03.12.1954
Neðri deild: 26. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

6. mál, prentfrelsi

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. hefur nú vikið nokkuð að þessum atriðum, sem fram komu í ræðum þeirra tveggja hv. þm., sem töluðu eftir að ég mælti þessi fáu orð, sem ég sagði af hálfu nefndarinnar.

Hv. 1. landsk. beindi því til n., hvort hún mundi e.t.v. sinna þessu máli eitthvað meira nú að þessu sinni, en ég hygg, að mér sé óhætt að segja það ákveðið fyrir hönd n., að n. mun ekki sjá sér fært að gera það. Þetta bar á góma innan n., þegar málið var til meðferðar, og leizt okkur sem hyggilegra mundi vera að bíða eftir endurskoðuninni, sem nú er verið að vinna að og boðuð er í grg. fyrir þessu frv. Eins og hæstv. menntmrh. réttilega vék að, þá er þetta mál allvandasamt, þessi lagasmíð er alls ekki svo einföld. Stjórnarskráin ákveður, að prentfrelsi skuli ríkja hjá þjóðinni, en þeir, sem að útgáfu standa, hver sem hún er, beri ábyrgð á verkum sínum fyrir dómi. Og hv. 1. landsk. varð þess var, þegar hann fór að hugleiða að gera frekari ráðstafanir nú, að þar mundu e.t.v. vera nokkur vandkvæði á, og mér skildist, að sakir þess hefði hann ekki flutt málið inn í þingið. Þetta er einmitt það, sem ég hygg að blasi við hjá hverjum þeim manni, sem fer að kynna sér þetta og hugleiða, að það er nokkuð vandgert um það, hve langt skuli ganga í þessu efni, í hindrunum með prentun, en líka að nokkur vandkvæði eru á því að hitta á þær beztu ákvarðanir, sem gera ríkisvaldinu auðvelt fyrir, að menn beri ábyrgð á því, sem talið er saknæmt og miður fer. Ég hygg þess vegna, að í bili verði að láta þetta nægja.

Þess er getið í grg. fyrir þessu frv., að endurskoðun á þessum ákvæðum muni taka nokkurn tíma, og þetta frv. er borið fram til bráðabirgða til að ráða nokkra bót á því, hvernig lagaákvæðum nú er fyrir komið, og gera auðveldara um eftirlit.

Ég gat þess í þeim fáu orðum, sem ég sagði áðan, að ég teldi, að það bæri að gera ráðstafanir einnig um þessi myndablöð, hvort sem þau eru prentuð hér á landi eða ekki, og reynt væri að koma í veg fyrir útbreiðslu þeirra hér eftir ýtrustu getu, og mér þykir vænt um, að hæstv. menntmrh. lítur þannig á, að það beri að gera gangskör að því. Þess vegna hygg ég, að eins og málið er vaxið, þá verði hv. Alþ. í þetta sinn að láta sér þetta lynda. Þess er að vænta, að það líði ekki á löngu, þar til endurskoðun þessarar löggjafar verði lokið og þinginu gefist þá kostur á að setja nýjan lagastaf um þetta efni, sem vonandi getur þá orðið til að greiða fyrir því að koma í veg fyrir útbreiðslu þessara svokölluðu „hasarblaða“ og þessara glæparita.

Eftir því sem mér er tjáð, mun útbreiðsla þessara rita ekki í neitt litlum stíl. Mér er sagt, að sum af þessum ritum muni seljast í 9–10 þús. eintökum hvert rit. Og nú eru þau nokkuð mörg, svo að það er ekki neitt óríkulega á borð borið fyrir þjóðina í þessum efnum, og mætti gjarnan verða þar sem skjótast mikil breyting á til hins betra.