25.02.1955
Efri deild: 52. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (1418)

92. mál, ættaróðal og erfðaábúð

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég er ekki í neinum vafa um, að það var rétt ábending hjá hæstv. dómsmrh., að ákvæðið eins og það lá fyrir var mjög vafasamt og að með þessu ákvæði: „Náist eigi samkomulag, ræður meiri hluti,“ o.s.frv., var kollvarpað þeirri reglu, eins og hann benti á í gær, að þeir, sem hafa sinnt búskap á jörðinni, sitji fyrir. En mér virðist satt að segja, að með þessari breyt., sem þarna er gerð, sé það ekki gert síður, nema fremur væri, því að verði þessi brtt. samþ., þá verður ákvæðið, eins og hv. þdm. sjá, á þá leið, að náist eigi samkomulag, skeri skiptaráðandi úr. Það er þess vegna ekkert auðveldara fyrir þann, sem treystir á skiptaráðanda, en að koma í veg fyrir það, að samkomulag náist, og þá sker skiptaráðandi úr á þann hátt, sem honum þóknast, og er þá, eftir því sem mér skilst, óbundinn af því, að þeir taki við jörðinni, sem hafa stundað búskap á henni að undanförnu. Mér virðist, a.m.k. fljótt á litið, að þessu sé þannig háttað og ákvæðið sízt til bóta. Ef binda á regluna alveg, eins og hæstv. ráðh. benti á í gær, við það, að þeir erfingjar, sem hafa stutt að búskap á jörðinni, sitji fyrir, má ekki gera þá reglu að engu með ákvæðum eins og eru í frv. svo sem það liggur fyrir og eins og frv. yrði, ef

þessi brtt. væri samþ., því að það bætir alls ekki úr þeim ágöllum, sem hæstv. ráðh. benti á í gær og ég var sammála honum um að var nauðsynlegt að leiðrétta. Annaðhvort verður það að vera regla eða ekki regla, að þeir, sem hafa sinnt búskap á jörðinni seinustu árin, sitji fyrir. Það þýðir ekkert að setja regluna upp þannig og segja svo: Ef það verður ósamkomulag, þá er þetta undir áhrifum skiptaráðanda.