29.11.1954
Efri deild: 23. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

89. mál, stimpilgjald

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Mál þetta er svo einfalt, að ekki þarf langrar framsögu við. Það er flutt samkv. ósk banka og fleiri stofnana, sem hafa fengið nýjar vélar til þess að stimpla með skjöl í stað þess, að þau séu álímd, eins og áður var, en vélarnar stimpla ekki nema í heilum krónum, og þess vegna þykir rétt að ákveða í lögum, að stimpilgjald skuli jafnan reiknast í heilum krónum. Vitanlega eru margar stofnanir, sem þurfa að stimpla, en hafa ekki þessar vélar, en það er að sjálfsögðu ekki til neinna óþæginda fyrir þær stofnanir, þó að stimpilgjöldin reiknist aðeins í heilum krónum. Og fyrir þá, sem greiða gjöldin, skiptir þetta engu máli, þó að fyllt sé upp í heila krónu í síðasta krónubroti. Þess vegna er það líka, að fjhn. leggur einróma til, að frv. þetta verði samþykkt.