03.12.1954
Neðri deild: 26. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

6. mál, prentfrelsi

Björn Ólafsson:

Mér þykir vænt um þau ummæli hæstv. dómsmrh., að ekki sé lokið endurskoðun prentfrelsislaganna með þessu frv., sem hér er um að ræða, og þetta sé aðeins byrjunin. Menn geta því frekar gert sig ánægða með þessa byrjun, þó að hún veiti ekki stóru hlassi.

Þessum glæparitum eða hasarblöðum, sem svo eru kölluð og hér eru seld, má skipta í tvo flokka. Annars vegar eru glæpasögublöð, sem hér eru gefin út í stóru upplagi. Eftirspurnin eftir þessum blöðum er alveg ótrúleg. Þau eru lesin af unglingum, um og yfir tvítugsaldur. Hin blöðin, sem eru innflutt, eru af margs kyns tagi og ég vil segja flestöll skaðleg. Þau eru lesin af börnum í barnaskólunum. Þessi blöð eru kannske enn þá skaðlegri fyrir æskuna heldur en þau blöð, sem hér eru gefin út, þó að þau séu engin fyrirmynd, því að rosalegar glæpasögur og aðrar ófagrar lýsingar birtast í þeim.

Hér er barnavernd starfandi, sem lætur sig skipta málefni barna á flestum sviðum. Hér er eftirlit með kvikmyndum, hvaða kvikmyndir megi sýna börnum innan 16 ára aldurs. Það er í sjálfu sér engu óþarflegra að forða börnum frá lestri þessara rita heldur en að forða þeim frá því að horfa á siðspillandi kvikmyndir. Kvikmyndir, sem hingað eru fluttar, eru þó á miklu hærra stigi en þær kvikmyndir, sem sýndar eru yfirleitt almenningi í Bandaríkjunum og Bretlandi. Bretar hafa hafið aðgerðir í þessu máli með því, að það hefur verið tekið til athugunar af yfirstjórn skólanna í landinu. Kennarar hafa haldið fundi víðs vegar með foreldrum barnanna, og kennarar hafa verið hvattir til þess að vara börnin við þessum ófögnuði.

Það er öllum ljóst, og Bretum ekki sízt, að það er erfiðleikum háð, ef setja þarf lög í sambandi við takmörkun prentfrelsis, eins og hæstv. dómsmrh. tók fram. Þess vegna hefur ekki komið fram enn þá, — enda er það á frumstigi hjá þeim með þessar aðgerðir, — hvernig þeir hugsa sér að snúast í því frá ríkisvaldsins hálfu. En þeir telja þetta þó svo mikils varðandi, að ríkisstj. hefur haft málið til athugunar. En bæði kirkjufélög og skólafélög hafa hafið aðgerðir til þess að vara börnin við þessum ritum. Þetta mætti einnig gera hér. Og það mundi hafa sín áhrif, ef skólar landsins væru látnir taka þetta efni upp og vara börnin við þessu. Ég veit, að ekki þarf að benda hæstv. menntmrh. á þetta.

Ég heyri það, að hann er málinu mjög hlynntur, og ég efast ekki um, að honum sé ljúft að gera hvað sem kynni að verða til gagns í þessum efnum. Einnig má benda á það, að blöðin í landinu geta haft mjög mikil áhrif í því efni að skapa heilbrigt almenningsálit gegn þessum útgáfum. Það er afar lítið gert af því, miklu minna en skyldi. En ég treysti því, er þjóðin fer að vakna til meðvitundar um þann skaða, sem af þessu hlýzt, að þá muni blöðin taka þetta má] upp og berjast gegn ófagnaðinum.