17.12.1954
Neðri deild: 38. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

136. mál, skemmtanaskattur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil með örfáum orðum vekja athygli á þeim vinnubrögðum, sem hér eru viðhöfð af hálfu hæstv. ríkisstj. Hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram till. til þál. um þingfrestun frá og með morgundeginum, og þingið á að koma saman aftur í síðasta lagi 4. febr. n.k. En degi eftir að lögð er til þingfrestun og degi áður en hún á að koma til framkvæmda, leggur hæstv. ríkisstj. fyrir frv., sem þarf að ganga í gegnum þrjár umr. í þessari d. og þrjár umr. í hv. Ed. Frv. fjallar um framlengingu á mikilvægum tekjustofni. Hér er auðsjáanlega um það að ræða, að hæstv. ríkisstj. sinnir ekki störfum sínum svo vel, að hún gái að því að undirbúa framlengingu nauðsynlegra tekjustofna með nauðsynlegum fyrirvara.

Ég tel rétt að vekja athygli á því, að hér er um vítaverð vinnubrögð að ræða. Í raun og veru er þinginu sýnd með þessu megnasta lítilsvirðing, þegar því er ætlað, báðum deildum, að halda fundi, annarri deildinni á einni kvöldstund og hinni deildinni á einni morgunstund, til þess að afgreiða mjög mikilvægt mál fyrir hæstv. ríkisstj. Mér skilst, að stjórnarandstaðan í þinginu hafi yfir nægilega mörgum atkv. að ráða til þess að neita um afbrigði fyrir málinu. Ég legg ekki til, að það verði gert, en ef áframhald yrði á slíkum vinnubrögðum af hálfu hæstv. ríkisstj., þá væri fyllsta ástæða til þess fyrir stjórnarandstöðuna að taka til alvarlegrar athugunar að kenna henni sómasamleg vinnubrögð með því að neita um afbrigði í slíkum málum.