07.02.1955
Neðri deild: 41. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

129. mál, Brunabótafélag Íslands

Flm. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Á síðasta Alþingi voru samþ. lög um brunatryggingar utan Rvíkur, en í 5. gr. l. voru sett eftirfarandi ákvæði, með leyfi hæstv. forseta:

„Sameinað Alþingi kýs hlutfallskosningu fimm manna nefnd til þess að endurskoða lög um Brunabótafélag Íslands og önnur lagafyrirmæli um brunamál utan Reykjavíkur. Nefndin kýs sér formann og skal í starfi sínu hafa samráð við forstjóra Brunabótafélags Íslands. Nefndin skal ljúka störfum það snemma, að unnt verði að leggja frumvarp um þetta efni fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Í samræmi við þessi fyrirmæli l. var nefndin kjörin af hv. Alþingi. Hélt hún nokkra fundi s.l. sumar og lauk svo störfum eftir að Alþ. var komið saman til fundar í vetur. N. gat ekki orðið sammála um niðurstöður og skilaði því tveimur till. ásamt grg. til ríkisstj. með bréfi, dags. 9. nóv. s.l. Meiri hl. n., Jón Sigurðsson alþm., Guðmundur Í. Guðmundsson alþm. og Jónas Rafnar, samdi frv. til laga um Brunabótafélag Íslands, en minni hl., Guðmundur Guðlaugsson forstjóri, Akureyri, og Vilhjálmur Jónsson lögfræðingur, Reykjavík, gekk frá og afhenti brtt. við það frv. Einnig samdi minni hl. n. frv. til l. um brunatryggingar utan Rvíkur.

Þegar það dróst á langinn, að ríkisstj. legði till. meiri eða minni hl. n. í einhverju formi fyrir Alþ., en óvíst var um starfstíma þess í vetur, urðu nokkrir hv. þdm. ásáttir um að flytja till. meiri hl. brunamálanefndar svo til óbreyttar í frumvarpsformi. Var frv. útbýtt í d., rétt áður en Alþ. var frestað fyrir hátíðarnar. Ég tek það fram, að fim. frv. hafa áskilið sér rétt til þess að fylgja brtt., sem fram kunna að koma við það. — Frv. þessu fylgir allýtarleg grg. og athugasemdir við hverja frvgr. fyrir sig, eftir því sem tilefni hefur þótt til. Ég tel því ástæðulaust að fylgja því úr hlaði með langri framsögu, en vísa til grg., sem hv. þdm. hafa kynnt sér. Ég vildi þó aðeins drepa á helztu nýmælin, sem felast í frv.

Í frv. er m.a. lagt til, að teknir verði upp nýir og töluvert breyttir stjórnarhættir hjá Brunabótafélagi Íslands. Í gildandi lögum um Brunabótafélag Íslands er tekið fram, að félagið standi undir umsjón ríkisstj. og að félaginu stjórni framkvæmdarstjóri, er skipaður er af ríkisstj. Samkvæmt frv. hefur ríkisstj. áfram yfirumsjón með starfsemi Brunabótafélagsins og ráðherra skipar því forstjóra, en frv. gerir ráð fyrir þeirri skipulagsbreytingu, að stofnað verði fulltrúaráð fyrir félagið, skipað einum manni frá hverju bæjarog sýslufélagi, sem tryggja fasteignir sínar hjá félaginu að einhverju eða öllu leyti. Skulu þessir fulltrúar kosnir að afstöðnum hverjum reglulegum bæjar- og sýslunefndarkosningum. Þá er gert ráð fyrir því, að Brunabótafélagið kalli fulltrúaráðið saman til aðalfundar fjórða hvert ár, en auk þess megi kalla það saman til funda hvenær sem framkvæmdarstjórn ákveður og ætíð er eigi færri en 1/3 hluti fulltrúaráðsmanna óskar þess. Á aðalfundi skal kjósa 3 menn úr hópi fulltrúaráðsmanna í framkvæmdarstjórn fyrir félagið. Um starfsemi fulltrúaráðsins að öðru leyti segir í frv., að það skuli ræða um rekstur félagsins, afkomu og framtíðarhorfur og taka til athugunar, hvað unnt er að gera til hagkvæmra brunatrygginga fasteigna og lausafjár, svo og brunavarnir og einnig um aðrar tryggingar, sem félagið kynni að taka að sér. Um fulltrúaráðið segir svo í grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Það þótti mjög eðlilegt og í samræmi við skipulag og verksvið Brunabótafélags Íslands, áð valdir fulltrúar bæjarfélaga og sýslna fylgist með störfum og rekstri félagsins, sem hefur það hlutverk að brunatryggja húseignir í umdæmum þessum. Þessir kjörnu fulltrúar eiga að gæta hagsmuna vátryggðra og tryggja, að þeir njóti beztu kjara, sem unnt er að fá, og að efldar séu brunavarnir og aðrar varúðarráðstafanir. Hefur forstjóri Brunabótafélagsins fyrir nokkrum árum lagt til, að þessir skipulagshættir væru upp teknir á stjórn félagsins. Þessi ákvæði eru og mjög sambærileg við fyrirmæli samþykkta brunabótafélaga, sem annast vátryggingar í kaupstöðum og sveitum á Norðurlöndum.“

Þá er og á það bent, að kostnaður þurfi ekki að verða ýkja mikill við fundi fulltrúaráðsins, þar sem þeir yrðu venjulega ekki nema fjórða hvert ár.

Hin þriggja manna stjórn Brunabótafélagsins mundi fylgjast með rekstri þess og taka ásamt forstjóra ákvarðanir um allar meiri háttar ráðstafanir, eins og t.d. tryggingakjör fyrir bæjarog sveitarfélög og lánveitingar félagsins og ráðstafanir á varasjóðum. Í framkvæmdinni hafa þau málefni til þessa verið afgreidd af forstjóranum einum.

Í 2. gr. frv. eru sett nokkur ný ákvæði og skýrari um tilgang og starfsemi Brunabótafélagsins en áður voru í 2. gr. laga nr. 73 frá 1942, þar sem gert er ráð fyrir að binda í lögum það, sem áður hefur verið framkvæmt af félaginu, án þess að um það væru nokkur sérstök lagaákvæði, svo sem um stuðning við brunavarnir, útvegun slökkvitækja, lán til vatnsveitna o.fl. og aðstoð við eftirlit með brunavörnum. Þótti eðlilegra og réttara að hafa þetta ákveðið í löggjöfinni sjálfri. Í frv. er gert ráð fyrir því, að Brunabótafélagi Íslands sé heimilt eftir vissum reglum að taka að sér fleiri og víðtækari tryggingargreinar en nú er.

Í 8. gr. frv. er felld niður takmörkun, er ákveðin var í 4. gr. núgildandi laga um heimild Brunabótafélagsins til að brunatryggja lausafé, en samkv. 4. gr. má félagið nú ekki taka að sér tryggingar á verzlunarvörum.

Þá er það nýmæli í 23. gr. frv., að heimilað er að nota fé varasjóðs, ef öruggt þykir, til stofnunar og rekstrar nýrra tryggingargreina, enda þurfi samþykki framkvæmdarstjórnar og fulltrúaráðs að koma til.

Það má segja, að þessar rýmkanir á starfssviði Brunabótafélags Íslands séu eðlilegar, eftir að burt hefur verið felldur einkaréttur þess til brunatrygginga allra fasteigna utan Rvíkur og önnur vátryggingarfélög geta keppt við það í þeim efnum. — Þá er sú breyt. gerð á 6. gr. núgildandi laga, að lagt er til að fella niður 4. flokk, tryggingarflokk fasteigna í Rvík, og 5. flokk, tryggingarflokk stríðstrygginga íslenzkra skipshafna, þar sem ástæðulaust þykir að halda þessum eldri ákvæðum við áfram.

Í 20. gr. frv. eru sett ný ákvæði, sem segja má að séu nánari skýringar og fyllri fyrirmæli um ákvæði 1. gr. laga nr. 59 frá 1954, um brunatryggingar utan Rvíkur. Í gr. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn bæjar- eða sveitarfélaga getur leitað til Brunabótafélagsins og óskað eftir því að fá endurskoðaðar breytingar á iðgjaldagreiðslum og öðrum kjörum varðandi brunatryggingar fasteigna í bæjar- eða sveitarfélaginu. Náist ekki samkomulag um samning innan tveggja mánaða frá því að ósk kom fram um endurskoðun eða breytingar á tryggingarkjörum, er hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarfélagi heimilt að segja sig úr Brunabótafélaginu með sex mánaða fyrirvara miðað við 15. okt. ár hvert.

Eftir núgildandi lögum eru öll bæjar- og sveitarfélög á landinu utan Rvíkur í Brunabótafélagi Íslands, en hafa samkvæmt l. nr. 59 frá 1954 heimild til þess að semja við önnur vátryggingarfélög um brunatryggingar á húseignum innan vébanda sinna eftir 15. okt. n.k. Ef sveitarfélag notar þá heimild, er það þar með komið úr Brunabótafélagi Íslands. Það er ekki nema eðlilegt, að brottför úr Brunabótafélaginu sé háð vissum tímatakmörkunum, þar sem félagið þarf í því sambandi að gera ýmsar ráðstafanir. Reikningsár félagsins er frá 15. okt. til jafnlengdar næsta árs, en iðgjöld falla í gjalddaga 15. okt. ár hvert. Löngu fyrir gjalddaga þarf að undirbúa á aðalskrifstofu félagsins innheimtuskrár og iðgjaldakvittanir, sem þurfa að vera komnar í hendur umboðsmanna þess fyrir gjalddaga. Er félaginu því nauðsynlegt að vita um það með nokkurra mánaða fyrirvara, hvort deildirnar í félaginu séu áfram í því eða ekki, svo að undirbúningsvinna á skrifstofu sé ekki unnin fyrir gýg.

Í athugasemdum við 8. gr. frv. er gengið út frá því, að gripahús, hlöður og geymsluhús á sveitabæjum verði í skyldutryggingu. Þetta er á misskilningi byggt, þar sem 7. gr. frv. tekur það fram, að fyrrnefnd hús í sveitum verði eftir sem áður undanþegin skyldutryggingu. Leyfi ég mér að leiðrétta þetta hér með.

Eins og öllum er kunnugt, hefur starfsemi Brunabótafélags Íslands vaxið mjög undanfarandi ár. Félagið hefur nú komið sér upp varasjóðum að upphæð yfir 20 millj. kr. Og ríkið mun nú ekki lengur bera neina ábyrgð á skuldbindingum félagsins. Brunabótafélag Íslands mun nú hafa 2/3 hluta trygginganna í eigin ábyrgð, en endurtryggir 1/3 hluta. Þá hefur Brunabótafélagið um langt árabíl kostað kapps um að auka og efla brunavarnir í landinu, og það heldur nú uppi og kostar eftirlit með brunavörnum.

Í þessu skyni hefur félagið lánað sveitarfélögum um 13 millj. kr. til stækkunar vatnsveitna og eflingar brunavarna.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um frv., en óska eftir því, að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. allshn.