06.05.1955
Efri deild: 82. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

183. mál, húsnæðismál

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að flytja hér nokkur orð. Ég mun ekki tala langt mál. Ég hélt hér stutta ræðu við 1. umr. frv.

Ég vil leyfa mér að þakka meiri hl. hv. fjhn. fyrir hennar afgreiðslu á frv. Hún hefur afgr. frv. fljótt, og sá dráttur, sem á því varð, stafaði eingöngu af því, að ríkisstj. var að velta fyrir sér einstökum atriðum. Ég get einnig þakkað henni fyrir þá brtt., sem hún flytur og er í samræmi við óskir ríkisstj. um þetta, og þarf ég ekki að taka fleiri orð fram um það.

En ég verð að segja hér nokkur orð í sambandi við þá löngu ræðu, sem hv. 4. þm. Reykv. (HG) hefur flutt hér. Mér fannst nú um allt að 3/4 hluta af þeirri ræðu, að þá hefði eiginlega átt að flytja við 1. umr. málsins, og var nú í raun og veru nákvæmlega það sama, en nokkru ýtarlegra e.t.v. en hann talaði við þá umræðu. En það er síður en svo, að ég sé að hafa á móti því, að svo almennt hafi verið talað um málið hér, og það, sem ég segi nú um þetta, mun verða á svipuðum nótum. Það eru almennar hugleiðingar, og ég mun nefna nokkur einstök atriði út af því, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði, en mun láta hv. frsm. fjhn. um það, eftir því sem honum virðist ástæða til, að tala um sjálfar einstakar brtt. hv. 4. þm. Reykv.

Það var mjög greinilegt, að hv. 4. þm. Reykv. vildi gera sem allra minnst úr þessu frv. og helzt láta í það skína, þó að hann slægi nokkuð úr og í um það efni, að það væri í sjálfu sér einskis virði, hér væri eingöngu verið að búa til kerfi fyrir þá borgara í þjóðfélaginu, sem vel væru efnum búnir, til þess að létta þeim um lántöku til íbúðarhúsabygginga. En hann sagði oft, að ekkert væri gert fyrir aðra, þótt hv. þm. hins vegar yrði að viðurkenna það öðru hverju, að það er einmitt gert býsna mikið fyrir þá, sem verr eru staddir, með því frv., sem hér liggur nú fyrir. Ég veit vel, að hv. 4. þm. Reykv. hefur áður staðið að því, þegar hans flokkur var í ríkisstj., að það voru sett afskaplega falleg lög um að byggja yfir alla landsmenn, án þess að það kostaði þá, sem átti að byggja yfir, nema að minnsta kosti óskaplega lítið. En það sorglega við það að setja þessi fallegu lög, sem voru í gildi í nokkur ár, var það, — ég hygg, að það sé rétt munað, — að einmitt þegar Alþfl. fór með forsæti í ríkisstj., varð að afnema töluvert mikið af þessum lögum, af því að það höfðu aðeins verið glansmyndir, en enginn raunveruleiki á bak við. Þetta er að mínum dómi mjög sorgleg staðreynd, og þetta kemur áreiðanlega ekki neinum að gagni og sízt þeim, sem mest þurfa á hjálp að halda, því að það er að mínum dómi beint illa gert að vera að flagga því framan í fólk, sem á í miklum erfiðleikum og húsnæðisvandræðum, að það sé e.t.v. hægt að koma upp með einhverjum Aladdínsráðum íbúðum, ótrúlega ódýrum, og svo verða þetta ekkert annað en skýjaborgir, sem hrynja til grunna.

Núverandi ríkisstj. hefur alls ekki viljað fara þannig að, og þetta frv., sem hér liggur fyrir, er raunhæft, enda hefur stjórnarandstaðan hvorki í hv. Nd. né hér mótmælt því. Hún hefur haldið því fram, að það væru dýr lán, sem hér er um að ræða, og það er rétt. Forvextir af lánum eru því miður háir hér á landi nú, og við verðum að allmiklu leyti að búa við það kerfi, sem á hverjum tíma er. Það er jafnvíst. En þetta frv., sem hér er fram flutt af hálfu ríkisstj., er raunhæft að því leyti, og er búið að tryggja framgang málsins — að vísu ekki fyllilega með fullum samningum nema um 2 ára tímabil — en sá grundvöllur, sem hér er lagður um það veðlánakerfi, sem hér er um rætt og á að dæla fé í þann sjóð, sem síðan megi veita til ýmissa íbúðarhúsabyggingarframkvæmda, bæði í sveitum og við sjó, er einmitt það raunhæfa í málinu. Ég get vel viðurkennt, að 2 ára samningur við Landsbankann er náttúrlega ekki nema bráðabirgðasamningur, en við í ríkisstj. og Landsbankinn, sem hefur gengið til samninga við okkur, trúum því, að einmitt á þessum 2 árum sé hægt að undirbyggja sams konar starfsemi e.t.v. og vonandi betri með því að ná meira fé og bæta þetta að ýmsu leyti aftur til framtíðarinnar. Og það er á þessum grundveili, sem frv. er flutt fyrst og fremst. Svo verður þjóðin sjálf að dæma um það, hvort það sé ekki eins gott að fá löggjöf eins og þessa, sem er fyllilega raunhæf og öruggt er um að mun veita það fé, sem nú er búið að tryggja næstu 2 árin, eins og eitthvert orðaglamur eða glansmyndir, sem enginn veit, hvort nokkuð raunhæft stendur á bak við.

Hv. 4. þm. Reykv. hefur mjög fundið að því, bæði við 1. umr. málsins og eins nú, að ekki skuli tryggt að fullu byggingarsjóði verkamanna ákveðið fjármagn í þessu frv. Ég get mjög vel skilið, að hv. þm. hafi mikla löngun til að tryggja þessum sjóði sem mest fjármagn, mér finnst það eðlilegt og rétt, og þess vegna eru þessir tveir sjóðir settir hlið við hlið í frv., byggingarsjóður sveitanna og verkamannabústaðasjóðurinn, að það er ætlazt til þess, að báðir þessir sjóðir fái fé úr þessu kerfi, sem hér er um að ræða. Hitt er svo allt annað mál, að byggingarmál sveitanna og byggingarmál þéttbýlisins eru allmjög annars eðlis. Byggingarsjóður sveitanna hefur fengið fé á annan hátt en hefur verið um að ræða fyrir þéttbýlið. Og það var á seinni stigum þessa máls, — ég get lýst því alveg hreinskilnislega yfir, — að byggingarsjóður sveitanna var tekinn inn í þetta kerfi. Ég hafði lengi vel vonað og skal viðurkenna það, að byggingarsjóður sveitanna gæti e.t.v. bjargazt með þá möguleika, sem hann áður hefur haft, með lántökum hér og þar og slíku, til þess að geta sinnt hlutverki sínu, sem er að losna við óhæfar íbúðir í sveitum, sem því miður eru margar enn, og koma í þess stað upp mannsæmandi íbúðum. En svo var það greinilegt, þegar leið á s.l. ár, að þetta var ekki hægt lengur. Það varð alveg séð, að sá sjóður yrði fjárvana, ef ekki yrði gripið til þeirra úrræða að útvega honum á einhvern hátt nýtt fjármagn. Þetta er að sjálfsögðu í sambandi við möguleika ræktunarsjóðsins líka, en eins og hv. þdm. vita, þá er svo til ætlazt, að þessir sjóðir fái fé framvegis úr þeim hluta af mótvirðissjóðnum, sem Framkvæmdabankinn fer með, sem ætlaður var til sveltanna. En framkvæmdir hafa svo stóraukizt í sveitum síðustu árin og sérstaklega hið síðasta ár, að þeir voru alveg að þrotum komnir hvað þetta atriði snertir, og ríkisstj. öll féllst á þessar röksemdir, að það væri ekki um annað að gera til þess að firra stórkostlegum þjóðarvoða. Ég hef ekki trú á því, að hv. 4. þm. Reykv. eða nokkur hv. þm. teldi, að það væri eðlilegt og gott, að nokkur hundruð sveitaheimill legðust í eyði á næstu árum vegna þess, að ómögulegt væri að reisa þar mannsæmandi íbúðir. Þetta er grundvöllurinn í málinu. Og eins og þetta mál lá fyrir, þegar búið var að átta sig á þessu og ríkisstj. var öll sammála um, að það yrði að leysa húsnæðismál dreifbýlisins eða sveitanna um leið og hitt, þá var vitanlega um ekkert annað að gera en í lögunum sjálfum að taka einhverja fjárhæð frá í því efni, vegna þess að verkefnin eru í raun og veru svo óskyld.

Þetta var mál, sem kom inn á sínum tíma, og það var að okkar áliti miklu eðlilegra, að þetta væri þá strax tekið frá, heldur en að enginn vissi, hvað af því, sem þarna kemur inn, sem þó er nokkuð fast ákveðið samkvæmt þeim skuldbindingum, sem Landsbankinn hefur tekið á sig, færi til sveitanna, og hitt aftur til bygginga í þéttbýlinu. Þetta er ein aðalröksemd fyrir því frá mínum bæjardyrum séð, að ákveðið er í grg. frv., að næstu tvö ár skuli byggingarsjóður sveitanna fá 12 millj. kr. hvort árið, en í frv. sjálfu, eins og það liggur nú fyrir, eru sjóðirnir nákvæmlega jafnréttháir og eru því í framtíðarlöggjöfinni settir algerlega hlið við hlið hvað snertir lánveitingar eða fjármagn til þeirra. Svo verð ég nú að segja það, að þó að ég frá upphafi hafi verið fylgismaður laganna um verkamannabústaði, þá er ég þó alls ekki á því, að sú löggjöf eigi að vera óbreytt, hvernig sem um annað fer í þessu atriði. Og ég tel, — segi það alveg eins og það er, — að það sé mjög hæpið að láta mikið fé til verkamannabústaðasjóðanna, nema nokkrar breytingar verði á þeim lögum gerðar.

Ég skal t.d. taka það fram, að ég sé ekki, að það sé nein sanngirni í því, að það sé lánað út á íbúð í verkamannabústað helmingi meira eða meira en helmingi meira, stundum kannske allt að þrefalt á við það, sem lánað er út á heil íbúðarhús í sveitum. En það er þetta, sem gert hefur verið. Það hefur ekki verið lánað meira en 60 þús. kr. út á heil íbúðarhús í sveitum, og það hefur verið látið ganga jafnt yfir alla, hvort sem það er örfátækur bóndi, sem byggir hið allra minnsta, eða það er betur efnaður bóndi eða stærri bóndi, sem verður að hafa stærra hús vegna meiri búrekstrar. Ég verð að segja, að mig undrar það ekki, þó að það gangi seint að byggja yfir fólk samkvæmt lögunum um verkamannabústaði, ef svona er á fénu haldið. Það hefur allt öðruvísi verið á þessu haldið í sveitunum. Þetta hefur verið látíð út í meiri smáskömmtum, ekki af því, að það hefði ekki verið nauðsynlegt og gott fyrir bændurna að fá 120 eða 150 þús. í hvert hús með þeim lágu vöxtum, sem á lánunum hafa verið. Þeir hefðu sannarlega tekið við því. En það er bara af því, að það þótti ekki fært, það þótti réttara og betra að deila þessu meira niður og bændurnir yrðu svo sjálfir að öðru leyti að skrapa saman það fé, sem þar er um að ræða. Og án þess að ég ætli neitt verulega að fara að dæma um það, hvort þeir verkamenn, sem búa í verkamannabústöðum, eða bændur almennt séu betur settir, þá er ég þó alls ekki við því búinn að segja, að hlutur bænda sé eitthvað betri í þessu efni, þannig að þeir séu betur settir til þess að standa undir mjög miklum byggingarkostnaði en þeir verkamenn, sem eru í verkamannabústöðum.

Ég veit, að lögin um verkamannabústaði, að því leyti sem þau hafa getað verið framkvæmd, hafa gert ágætt gagn. Og ég er glaður yfir þeirri framkvæmd. En ég held, að löggjöfin sé gölluð og það þurfi að breyta löggjöfinni. Þess er ekki að vænta, að fátækir bændur í sveitum sætti sig við það, að þeir geti aðeins fengið helming eða einn þriðja af því fjármagni, sem veitt er í hverja íbúð í verkamannabústöðum, til þess að byggja yfir sig í sveitum. Þess vegna er það mín skoðun, að það þurfi að taka þessa löggjöf til endurskoðunar að einhverju leyti, kannske þá með hliðsjón til endurskoðunar á lögunum um byggingarsjóð sveitanna.

Það er ýmislegt fleira, sem er algerlega úrelt orðið í þessari löggjöf, eins og t.d. um tekjur manna o.fl., og þess vegna er það ábyggilega mikil nauðsyn, að þetta sé allt tekið til meðferðar. En þess vegna eru verkamannasjóðirnir að sjálfsögðu settir inn í frv., að það er ætlazt til þess, að þeir hafi algert jafnrétti við aðra þá aðila, sem til greina koma í þéttbýlinu, til þess að reisa hús yfir venjulega borgara.

Mér fannst skylt fyrir mig að taka þetta fram. Ég vil vísa því frá mér, og ég má segja, að ég tala þar fyrir hönd allrar ríkisstj., að það sé um nokkurn fjandskap að ræða gagnvart verkamannabústaðalöggjöfinni. Frá minni hálfu er það síður en svo. Ég hef verið hrifinn af þeirri löggjöf fyrir ýmis ákvæði, sem í henni eru og ég tel rétt, varðandi það, á hvern hátt menn geta eignazt sínar íbúðir, og annað slíkt. En einu megum við vara okkur á, og það er það m.a. að álíta ekki, þó að einhvern tíma hafi verið sett löggjöf, kannske góð löggjöf, að þá megi aldrei breyta henni aftur. Þetta verður alltaf að endurskoðast með tilliti til annarra hluta í þjóðfélaginu, þannig að hæfilegt jafnvægi sé þar í milli. Það jafnvægi er áreiðanlega ekki nú milli þess, sem verkamannabústaðasjóðirnir hafa varið til lánveitinga, og hins, sem gert hefur verið í sveitum í þessu efni. Og þegar á að fara að gera svona allsherjarráðstöfun eins og gerð er með þessu frv., setja allt þetta í eitt kerfi, skulum við segja, þá er ómögulegt annað en að einmitt þessir hlutir, sem hafa nú verið látnir liggja og þróast svona hver um síg, verði teknir sameiginlega til meðferðar og athugunar.

Hv. 4. þm. Reykv. vildi láta líta svo út, að gagnið af þessari löggjöf, ef þetta frv. verður að lögum, mundi verða nokkuð lítið. Ég held, að hv. þm. hafi sagt í niðurlagi sinnar ræðu, að nokkurri fyrirgreiðslu væri heitið til þeirra, sem sæmileg fjárráð hefðu, en aftur þeir, sem verst væru settir, bæru ekkert eða sama og ekkert úr býtum. Þetta er alls ekki rétt, eins og ég veit að hv. þm. viðurkennir og veit sjálfur, því að sá kafli frv., sem fjallar um útrýmingu heilsuspillandi íbúða, ætlast til þess, að á næstu árum verði þeim íbúðum, sem taldar eru heilsuspillandi, og þá ekki sízt braggaíbúðunum, en um leið öðrum slíkum íbúðum, sem jafnast á við þá, hvort sem er hér í Reykjavík eða annars staðar á landinu, verði útrýmt eftir skipulagðri áætlun. Hv. þm. gerir að vísu í sínum brtt. till. um allmiklu meiri fjárráð í þessu skyni og ætlast til, að ríkið hafi forgöngu um það. Ríkisstj. leit svo á, — og ég skal segja, að ég lít alveg sérstaklega svo á, — að það sé alveg sjálfsagt, að það séu sveitarfélögin, sem hafi forgöngu um þetta mál, en svo eigi ríkið að koma á móti, þegar um slík vandræðamál er að ræða eins og hafa skapazt af þessum ástæðum.

n., sem undirbjó frv., gerði um þetta efni till., sem að vísu ganga nokkru hraðar um það — með nokkru meira fjármagni en er nú í frv. — að útrýma íbúðunum, en er þó algerlega á sömu leið. Og eftir þeirri áætlun, sem n. gerði um þessi efni og hafði aflað sér upplýsinga um, þá á það ekki að taka nema tiltölulega fá ár að ljúka þessu, ef myndarlega er af stað farið með þetta, bæði af hálfu sveitarfélaganna og svo að sjálfsögðu að ríkissjóður standi við það, sem hann hefur lofað um framlög á móti. Það er því að mínum dómi alls ekki rétt, þegar hv. stjórnarandstæðingar eru að láta líta svo út, að það sé í þessu efni ekkert gert, sem að neinu gagni geti komið. Það er ekkert nema stigmunur á milli þeirra till., sem hv. stjórnarandstæðingar hafa borið fram, bæði í Nd. og eins hér, um fjárframlög í þessu skyni. Það má segja, að það sé málefnamunur um það, að það sé ríkið, sem eigi að standa fyrir útrýmingunni. Og þar er um meiningarmun að ræða, algerlega a.m.k. að því er mína skoðun á þessum málum snertir, og það kom ekki fram í þeim umr., að ég man, sem fram hafa farið, hvorki innan ríkisstj. né í þeim n., sem að þessu hafa unnið, að annað kæmi verulega til greina en að sveitarfélögin sjálf yrðu að hafa forgönguna og fá svo framlög á móti. Þetta er sá hópur manna, sem verst er settur vitanlega í byggingarmálunum, og víst væri gleðilegt og gott að geta gert þetta á sem allra skemmstum tíma, jafnskömmum tíma og hv. 4. þm. Reykv. leggur til, sem mig minnir að séu nú 5 ár eða eitthvað svoleiðis. En ég er á því, að það muni ekki svo miklu, ef unnið er eftir þeirri áætlun, sem er i þessu frv., sem hér liggur fyrir, — það muni ekki svo miklu, kannske tveim árum eða svo, að hægt sé að komast býsna langt í þessu efni, eftir því sem nú er ástatt.

Ég er hv. 4. þm. Reykv. sammála um það, að næsta stigið upp á við getum við þá sagt að séu verkamannabústaðir fyrir þá, sem nokkru betur eru settir en þeir, sem eru í lægsta flokknum, og því sé rétt, þegar búið er að endurskoða ákvæði þeirrar löggjafar, að tryggja það, að fjárráð fáist til þeirra hluta. En í sambandi við það vil ég taka fram, að þá er einnig mjög nauðsynlegt, að það sé mjög vel vinzað úr, að það séu einmitt þeir menn, sem illa eru settír fjárhagslega eða með mikla fjölskyldu, sem þá sitja fyrir slíkum lánum. Það er alltaf, þegar á að úthluta slíku, að það er erfitt að gera það, og mér dettur aldrei í hug að fara eftir hálfgerðum Gróusögum, en það eru afar margir, sem segja mér, að það hafi margir fengið íbúðir í verkamannabústöðunum, sem væru tiltölulega vel efnalega settir og hefðu kannske átt að víkja til hliðar fyrir öðrum, sem verr væru settir. Þetta er nú máske slúður, sem ég geri ekki mjög mikið úr, en hitt veit ég, að það er vandi að fara með þessi mál, svo að réttlát lausn fáist.

Svo kemur þriðji hópurinn að sjálfsögðu, sem verður að búa við þau lánskjör, sem eru á venjulegum markaði á hverjum tíma, sem byggt er, og það hygg ég að allir hljóti að vera sammála um, að það er ekki um annað að gera en að láta alla þá, sem eru sæmilega efnum búnir eða hafa sæmilega aðstöðu í þjóðfélaginu, búa við það á þann hátt.

Ég vil því halda fram, að einmitt í þessu frv., sem hér liggur fyrir, sé umgerð um það að veita fé í þessu þrennu skyni. Það eru þeir, sem verst eru settir, búa í óhæfu húsnæði, sem á að byggja yfir með beinni aðstoð sveitarfélaganna og ríkissjóðs, og enginn skyldi vera glaðari en ég, ef hægt væri að auka það, sem nú er í frv., fljótlega til þess að ljúka þessu verki sem allra fyrst. En ríkisstj. hefur sett sér að setja ekki annað í þetta frv. en hún teldi öruggt að væri hægt að standa við nú næstu árin, og það er áreiðanlega hægt, hvenær sem er og ef eitthvað rætist úr, að auka það, sem hægt væri að veita í þessu skyni, og við skulum vona, að svo gæti orðið.

Þetta er nú það, sem mig langaði sérstaklega til að taka hér fram. Ég skal viðurkenna, að þetta hefði heldur átt að segjast við 1. umr. málsins, en mér fannst ræða hv. 4. þm. Reykv. gefa nokkra ástæðu til þess, að svona almennt væri nú talað um þetta.

Hv. 4. þm. Reykv. gaf í skyn, að mér virtist, að lífeyrissjóðir þeir, sem lánað hafa að undanförnu fé sitt því nær eingöngu til íbúðarhúsbygginga fyrir sjóðfélaga sína, mundu verða að lána nú gegn óhagstæðari kjörum en áður hefði verið. Þetta er, hygg ég, hrein fjarstæða. Það hefur engum dottið í hug, að það væri farið að breyta þeim kjörum, sem lífeyrissjóðirnir láta. Hitt er rétt, að það fé, sem þeir láta, er tekið inn í þetta kerfi.

Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að benda á það, sem segir í nál. því, er frv. fylgir, og er frá þeirri n., sem þetta mál undirbjó að mjög miklu leyti, þar sem þeir segja, að það séu einkum 4 atriði, sem einkenna ástandið í byggingarmálunum. Það er í fyrsta lagi, að talsverður húsnæðisskortur ríkir. N. tekur ekki dýpra í árinni en þetta, og tel ég, að það muni vera rétt, enda hefur það ekki verið gagnrýnt. Í öðru lagi er geysimikið húsnæði i byggingu, og það vita allir, að svo er, og húsnæðisvandræði hljóta því að minnka til allverulegra muna, þegar þetta húsnæði væntanlega losnar nú smátt og smátt, og einmitt þetta veðlánakerfi og það nýja fé, sem á þann hátt kemur fram, fer vitanlega að nokkru leyti fyrst til þess að láta út í byggingar, sem eru ekki fullbyggðar, og koma þeim þannig í gang sem allra fyrst. Svo er þriðja atriðið, að mikið skipulagsleysi er ríkjandi í byggingariðnaði og við verzlun. Ég skal ekki fara inn á það frekar en ég gerði við 1. umr., en þetta skipulagsleysi hefur m. a. lýst sér í því, að enginn hefur raunverulega vitað, hvað mikið fé fer í byggingar hér á landi, þegar allt kemur til alls. Þessu frv., sem hér liggur fyrir, er ekki sízt ætlað að koma hreinu skipulagi á þetta, með því að lánsstofnanirnar eða Landsbankinn hefur lofað því að setja sig í samband við allar helztu lánsstofnanir hér á landi, bæði banka, sparisjóði og jafnvel einhverjar aðrar stofnanir, til þess að fá þetta sett í eitt kerfi, þannig að þjóðin viti miklu betur, hvað er verið að gera, og það séu á hverjum tíma til fullnægjandi upplýsingar fyrir Alþ. og ríkisstj. til þess að átta sig á því. Ég hygg, að það sé alveg rétt, sem hér er síðar rökstutt í þessu áliti, að einmitt húsnæðisvandamálið hjá okkur er að töluvert miklu leyti vöntun á skipulagi, og þá m.a. á þessu skipulagi. Það er líka vöntun á öðru skipulagi, því að reyna að gera húsin ódýrari með að „standardísera“ vissa hluti af húsunum, og margt fleira, sem hægt væri að gera i þessu sambandi, en ég nefndi það nokkuð við 1. umr. og skal ekki koma frekar inn á það.

Ég skal ekki fara að hafa þetta miklu lengra, að ég hygg. Ég verð að viðurkenna, að mér hefur komið það dálítið á óvart, hvernig hv. stjórnarandstæðingar hafa tekið þessu frv. Mér kom ekki á óvart, að þeir kæmu með allmiklar brtt. við það. Það er eðlilegt og sjálfsagt, því að það vitum við, sem höfum undirbúið frv. og verið með í því frá byrjun, að við hefðum að sjálfsögðu kosið, að hægt væri að gera meira og lofa meiru en gert er í þessu frv., þótt við alls ekki höfum treyst okkur til að gera það, eins og nú er ástatt í þessum efnum. En þeir hafa gengið jafnvel svo langt, að því er haldið fram, — og beini ég því ekki sérstaklega til hv. 4. þm. Reykv., — að frv. kannske væri til bölvunar og ekkert gagn að því á neinn hátt, og sumir hv. stjórnarandstæðingar hafa jafnvel greitt atkv. á móti því. Það þykir mér mjög óeðlilegt í alla staði, því að hvað sem að öðru leyti má að þessu frv. finna, þá er ég þó alveg sannfærður um, að það hefur ekki fyrr verið gert meira til þess að koma þessum byggingarmálum almennt á raunhæfan grundvöll og vitað fyrir fram, að við það, sem lofað er í frv., verði staðið til að byrja með, þótt ekki sé nema um tvö ár. Kannske verður allt komið um þverbak hjá okkur að tveim árum liðnum, bankagjaldþrot og ríkisgjaldþrot o.s.frv., ég skal ekkert um það segja, ég er ekki spámaður, — en ef það verður ekki, þá er ég ekki í neinum vafa um, að það verður fyllt út í þetta kerfi. Því verður kannske breytt að einhverju leyti, vonandi til bóta til að auka fjárhæðina og ef mögulegt væri til þess að fá það fé að einhverju leyti með lægri vöxtum en hér er gert ráð fyrir og gera það á þann hátt fullkomnara. Það er að mínum dómi ekki lítils virði, að hér er gerð alvarleg tilraun undir forustu þjóðbankans til þess að koma hér upp raunhæfu veðlánakerfi, sem áreiðanlega allir, sem einhver afskipti hafa af fjármálum hér og hafa sett sig eitthvað inn í þau, vita að er bráðnauðsynlegt, m.a. til þess að reyna að útiloka svartamarkaðsstarfsemi í lánum og annað slíkt, sem að sögn a.m.k. hefur blómgazt hér í ríkum mæli að undanförnu. Og það held ég að verði alltaf burðarás í því, sem gert verður á næstu árum eða jafnvel áratugum hjá okkur, að útfylla og bæta það veðlánakerfi, sem hér er um að ræða, og gera það á þann hátt nothæfara til þess að standa undir byggingarframkvæmdum, íbúðarhúsaframkvæmdum fyrir fólk bæði í þéttbýll og í strjálbýli, og gera það á þann hátt betra til þjónustu en nú er. Þess vegna er það, að ég vænti þess nú fastlega, að hv. Ed. samþ. frv. í því formi, sem það nú er. Þetta er samkomulagsmál, sem mikið er búið að starfa að og lengi, og það má ekki stofna því í voða með því að fara að gera neinar breytingar á því nú að þessu sinni. Vonandi kemur Alþ. saman eftir skamman tíma aftur, og má þá náttúrlega búast við, hvort sem það verður á næsta Alþ. eða einhvern tíma fljótlega, að breytingar verði að gera á annarri eins nýsmíð og þetta frv. er.