08.03.1955
Efri deild: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

151. mál, endurtrygging

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Félagið Íslenzk endurtrygging hefur óskað eftir, að félmrn. gengist fyrir því, að lögum þess yrði breytt þannig, að heimiluð yrði 6% arðsúthlutun í stað 5% eins og nú er. Heilbr.- og félmn. Nd. flutti síðan frv. um þetta.

Félag þetta var stofnað með l. nr. 106 1943, og var þá ákveðið, að félagið mætti greiða allt að 6% í arð, en árið 1947 var lögum þess breytt þannig, að hámark arðs var fært niður í 5% með hliðsjón af því, að sparifjárvextir voru mjög lágir. Með lögum nr. 43 1947 var einnig ákveðið, að starfsemi félagins breyttist þannig, að það tæki að sér að endurtryggja fyrir íslenzk vátryggingarfélög, einkum á sviði sjótrygginga.

Áhættufé félagsins er: frá ríkissjóði 1 millj. 850 þús., frá Tryggingastofnun ríkisins, Brunabótafélagi Íslands og Sjóvátryggingarfélagi Íslands samtals 408 þús. og frá útgerðarmönnum 2 millj. 706 þús., eða samtals 4 millj. 964 þús. kr. Auk þess eru áhættufjárábyrgðir, er nema samtals rösklega einni millj. kr. Í varasjóð félagsins leggst árlega samkvæmt lögum 10% af hagnaði. Nú er farið fram á, að arður megi greiðast með 6% í stað 5%, eins og áður er getið, og leggur n. eindregið til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og nál. ber með sér.