05.11.1954
Neðri deild: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

60. mál, manntal í Reykjavík

Frsm. (Kristín Sigurðardóttir):

Herra forseti. Allshn. hefur haft þetta frv. til athugunar, og hafa nm. orðið sammála um að leggja til, að það verði samþ. óbreytt.

Ég býst við því, að öllum hv. þm. sé ljóst, hvað hér er um að ræða, og því óþarft að hafa um það mörg orð, en með frv. er farið fram á heimild fyrir Reykjavíkurbæ til þess að fella niður manntal í Reykjavík um eitt ár í senn. Hingað til landsins hafa nýlega verið fengnar stórvirkar og undraverðar skrifstofuvélar. Með þeim hefur verið komið á fót spjaldskrá yfir alla landsmenn. Af þeim sökum er ekki eingöngu ónauðsynlegt, að manntal fari fram í Reykjavík, heldur getur það beinlínis valdið erfiðleikum og ruglingi, ef vinna þarf úr tveimur manntalsskrám samtímis. Af þessum ástæðum er farið fram á heimild til þess að láta manntal í Reykjavík falla niður, en sú heimild er bundin við eitt ár í senn, unz sannreynt verður, hvort spjaldskráin er hlutverki sínu vaxin, eins og fram er tekið í grg. frumvarpsins.

Eins og ég áður sagði, leggur allshn. til, að frv. þetta verði samþykkt óbreytt.