03.12.1954
Neðri deild: 26. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

6. mál, prentfrelsi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef að vísu ekki fylgzt með öllum umræðunum, sem hér hafa farið fram, en heyri þó, að þm. hafa talið, að þetta frv. væri ekki allsendis fullnægjandi, þar sem frekari ráðstafanir þyrfti að gera í þessum efnum. Ég vil taka það fram, að ég er þessu fyllilega sammála, og lét hið sama uppi, þegar ég lagði þetta frv. fyrir hv. Ed. En dómsmrn. fór þess á leit við einn af fremstu lögfræðingum landsins nokkuð snemma á þessu ári, að hann undirbyggi frv. um þetta efni, og ætluðumst við þá til, að það yrði rækilegri endurskoðun á þessum gömlu prentlögum og öðru þetta varðandi heldur en hann svo að athuguðu máli treysti sér til að leysa af hendi á þeim tíma, sem honum var ætlaður, og varð því úr, að við létum nægja að leggja fyrir þetta þing einungis þetta atriði, sem hér liggur fyrir, vegna þess að önnur atriði málsins þyrftu gaumgæfilegri rannsóknar, áður en hægt væri að færa þau í frumvarpsform, svo að viðhlítandi væri, vegna þess að erfiðleikinn hér er auðvitað einkum sá, að menn banni ekki of mikið, að menn í réttmætri viðleitni til að stöðva ósómann komi ekki of nærri sjálfum prentfrelsisákvæðunum, sem þrátt fyrir allt eru ein lífæðin í okkar stjórnskipun, og þar er áreiðanlega vandsiglt á milli skers og báru.

En segja má, að fram haldi tvöföld athugun þess, hvernig lagafyrirmælum um þetta verði bezt fyrir komið í framtíðinni. Annars vegar er áframhaldandi endurskoðun prenttilskipunarinnar, sem ég vonast til að verði lokið fyrir næsta reglulegt Alþingi, þannig að þá verði hægt að leggja fram heillegt lagafrv. um þau efni, og er þá líklegt, þótt ekki sé víst, að nokkru nánar verði komið inn á það atriði, sem nú er til umræðu. Enn fremur eru til endurskoðunar sjálf hegningarlögin, og eðlilegast virðist, að í sambandi við þá endurskoðun verði lögð sýnu strangari viðurlög en nú eru við slíkum ósóma sem hér er um að ræða, bæði strangari viðurlög og kveðið verði nánar á um, hvað af þessu skuli refsivert, en nú er.

En eins og ég segi, þá er þetta ekki allsendis einfalt vegna hættunnar við, að í slík bönn verði sett strangari ákvæði en menn í raun og veru hafa ætlað sér, og þess vegna er það ekki á færi annarra en hinna lærðustu og þaulvönustu manna að átta sig til hlítar á því, hvernig fyrirmælum um þetta skuli komið fyrir. Til leiðbeiningar fyrir okkur í því er það, að nokkrir þættir málsins, - það má nú segja, að það væri ekki sérstaklega varðandi þetta, en varðandi endurskoðun prentskipunarinnar, — voru til umræðu á lögfræðingaþinginu í Osló í sumar, sérstaklega varðandi það, hvort menn ættu að hafa rétt til þess að skjóta sér á bak við nafnleysi í skrifum sínum og að hve miklu leyti, og önnur atriði í sambandi við það, og taldi sá lögfræðingur, sem um þetta fjallaði af okkar hálfu, að betra væri að bíða eftir þeim umræðum og athugasemdum, sem þar kæmu fram, áður en hann lyki við sitt frv. En það er viðtækara mál. — Hitt er þrengra, sem einnig er til meðferðar í fjölmörgum löndum, t.d. nú þessa dagana í Bretlandi, baráttan gegn þessum glæparitum og „hasarblöðum“, sem hér hafa verið nefnd, og ég tel, að það sé rétt fyrir íslenzk stjórnvöld að fylgjast mjög gaumgæfilega með þeim ráðstöfunum, sem aðrar þjóðir gera í þessu. Í Bandaríkjunum, þar sem þessi ófögnuður geisar mjög, hygg ég að eigi sér stað mjög viðtæk samtök bókaútgefenda og bóksala til þess að hindra bæði útgáfu og útbreiðslu þessara rita, og eitthvað svipað hefur komið til greina í Bretlandi, um leið og það hefur verið vakin athygli á erfiðleikunum á að setja um þessi efni strangar reglur. Þó sá ég einmitt í brezku blaði í gær lauslega drepið á þær till., sem fram höfðu komið, að gjaldeyrir yrði ekki veittur til þess að flytja slík rit inn, og mér finnst það mjög koma til athugunar hér, að íslenzk stjórnvöld reyndu að fylgjast með því, að gjaldeyri væri ekki varið til þessara kaupa, en hvort framkvæmanlegt er að skilja þarna á millí eins og vera þarf, án þess að skaði sé gerður, það er erfiðleikinn, sem við alltaf rekum okkur á. Og okkur tjáir auðvitað ekki að neita því, að eitt sterkasta vopnið í baráttunni gegn slíkum ritum er sú hugmynd, sem kemur fram í þessu frv., þótt það sé annars lítið frv., — ég vil ekki gera of mikið úr gildi þess, — en þó þetta: að þeir, sem þessa atvinnu stunda, ef svo má segja, verða að gera það fyrir opnum tjöldum, að menn viti, hvaða menn það eru, sem þarna eru á ferðum, og einhverjir verða að leggja nafn sitt við atvinnureksturinn og þá að lúta þeim almenningsdómi, sem réttilega verður að kveðast yfir slíkri starfrækslu. Og ég tel, að það sé ein af skyldum kennara og menningarfrömuða landsins að vara æskulýð mjög við slíkum skrifum og reyna að hafa áhrif á foreldra um að liða þvílíkt ekki á sínum heimilum. Hættan af því aftur er sú, eins og við vitum, að það, sem er reynt að banna, getur orðið enn þá fýsilegra í augum óþroskaðra unglinga ekki sízt, og þess vegna er erfiðara við þetta að fást en í fljótu bragði virtist, eins og mér skildist líka koma fram í ræðu þess hv. þm., sem talaði hér næst á undan mér. En ég vildi láta það koma fram, að dómsmrn. hefur hugleitt þetta mál og að það litla frv., sem hér er flutt, er aðeins upphaf að frekari aðgerðum, sem þar eru hafðar í huga í þessum málum.