03.12.1954
Neðri deild: 26. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

6. mál, prentfrelsi

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að athuga lítils háttar þetta mál, sem hér liggur fyrir, en vegna þess að ég er nýkominn til þings, hef ég haft lítinn tíma til slíkrar athugunar. Ég tel, að tilgangurinn með þessum lögum sé mjög lofsverður, en ég efast um, að þau nái þeim tilgangi, sem að er stefnt. Ég hygg, að lögin, eins og þau liggja hér fyrir, gangi of skammt til þess að koma í veg fyrir útgáfu þeirra rita, sem um er að ræða, því að mér sýnist, að það sé lítil hindrun fyrir þá, sem gefa út þau sorprit, sem hér er um að ræða, þótt þeir þurfi að setja á þau sitt nafn eða einhvers lepps, sem þeir kynnu að fá fyrir sig sem útgefanda að þessum ritum. Það er öllum ljóst, að þessi útgáfa er stórskaðleg fyrir æsku landsins, og mér þótti vænt um, að hv. 1. þm. Árn. gat um þau erlendu myndablöð, sem hér eru flutt inn og ég tel miklu skaðlegri en þær útgáfur, sem hér er um að ræða. Og á það má benda í þessu sambandi, að Bandaríkjamenn, sem aðallega gefa nú út þessi myndablöð, eru að ræða um það af fullri alvöru, hvernig þeir geti komið í veg fyrir útgáfu þessara blaða, og bandaríska stjórnin og jafnvel þingið kemur vafalaust til með að taka þetta mál til meðferðar, því að svo skaðlegt er það talið Bandaríkjunum sjálfum. Sem betur fer, er nú ekki lestur þessara rita tiltölulega jafnútbreiddur hér eins og Bandaríkjunum. Í bandarískum blöðum hafa verið til tekin dæmi um það, hvaða efni þessi blöð flytji, og mörg þeirra eru hreinlega ekkert annað en kennslubækur í glæpastarfsemi fyrir æskulýðinn. Sömuleiðis hefur verið rætt um þetta í Englandi, og líklega verður það rætt í brezka þinginu, hvaða ráðstafanir sé hægt að gera þar í landi til þess að stöðva útgáfu þessara rita. Svo skaðleg eru þau talin.

Ég vildi óska fyrir mitt leyti, að hægt væri að finna eða gera einhverjar ráðstafanir til þess að stöðva þetta. Við talsverða erfiðleika er að etja, því að margir munu segja, að verið sé að ráðast á prentfrelsið í landinu. En það er eins með prentfrelsið og annað frelsi: Ef það er misnotað þjóðinni til skaðræðis, þá verður að taka í taumana á einhvern hátt.