08.03.1955
Efri deild: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (1492)

111. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þetta litla frv. er um það að taka lendingarstað við Skagafjörð, Lónkotsmöl, inn á B-lið 2. gr. l. um hafnargerðir og lendingarbætur. Færa flm. þau rök fyrir þessu, að þarna hafi verið töluvert útræði frá gamalli tíð og gefizt vel, en vegna slæmrar lendingar sé lendingin ekki nothæf nema litlum bátum og því sé aðgerða þörf til þess að geta stundað þaðan sjó á þann hátt, sem nú þykir henta.

N. hefur athugað frv. og fallizt á rök flm. og leggur þar af leiðandi til, að það verði samþykkt.

Þá tók n. til athugunar brtt. frá hv. þm. Barð. (GíslJ) um, að nýjum stað yrði bætt inn í þennan sama staflið nefndra laga, sem er Reykhólar í Reykhólahreppi. Hv. flm. var vitanlega ekki búinn að flytja neina framsöguræðu um þessa till., þar sem nú er 2. umr., og ég skal játa, að n. er ekki mjög kunnug þarna eða dómbær verulega, en þó leggur hún til, að þessi brtt. verði einnig samþ. og þá með tilvísun til þess, að Alþ. hefur það á valdi sínu á hverjum tíma, hvað það vill veita mikið fé til aðgerða á lendingarstöðum. Annars mun hv. flm. þessarar till. e.t.v. gera d. nánari grein fyrir henni, áður en umr. er lokið.