsyn nokkurs verulegs hóps manna.

Í þriðja lagi eru svo þeir, sem þurfa ekki aðra fyrirgreiðslu í sambandi við byggingarmálin en að eiga nokkurn veginn tryggt að geta fengið hæfilegan hluta af byggingarkostnaðinum að láni og þá aðstoð ríkisins í því skyni, eins og t.d. veitt hefur verið samvinnubyggingarfélögum ýmsum, eins og kunnugt er. Það er nánast fyrir þá, sem eru heldur ofan við meðaltekjur í þessum flokki, og þá, sem þar eru ofar, sem ákvæði þessa frv. hér eru miðuð.

Í fjórða lagi eru svo þeir, sem þurfa ekki neina fyrirgreiðslu í þessum efnum, heldur geta fullkomlega séð um sig sjálfir.

Í löggjöfinni frá 1952 um opinbera aðstoð til íbúðabygginga í kaupstöðum og kauptúnum landsins eru einmitt þessir þrír fyrst nefndu flokkar hafðir í huga og þeim tryggð nokkur fyrirgreiðsla í byggingarmálunum, eða sú var ætlunin með þeim lögum, eins og þau voru 1952.

Ég hef veitt því athygli, að í grg. frv. er því mjög sterklega haldið fram, að það eina eðlilega, það heilbrigðasta og affarasælasta í þessum málum sé það, að þeir, sem húsnæðið nota, greiði kostnaðarverð fyrir þessa þjónustu, eins og það er orðað, því að þá takmarkist neyzlan, þ.e. húsnæðið, við fjárhagsgetuna; þ.e.a.s., að lán til íbúðabygginga, hvort sem um ríka eða fátæka, einhleypa eða fjölskyldumenn er að ræða, skuli við það eitt miðuð, að féð komi að fullu aftur frá þeim, sem nota húsnæðið, með fullum venjulegum víxilvöxtum eða útlánsvöxtum. Þetta virðist höfundum frv. álitlegasta og affarasælasta leiðin í þessum málum.

Ég get ekki neitað því, að mig furðar mjög á þessum kenningum. Ég held, að hvergi, þar sem hið opinbera hefur nokkur afskipti af byggingarmálunum, sé miðað við þetta sjónarmið, a.m.k. er það víst, að í nágrannalöndum okkar, Norður]öndum, Bretlandi og Þýzkalandi, í Mið-Evrópulöndunum, er ekki miðað við þetta. Þar er beinlínis miðað við og horfzt í augu við þá staðreynd, að það er ekki hægt að leysa húsnæðisvandamál þorra manna í löndunum nema taka tillit til hinnar mismunandi efnalegu aðstöðu, sem borgararnir búa við, og mismuna þeim í lánskjörum eftir því, hvernig þeir eru staddir í þessum efnum.

Í nágrannalöndum okkar, Danmörku, Svíþjóð og Noregi, þar sem ég þekki þetta helzt, er það talin fjárhagsleg nauðsyn og þjóðfélagsleg skylda að gera fólki, sem hefur lágar og miðlungstekjur, þótt eignalaust sé, kleift ekki bara að eignast húsnæði, heldur eignast það með þeim kjörum, að húsnæðiskostnaðurinn fari ekki fram úr ákveðnum hluta af venjulegum meðaltekjum þessa fólks. Í þessu skyni leggur hið opinbera fram í þessum löndum stórfé, sumpart sem vaxtalaust eða vaxtalágt lán til mjög langs tíma og sumpart sem beinan styrk til stofnana, sem hafa það verkefni að sjá þessu fólki fyrir lánum, og lánin eru mismunandi mikill hluti af kostnaðarverði og til mismunandi langs tíma og með mismunandi vaxtakjörum eftir því, hvernig efnahagur fólksins, sem lánin fær, er, eftir því, hvað það veitir sér mikið í húsnæðinu, hversu það byggir stórt. Með þessu móti hefur lánazt síðan 1948–49 að lækka heldur þann hluta teknanna, sem gengur til húsnæðiskostnaðargreiðslu í þessum löndum öllum, frá því, sem það var fyrst eftir stríðið.

Í Danmörku og Svíþjóð er nú talið, að húsnæðiskostnaður verkamanns, sem eignast nýja tveggja herbergja íbúð, auk eldhúss og annars, sem tilheyrir, sé um 20% af tekjum hans, og þá er upphitun talin með í húsnæðiskostnaðinum. Í Noregi eru tilsvarandi tölur 17% húsnæðiskostnaður af meðaltekjum.

Þetta eru nýjustu húsin, sem byggð eru. Í eldri húsum, sem fyrr voru byggð, er húsnæðiskostnaðurinn tiltölulega lægri, enda eru í þessum löndum því fólki, sem svona er ástatt um, veitt lán til 60–75 ára og sums staðar farið með lánin allt upp í 95% af kostnaðarverði.

Mig furðar því mjög á því, að höfundur þessa frv. leyfi sér að fullyrða, að það eigi að leysa húsnæðisvandræði fólksins í landinu og leggja grundvöll að frambúðarlausn með því að láta greiða þessa þjónustu með fullu kostnaðarverði, eins og það er kallað, þ.e.a.s. greiða fyllstu bankavexti af lánunum og þau upp á tiltölulega skömmum tíma.

Nú er það alls staðar viðurkennt, að það sé ekki hægt að ætlast til, að einstaklingur, sem byggir varanlegt hús hér í Reykjavík úr járnbentri steinsteypu, sem getur enzt í hundrað ár og líklegt er að geri það eða jafnvei lengur, eigi að leggja á sig alla byrðina af því að koma þessu húsnæði upp, sem kemur að notum næstu kynslóðum, fleirum eða færri. Einmitt við þetta sjónarmið eru miðuð ákvæði laganna hjá nágrannaþjóðum okkar um að veita byggingarlánin til sérstaklega langs tíma og með lágum vöxtum, og þá er ekki horft í það, ef almenni lánamarkaðurinn heimtar hærri vexti en þessir lágu útlánsvextir stofnananna verða, að greiða nokkurt fé til að jafna þann mismun, alveg á sama hátt og hér hefur verið gert í örlitlum mæli í sambandi við starfsemi byggingarsjóðs verkamanna og byggingarsjóðs sveitanna. Í þessum löndum er litið svo á, eins og ég áðan sagði, að það sé á allan hátt óheppilegt, ekki fyrir einstaklingana eingöngu, heldur þjóðfélagið í heild, að húsnæðiskostnaðurinn gleypi meira en sem svarar 20% af tekjum almennings. Ef hann tekur meira af tekjunum, hlýtur það að leiða til þess, að kaupgjald í landinu verður þeim mun hærra eftir meiri eða minni átök heldur en ella mundi, sem húsnæðiskostnaðurinn fer fram úr þessu marki.

Af því leiðir aftur aukinn framleiðslukostnað, erfiðari aðstöðu til samkeppni með útflutningsvörur og aukna dýrtíð innanlands. Þess vegna hafa þeir talið það fjárhagslega nauðsyn, eins og ég áðan sagði, að gera ráðstafanir til að halda húsnæðiskostnaðinum niðri. Hann hlýtur að ganga inn í framleiðslukostnaðinn og hafa sín áhrif á hann. Ég fæ því ekki séð annað en að eins og það er talið eðlilegt og nauðsynlegt hjá okkur að greiða niður mjólk, smjör og smjörlíki, kartöflur og fleiri vörur til þess að sporna við aukningu framleiðslukostnaðarins, eins og ég áðan benti á, og til þess að tryggja hóflegt verð á þessum vörum fyrir þá, sem lægstar hafa tekjurnar, þá sé alveg eðlilegt og í samræmi við þetta og samræmi við gerðir annarra þjóða að veita sérstök lánskjör til byggingar íbúða fólks, sem ekki kemst upp í það eigna- og tekjumark, sem nauðsynlegt er til þess að geta notað sér fyrirgreiðslu þessa frv., þegar það verður að lögum. Því hefði ég vænzt, eins og ég áðan sagði, að hæstv. ríkisstj. hefði séð sér fært að leggja til, að ákveðið fjármagn yrði látið renna til byggingarsjóðs verkamanna og að hækkað yrði mjög frá því, sem gert er ráð fyrir í frv., það framlag, sem ætlað er til stuðnings kaupstöðunum til þess að koma upp íbúðum í staðinn fyrir braggana og aðrar heilsuspillandi íbúðir.

Þá skal aðeins á það bent, að lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna hafa undanfarin ár veitt nokkur lán til íbúðabygginga fyrir sina sjóðsfélaga. Þau lán hafa verið með nokkru betri kjörum en gert er ráð fyrir í þessu frv. Þau hafa verið veitt til allt að 35 ára og lánsupphæðin hefur mátt fara allt að 100 þús. kr., og vextirnir eru nú á milli 51/2 og 6%, flestir 6%, og ekkert lántökugjald. Ef það er ætlunin, sem mér skilst á þessu frv., að þessi útlán lífeyrissjóðanna eigi að falla undir veðlánakerfið, þá virðist augljóst, að lánskjörin hjá þessu fólki verða gerð óhagstæðari en nú er.

Samkvæmt þessu frv. er ætlazt til þess, að sérstök húsnæðismálastjórn, skipuð þremur mönnum, eigi að hafa yfirstjórn þessara mála. Hún á bæði að sjá um tæknilega hlið málsins, þ.e.a.s. umbætur og fyrirgreiðslu að því er húsbyggingarmál snertir, og reyna að gera ráðstafanir til þess að lækka byggingarkostnaðinn, og er ekki nema gott eitt um það að segja. En þeir sömu tæknilega fróðu menn sem eiga að hafa með þessa hlið málsins að gera, eiga einnig að úthluta þeim lánum, sem veitt verða samkvæmt ákvæðum frv.

Mér skilst nú í fyrsta lagi, að þess sé varla að vænta, að hægt sé að velja svo tvo menn, eða þó að þeir væru fimm, að þeir hafi sérþekkingu, sem æskileg væri fyrir báðar þessar hliðar málsins; að sá, sem getur lagt til þekkingu og kunnugleika í byggingarmálum og komið fram með till. um umbætur í því efni, lækkun byggingarkostnaðar, hagkvæmara skipulag, hvort það eigi að vera sambyggð hús eða smáhús o.s.frv., o.s.frv., þurfi endilega að vera tilvalinn til þess að hafa vit á því að meta aðstöðu manna og segja, hverjum eigi að veita lán. Það álít ég mjög vafasamt.

Ég álít því, að það sé rétt að skilja þessar tvær hliðar alveg að, svo sem kemur fram í mínum brtt., og að sérstakir aðilar fari með hvor sinn þátt þessara mála, en ráðuneytið, félmrn. eða ráðh., hafi svo yfirstjórn málanna í sínum höndum.

Samkvæmt þessu, sem ég nú hef sagt, tel ég nauðsynlegt að gera mjög verulegar breytingar á frv. og hef leyft mér að leggja fram um það brtt. á þskj. 748, og skal ég þá víkja örfáum orðum að brtt.

1. brtt. mín lýtur að því, hvar skuli vera yfirstjórn þessara mála allra, og legg ég til, að 1. gr. verði breytt í það horf, að þar sé aðeins sagt, að yfirstjórn þessara mála allra skuli vera hjá félmrh. Það er alveg eðlilegt, að félmrh., sem er sá aðili, sem þessi mál falla undir, og hlýtur jafnan að hafa mest áhrif á meginstefnuna í þeim, fari með yfirstjórn málanna.

Hins vegar og enn fremur legg ég til, að í staðinn fyrir að fela húsnæðismálastjórn, sem fellur niður, ef till. mín við 1. gr. verður samþ., að vinna að umbótum í byggingarmálum með þeim ráðstöfunum, sem taldar eru upp í tölul. 1–5, verði Iðnaðarmálastofnun Íslands falið að annast þessa hlið málsins. Þetta er einmitt einn meginþáttur þeirra verkefna, sem Iðnaðarmálastofnuninni er ætlað að vinna að, rannsóknir á öllum þeim mörgu atriðum, sem koma til greina í sambandi við það, hversu iðnaður verður bezt rekinn hér á landi, þannig að hann skili sem beztum afköstum og framleiði sem ódýrastar og beztar vörur. Mér er einmitt kunnugt um, að Iðnaðarmálastofnunin hefur þegar hafið nokkrar undirbúningsathuganir og rannsóknir í sambandi við byggingar, og tel því vel fallið, að hún hafi umsjón þessa þáttar framkvæmdanna í sínum höndum, en að sjálfsögðu jafnframt, að hún vinni með þeim aðilum, sem taldir eru hér upp í 5. lið, og hafi við þá samráð og noti sérþekkingu þeirra, eftir því sem við verður komið. Sparast þá sá kostnaður á veðlánakerfinu, sem af þessu leiðir, og leggst á Iðnaðarmálastofnunina, vegna þess að það eru að mörgu leyti, eins og ég áður sagði, sömu eða svipuð verkefni, sem hún vinnur að nú og hún mundi vinna að, ef henni væru falin þessi mál.

Enn fremur leyfi ég mér að leggja til, að breytt verði í þessari gr., 2. gr., 4. tölul., þar sem segir, að húsnæðismálastjórn, sem yrði þá Iðnaðarmálastofnunin, eigi að beita sér fyrir útvegun hagkvæmra íbúðateikninga. Ég legg til, að þessu verði breytt þannig, að hún eigi að veita húsbyggjendum endurgjaldslaust kost á öllum nauðsynlegum teikningum í tilteknar gerðir íbúða. Með þessu meina ég það, að hún eigi að búa til ákveðna fyrirmyndaruppdrætti, miðað við íbúð af hóflegri stærð, og þeir uppdrættir skuli svo látnir í té endurgjaldslaust til þeirra, sem vilja byggja samkvæmt einhverjum þessara uppdrátta. Ef þeir vilja ekki nota þessa uppdrætti og vilja hafa húsið stærra, dýrara, íburðarmeira en þar er gert ráð fyrir, þá er ekki nema eðlilegt, að þeir borgi sjálfir þann kostnað, sem uppdrættirnir valda.

Þá ber ég fram brtt. við 3. gr., að orðið „húsnæðismálastjórn“ falli niður. Það er afleiðing af því, sem áður er sagt.

Í 4. gr., þar sem segir, að í varasjóð hins almenna veðlánakerfis skuli renna eignir lánadeildar smáíbúða, þegar greiddar hafa verið skuldir hennar, legg ég til að verði gerð sú breyting á, að skuldabréf og aðrar eignir lánadeildar smáíbúðarhúsa skuli renna til varasjóðsins, enda greiði ríkissjóður skuldir hennar við Landsbanka Íslands. Ef þessi brtt. er samþ., þýðir það það sama og að auka starfsfé veðlánakerfisins að ég ætla um á milli 30 og 40 millj. kr., sem er upphæð þeirra lána, sem smáíbúðadeildin hefur tekið. Mér er ekki fullkunnugt um vaxta- og afborganakjör af þessum lánum, en ég hygg, að það sé varlega reiknað, að til greiðslu á þeim fari a.m.k. 4 millj. kr. á ári, sem þá dregst frá því fé, sem er til útlána samkvæmt frv. En ef till. mín yrði samþ., þá ykist starfsfé veðlánakerfisins um þær eitthvað milli 30 og 40 millj. kr., sem smáíbúðadeildin nú skuldar og mun að mestu leyti vera skuld við ríkissjóð og að einhverju leyti við Landsbankann.

5. brtt. mín er víð 6. gr., að aftan við 1. málsgr. a-liðar bætist: „Þeir lánbeiðendur, sem hafa fyrir stærstri fjölskyldu að sjá, skulu að öðru jöfnu sitja fyrir lánsfé.“ Ég bygg, að ég þurfi ekki að hafa mörg orð um þessa till., hún skýrir sig sjálf, og af grg. má sjá, að hæstv. ríkisstj. telur, þótt ekki séu nein ákvæði um það í frv., fyllstu ástæðu til þess að taka tillit til fjölskyldustærða við veitingu lánanna.

G-liðurinn er aðeins í sambandi við fyrri till. 6. brtt. er við 7. gr., en í 7. gr. segir, að það skuli vera heimilt að lána byggingarsjóði sveitanna og byggingarsjóði verkamanna af því fé, sem veðdeild Landsbanka Íslands hefur til útlána samkv. 5. gr., en ekkert um, hversu mikið skuli lánað. Hins vegar er samkv. grg., enda yfirlýst af hæstv. ríkisstj., þegar búið að ákveða, að lánin til byggingarsjóðs sveitanna skuli vera a.m.k. 12 millj. kr., þó að það sé nú reyndar ekki nefnt í málefnasamningi ríkisstj. frá 1953, sem ég áðan gat um, en hins vegar engin lágmarksskylda sett að því er varðar byggingarsjóð verkamanna og því allt í mestu tvísýnu, hvort eða hve mikið til hans skyldi renna af þessu fé.

Ég legg því til, að það sé ákveðið í gr., að hvor þessara sjóða skuli fá 12 millj. kr. árlega næstu 5 ár af því fé, sem veðdeild Landsbankans hefur til útlána samkvæmt 5. gr. Þetta er það lægsta, sem mér finnst berandi fram að verði tryggt byggingarsjóði verkamanna, 12 millj. kr. á ári næstu tvö árin og sama upphæð áfram, ef veðlánakerfið þá hefur fjármagn til þess. Ég hef drepið áður á nauðsynina í þessum efnum, þar sem byggingarsjóð verkamanna skortir tilfinnanlega starfsfé og getur aðeins hjálpað fáum einum af þeim, sem rétt eiga til að leita til hans með lán, og þeim mun ekki fækka, þó að þetta frv. verði samþykkt.

Þá er 7. brtt., við 8. gr. Hún er þess efnis, að sérstök nefnd, skipuð fulltrúum bankanna, skuli hafa með að gera ákvörðun um útlán og að bankarnir greiði þann kostnað, sem því er samfara. Ég hef flutt aðra till. og gert grein fyrir henni, því að verkefnið er tvíþætt, annars vegar það tæknilega, sem ég tel að Iðnaðarmálastofnunin eigi að hafa, hins vegar úlánastarfsemin, sem ég tel að bezt sé komin í höndum nefndar, sem fulltrúar bankanna, einmitt þeirra aðila, sem leggja fram mest af fénu, skipi, og veiti svo lán eftir venjulegum útlánareglum innan ramma laganna. Ég legg til, að nefndin kjósi sér sjálf formann, en ef ríkisstj. þætti það betra, þá get ég eins fallizt á, að hún skipaði formanninn, ef það mætti nokkuð liðka málið.

Þá er 8. brtt. Það er aðeins afleiðing af því, sem fyrr er komið.

9. brtt. er, að á eftir 9. gr. komi ný grein um eigin byggingarsjóði samkvæmt þeim ákvæðum, sem í greininni segir.

Í 2. tölul. 9. gr. frv, segir, að húsnæðismálastjórn skuli beita sér fyrir því, að innlánsstofnanir komi á fót samningsbundnum sparnaði til íbúðarbygginga eða kaupa á íbúðum. Skal heimilt að láta þá, sem taka þátt í slíkum sparnaði, sitja fyrir um íbúðalán. Með þessu er viðurkennd sú hugmynd, að æskilegt væri, að menn byrjuðu þegar á unga aldri að spara saman til heimilisstofnunar, og eftir því sem í frv. segir, er ætlazt til að hvetja menn til þess með því, að þeir gangi fyrir öðrum á umsóknarlistum um lán samkvæmt lánakerfinu. Ég held, að það sé mikil bjartsýni að láta sér detta í hug, að slík fyrirgreiðsla ein mundi nægja til þess að hvetja menn til að safna fé þegar á unga aldri í þessu skyni. Hins vegar tel ég víst, að ef menn fengju skattfrelsi af ákveðnum hluta tekna sinna, allt að ákveðinni upphæð á ári og allt að ákveðinni upphæð í heild, þá mundu menn þrátt fyrir óvissuna um sparifé, sem stöðugt er til staðar, kannske í vaxandi mæli, leggja þetta fé til hliðar, ef þeir með því móti gætu sloppið við að greiða af því skatt. Till. er þess efnis, að framlög fjölskyldumanna í byggingarsjóð skuli undanþegin tekjuskatti, ef þeir eiga ekki íbúð, sem fer fram úr 90 m2 að stærð. Þó tekur þetta aldrei til meira en 1/4 hluta af tekjunum, aldrei yfir 20 þúsund kr. á ári og aldrei yfir 200 þús. kr. alls. Síðan eru reglur um það, hversu sjóðurinn skuli ávaxtaður og hversu skuli með hann farið, ef hann sé notaður til annars en til íbúðarbyggingar fyrir fjáreigandann sjálfan. Þá kemur féð aftur til skatts, þegar það er tekið út úr sjóðnum. Á þá ríkissjóður ekki að missa neins í.

11. brtt. lýtur svo að ráðstöfun til útrýmingar heilsuspillandi íbúða, þ. á m. bragganna. Það fólk, sem þar býr, margt af því, er í þeim hópi manna, sem ég taldi fyrst, er ég ræddi um 4 flokka með tilliti til þarfanna með aðstoð við byggingar, þ.e.a.s. þá, sem eru tekjulágir mjög og yfirleitt eignalausir eða eiga nær engar eignir. Einmitt fyrir þetta fólk, sem býr í heilsuspillandi íbúðum, er lögð sú skylda á ríkisstj. að hafa forgöngu um útrýmingu heilsuspillandi íbúða og hafa samvinnu um það við kaupstaði, og leggja fram til jafns við kaupstaðina, ef þeir ráðast í framkvæmdir til þess að byggja yfir þetta fólk, annaðhvort leiguíbúðir eða íbúðir, sem það gæti eignazt, t.d. með mánaðargreiðslum, eins og ég drap á fyrr í ræðu minni. Sú upphæð, sem í frv. er gert ráð fyrir að ríkisstj. megi nota í þessu skyni, aðeins 3 millj. kr., er gersamlega ófullnægjandi. Ég skal ekki rekja neinar tölur úr þessu, bendi bara hv. þm. á að lesa þá ýtarlegu skýrslu um húsnæðisþörfina, sem nú er fyrir hendi, í grg., sem fylgir frv. Það er augljóst, að það fé, sem hér er til umráða í þessu skyni, er eins og dropi í hafið. Ég legg því til, að framlagið verði hækkað upp í 10 millj. kr. á ári. Með slíkri upphæð, og kannske réttar sagt með vissunni um það, að slík upphæð fáist á næstu 5 árum, mætti nokkurn veginn sjá fyrir endann á því verki að útrýma braggaíbúðunum og öðrum heilsuspillandi íbúðum á þessu tímabili, sem þarna er nefnt.

Hæstv. ríkisstj. hefur haft verulegan tekjuafgang undanfarin ár og ráðstafað honum til ýmissa hluta. Ég held það geti varla verið um það deilt, að svo þörf og brýn nauðsyn sem er á ýmsum þeim framkvæmdum, sem tekjuafgangi ríkisins hefur verið varið til, þá sé þó engin, sem er meira aðkallandi en að flýta fyrir því, að heilsuspillandi íbúðum í landinu verði útrýmt. 10 millj. kr. eru nokkuð innan við 2% af útgjaldahlið fjárlaganna, og er það upphæð, sem ekki veldur ríkissjóðnum neinum sérstökum erfiðleikum að sjá fyrir eða afla á annan hátt.

Ég hef nú gert grein fyrir þessum brtt. mínum og vona, að ég hafi ekki reynt um of á þolinmæði forseta og hv. þdm. Ég skal að lokum segja það, að ég játa, að það er nokkurri fyrirgreiðslu heitið þeim, sem vilja byggja yfir sig, með þessu frv. hér. En það er að frv. óbreyttu ekki nema tiltölulega takmarkaður hópur fólks í landinu, betur megandi fólks, sem siður þjáist af húsnæðisvandræðum en hinn hlutinn, sem getur notað sér þetta. Þeim, sem verst eru settir í hús-, næðismálunum og því í raun og veru þurfa mesta hjálpina, er ekki fært að frv. óbreyttu að hafa þess veruleg not. Þess vegna tel ég, að nauðsynlegt sé að gera þær breytingar á frv., sem ég hef nú gert grein fyrir.