25.02.1955
Efri deild: 52. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

92. mál, ættaróðal og erfðaábúð

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti Ég þakka hv. n. fyrir þær undirtektir, sem hún veitti aths. minni í gær, og hv. þm. Str. (HermJ) fyrir að fallast á hana að efni til. En ég vil taka undir það með hv. frsm. n., þm. V-Sk., að mér virðist aths. hv. þm. Str. nú hvíla á misskilningi. Og hvað sem því líður, þá vil ég lýsa því sem alveg eindregnum skilningi mínum á samþykkt þessarar brtt., að ég ætlast til og greiði henni atkv. í þeim tilgangi, að skiparáðandi verði bundinn af reglunni í næstu setningu á undan. Og af því að nú er orðið svo liðið umræðunnar sem raun ber vitni um, þá mundi ég telja það eðlilegast, að ef einhver þm. er annarrar skoðunar um skilning á þessu ákvæði, þá láti hann það uppi við atkvgr., því að það mundi þá nægja við túlkun laganna eða hjálpa mjög við skýringu á ákvæðinu, ef einhver vafi er á því. Ég efast ekki um, að einhver vafi sé, úr því að hv. þm. Str. skýrði það á þann veg, þótt mér virðist rétt að skýra það á þann veg, sem hv. n. ætlast til. En ég bendi á það, að í næstu setningu á undan segir: Sé engin ákvörðun tekin, skal skiptafundur ákveða viðtakanda. Ég skil setninguna á eftir einungis sem skýringu á því ákvæði: Ef ágreiningur verður á skiptafundi, er þarna ákveðið, hver það er, sem eigi að taka ákvörðunina, að það sé skiptaráðandinn og þá vitanlega eftir þeirri efnisákvörðun, sem er sögð næst á undan í greininni.