18.11.1954
Efri deild: 19. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (1294)

74. mál, happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna

Frsm. meiri hl. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt á l. um happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna er fram komið eftir beiðni stjórnar dvalarheimilisins og flutt af allshn. Nd. samkv. beiðni hæstv. atvmrh. Frv. var samþ. óbreytt í hv. Nd. og þannig afgr. til þessarar hv. deildar.

Lög um þetta happdrætti voru sett á síðasta þingi, og samkv. þeim lögum var dvalarheimill aldraðra sjómanna heimilt að stofna til happdrættis um bifreiðar, báta og búnaðarvélar. Happdrættið var stofnað, og eftir því sem segir í grg. frv. þess, er nú liggur hér fyrir til umr., gekk það betur en nokkur þorði að vona í upphafi, þannig að eftirspurn eftir hlutamiðum hefur orðið meiri en svo, að allir fengju miða, sem vildu, og hefur orðið að synja mörgum um miða við hvern drátt.

Til þess að koma til móts við þá, sem vilja styrkja heimilið á þann hátt að kaupa happdrættismiðana, og um leið að auka tekjurnar af happdrættinu með því að fjölga hlutamiðum, fer stjórn dvalarheimilisins fram á, að val vinninga verði aukið frá því, sem það er í núgildandi lögum, þannig að vinningar í happdrættinu verði ekki framvegis eingöngu bundnir við bifreiðar, báta og búnaðarvélar, heldur verði og heimilt að bjóða upp á bifhjól, íbúðarhús og einstakar íbúðir, eftir því sem aðstaða leyfir og hagkvæmt þykir hverju sinni.

Ekki munu vera skiptar skoðanir um það, að fé því, sem inn kemur sem ágóði af happdrætti því, sem hér um ræðir, sé vel varið. Dvalarheimili aldraðra sjómanna verður sú mannúðar- og menningarstofnun, sem skylt er að styðja og styrkja, en það er að nokkru gert með því að samþykkja frv. þetta, sem hér liggur fyrir.

Allshn. hefur athugað frv., og eins og nál. á þskj. 159 ber með sér, leggja fjórir nm. til, að það verði samþ. óbreytt. Einn nm., hv. 1. þm. N-M. (PZ), lýsti sig andvígan frv. á þeim grundvelli, sem það er fram borið.

Páll Zóphóníasson: Herra forseti. Ég hef áður lýst yfir, og dm. er það öllum kunnugt, að ég er á móti happdrættum yfirleitt. Ég tel þáð ranga aðferð að reyna á þann hátt að safna peningum og þannig ýta undir þjóðina til að vera stöðugt í happdrætti. En það er nú komið svo, að meginið af okkar atvinnuvegum er orðið eitt happdrætti og happdrætti, sem ríkissjóður ábyrgist að vinnist eitthvað í í flestum tilfellum, sbr. bæði bátafisk, skatt á bíla, niðurgreiðslu á landbúnaðarvörum o.s.frv. Ég vildi reyna, ef hægt væri, að komast út úr öllum happdrættum og ala þá hugsun upp í þjóðinni, að það ætti að hyggja atvinnulífi$ þannig upp, að það geti staðið undir sér sjálft, en yrði ekki tómt happdrætti. En Alþingi hefur því miður ýtt undir happdrættishugmyndina hjá allri alþjóð um mörg ár. Ég er á móti þeirri stefnu, og þess vegna er ég líka á móti þessu frv.