24.02.1955
Neðri deild: 52. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

125. mál, landshöfn í Keflavíkur-ogNjarðvíkurhreppum

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Lög um landshöfn í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum voru samþ. á Alþingi 1946. Þar er svo fyrir mælt, að ríkissjóður láti gera og starfrækja á sinn kostnað hafnarmannvirki í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum, innan takmarka, sem þar eru nánar tilgreind. Þar segir enn fremur, að til greiðslu kostnaðar við hafnargerðina sé heimilt að taka lán fyrir hönd ríkissjóðs, allt að 10 millj. kr., er endurgreiðist að 1/3 úr ríkissjóði og að 2/3 úr hafnarsjóði, og að hafnargjöld landshafnarinnar skuli við það miðuð á hverjum tíma, eftir því sem fært þykir, að tekjur hafnarinnar nægi til að greiða vexti og afborganir af 2/3 hlutum stofnkostnaðarins auk árlegs rekstrarkostnaðar við höfnina.

Þá er í þessum lögum um landshöfnina frá 1946 heimild fyrir ríkisstj. til að kaupa þáverandi hafnarmannvirki í Keflavík og Njarðvík.

Um stjórn hafnarinnar segir svo í lögunum, að í henni skuli vera hafnarstjóri, sem skipaður sé af þeim ráðh., sem fer með hafnarmál, og 4 meðstjórnendur, 3 kosnir af Alþingi og 1 af sveitarstjórnum Keflavíkurhrepps og Njarðvíkurhrepps. Þessum lögum frá 1946 var síðan breytt með lögum nr. 55 1950, en í þeirri breytingu felst það, að heimild til lántöku vegna hafnarinnar er hækkuð úr 10 millj. kr. upp í 15 millj. kr. En með frv. því, sem hér liggur fyrir, er farið fram á, að upphæðin verði enn hækkuð úr 15 millj. kr. upp í 25 millj. kr., og er það efni frumvarpsins.

Framkvæmdir við landshöfnina í Keflavík og Njarðvík voru hafnar sama ár og lögin voru sett á Alþingi, eða 1946. Þá tók landshöfnin við þeim mannvirkjum, sem Keflavíkurhöfn átti, ásamt áhvílandi skuldum á þeim mannvirkjum, sem námu 11/2 millj. kr. Þá keypti landshöfnin einnig nokkuð af löndum á þessum stað, og síðan hefur verið unnið að hafnarmannvirkjum bæði í Keflavíkurhöfn og í Innri-Njarðvík. Hefur verið unnið á tveimur stöðum. Mannvirki hafnarinnar í Keflavík eru þegar komin til mikilla nota, og er aðalhöfnin þar, fiskihöfn og flutningahöfn, en mannvirkin í Njarðvík eru skemmra á veg komin. Hafa að vísu orðið að þeim töluverð not, en koma þó enn ekki að fullum notum, og er gert ráð fyrir að halda áfram verkinu. Að þessu er nánar víkið í nál. á þskj. 383. En alls er búið að verja til framkvæmdanna í landshöfninni, að meðtöldum þeim lánum, sem landshöfnin yfirtók frá Keflavíkurhöfn, hátt á 14. millj. kr. Auk þess hafa verið keypt lönd fyrir um 900 þús. kr. og þar að auki varið nokkru fé til húsa og tækja til afnota fyrir höfnina. Samtals er það fé, sem varið hefur verið til landshafnarinnar síðan 1946, að meðtöldu því sem á Keflavíkurhöfn hvíldi, rétt um 15 millj. kr. eða aðeins rúmlega það. Þetta fé hefur verið fengið á þá leið, að ríkissjóður hefur lagt fram um 41/2 millj. kr., eða nál. þriðjunginn, og hafnarbótasjóður auk þess rúml. hálfa þriðju millj. kr. Þar að auki skuldar landshöfnin í ríkisskuldabréfum og í ábyrgðarlánum um 4 millj. og ríkissjóði sérstaklega á svonefndum viðskiptareikningi um 3 millj. kr. Tekjur hafnarinnar hafa farið vaxandi í seinni tíð og námu á árinu 1953 1.4 millj. kr., og á árinu 1954 munu þær hafa numið um 1.7 millj. kr.

Þessar upplýsingar um mannvirki landshafnarinnar og um fjármál hennar vil ég fyrir hönd n. láta koma hér fram, og er reyndar að þeim víkið í nál. En n. leggur til, að meginefni þess frv., sem hér liggur fyrir, verði samþ., þ.e.a.s. heimildin til að taka lán vegna landshafnarinnar, sem raunar þýðir í framkvæmd að verja fé til hafnarinnar, verði hækkað úr 15 millj. upp í 25 millj. kr. Jafnframt leggur n. til, að gerðar verði nokkrar formsbreytingar á frv., sem tilgreindar eru á þskj. 383. Þær skipta ekki máli efnislega. Aðalatriðin í þessum brtt. eru þau að breyta orðalagi til samræmis við það, að Keflavík er ekki lengur hreppur, heldur kaupstaður, og að lögin frá 1950 eru felld inn í upphaflegu lögin frá 1946. Er þá gert ráð fyrir, að landshafnarlögin frá 1946 verði gefin út að nýju svo breytt.