03.12.1954
Neðri deild: 26. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

104. mál, eyðing refa og minka

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Landbn. hefur athugað þetta frv., og var n. einróma á því máli, að það bæri að hækka þau verðlaun, sem veita skal fyrir að vinna hlaupadýr og minka. Hins vegar hefur n. ekki getað fallizt á að hækka þessi verðlaun jafnmikið og hv. flm. frv. vilja vera láta. Í frv. leggja þeir til, að verðlaunin séu allt að því fimmföld frá því, sem nú gildir í lögum. En athugi maður hækkun á kaupgjaldi á þessu fimm ára tímabili, frá því að lögin gengu í gildi, þá hefur það samkv. Dagsbrúnartaxta í Reykjavík ekki einu sinni tvöfaldazt, þó að það sé nálægt því. En landbn. leggur til, að verðlaunin séu þrefölduð fyrir að vinna hlaupadýr, eða hækkuð úr 60 kr. í 180 kr., en hækkuð úr 60 kr. upp í 90 kr. fyrir að vinna minka. Mismunurinn á þessum verðlaunum liggur í því, að þegar minkar eru unnir, er yfirleitt um gren að ræða og fleiri dýr, sem vinnast þá í einu, þannig að hlutaðeigandi maður ber meira úr býtum en ef hann vinnur t.d. ref, því að þessi verðlaun, sem veitt eru fyrir refi, eru eingöngu fyrir að vinna hlaupadýr, en ekki þegar um svokallaða grenjavinnslu er að ræða, sem greidd er eftir öðrum þar að lútandi reglum.

Það mundi kannske einhvern fýsa að spyrja sem svo, hvað þessi útgjöld mundu nema miklu hjá hlutaðeigandi aðilum við þessa hækkun. Ég reyndi að fá það upp hjá landbrn., hver sundurliðunin væri á refa- og minkavinnslu í landinu, en það liggur ekki ljóslega fyrir, hvað hækkunin kann að verða mikil. Á ríkisreikningi, sem nýlega var útbýtt hér í hv. Alþ. fyrir árið 1952, voru útgjöld við að eyða refum og minkum í landinu um 240 þús. En eins og hv. þm. hafa veitt athygli, þá eru á fjárl. fyrir næstkomandi ár, eða 1955, áætlaðar 320 þús. kr. til refa- og minkavinnslu í landinu. Ég hygg, að útgjöldin fyrir ríkissjóð hækki sáralítið, þó að þetta frv. verði gert að lögum.

Það hefur örlað mjög á því á undanförnum árum, hversu erfitt hefur verið að fá menn til þess að reyna að vinna hlaupadýr á þennan hátt, og eina úrbótin, til þess að þessi verðlaun beri nokkurn tilætlaðan árangur, er, að þau séu það há, að menn vilji leggja stund á þessar veiðar sem nokkurs konar „sport“. Atvinnulíf er mikið hér í landinu nú, og menn leggja þess vegna ekki á sig að fara í það, sem þeir bera ekki neitt verulegt úr býtum við, nema því aðeins að þeir eigi ekki annars kost. En ég tel, að hækkunin, sem landbn. leggur til að gerð verði á þessum verðlaunum, muni bæta verulega úr á þessu sviði, og vil mælast til þess við hv. þd., að þetta frv. verði samþ. eins og landbn. hefur lagt til að verði.