15.12.1954
Neðri deild: 31. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í B-deild Alþingistíðinda. (1447)

125. mál, landshöfn í Keflavíkur-ogNjarðvíkurhreppum

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 5. landsk., vitamálastjóranum, að flytja hér frv. á þskj. 274, sem fjallar um það, að heimild til lántöku fyrir landshöfn í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum verði hækkuð úr 15 millj. upp í 25 milljónir. Um þessi efni voru í öndverðu sett lög á árinu 1946, og þá var þessi lántökuheimild ákveðin 10 milljónir. Þessum lögum var breytt með lögum nr. 55/1950 og lántökuheimildin hækkuð upp í 15 millj.

Nú er svo komið, að kostnaðurinn við þessa höfn er kominn upp í 15 milljónir, og það verður þess vegna ekki hægt að halda því verki áfram, nema Alþingi heimili breytingar á 1. gr. l. frá 1950 á þá lund, sem hér er farið fram á. Eins og stendur í hinni stuttu grg., sem þessu frv. fylgir, er nú mikil aukning í útgerðinni frá þessari höfn, sem að sjálfsögðu stendur að nokkru leyti í sambandi við aukna trú manna á afkomu bátaútvegsins vegna friðunarráðstafana, og eins og segir í grg., þá er talið líklegt, að á þessari vertíð, sem nú fer að hefjast eftir áramótin, verði gerðir út frá þessari verstöð 40 bátar í stað þess, að í fyrra voru þar aðeins 25 bátar, og það er einnig gert ráð fyrir, að þróunin að óbreyttum kringumstæðum verði hröðum skrefum áfram í þessa sömu átt.

Það gefur svo auga leið um það, að slík vaxandi útgerð kallar á aukið afgreiðslupláss, og það er af þeim ástæðum, sem hv. 5. landsk. og ég höfum leyft okkur að fara fram á þessa hækkun á ábyrgðarheimildinni, til þess að hægt verði að halda áfram mannvirkjagerð í þessari höfn, sem nú hefur svo veigamikla þýðingu fyrir atvinnulíf landsmanna í heild. Hækkunin á ábyrgðarheimildinni er 10 millj., þ.e.a.s. úr 15 og upp í 25 millj. Tekjur þessarar hafnar fara ört vaxandi, að sama skapi sem útgerðin eykst, og hafa orðið á s.l. ári 11/2 millj. kr. Þessi höfn er nú orðin önnur tekjumesta höfn landsins, þ.e.a.s. hin tekjuhæsta utan Reykjavíkur, og það er dómur kunnugustu manna, þ. á m. vitamálastjórans og hafnarstjóra landshafnarinnar, að það séu allar líkur til, að höfnin geti staðið undir öllum sínum skuldbindingum, svo að þessu ætti ekki að fylgja nein veruleg áhætta.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, af því að ég veit, að þetta frv. mun ekki eiga neinni andstöðu að mæta hér í hv. d. eða á hv. Alþingi, — eða vil ekki gera ráð fyrir því að órannsökuðu máli a.m.k., — og leyfi mér að leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. sjútvn.