21.02.1955
Neðri deild: 50. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (1508)

129. mál, Brunabótafélag Íslands

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð, sem ég vildi segja út af því, sem fram hefur komið í ræðum þessara hv. tveggja þm., hv. þm. Ak. og hv. 3. þm. Reykv.

Það, sem hv. þm. Ak. sagði nú um þetta efni, var aðallega um það, sem ég hafði minnzt á, uppsagnarfrestinn, ef menn segðu skilið með sínar tryggingar við félagið. Honum fannst, þar sem þessi félagsskapur hefði verið byggður upp á þann hátt, að menn hefðu verið lögbundnir við félagið, en nú væri gert ráð fyrir þeim möguleika, að sveitarfélögin gætu sagt upp sínum tryggingum og tryggt eignir sínar annars staðar, þá væri ekki óeðlilegt, að það væri nokkuð langur frestur, eins og frv. gerir ráð fyrir.

Ég er ekki í neinum vafa um það, að Brunabótafélag Íslands þarf ekki á þessum fresti að halda, þó að það mæti því, að einhverjir segi upp slíkum tryggingum hjá því. Það er áreiðanlega svo á vegi statt og hefur þeim mönnum á að skipa, sem vinna hjá félaginu, að svona langur uppsagnarfrestur þarf ekki að vera þess vegna. Það hefur haft langan tíma til þess að tryggja starf sitt og undirbúa starfið í framtíðinni, tryggja fjárhag sinn og aðstöðu, svo að þeirra hluta vegna ætti ekki þess arna að þurfa með, og er þess vegna, skilst mér, alveg óþarft að hafa þetta fyrirkomulag og ekki heldur eðlilegt. Mér finnst, að þessir hv. þm., sem að þessum till. standa, eins og geri ráð fyrir því, að þessi félagsskapur megi ekki við því, að menn hafi frjálsræði til þess að tryggja þar, sem þeir vilja, a.m.k. verði það að gerast með löngum fyrirvara, ef félagið á að missa af tryggingu þeirra. Þetta held ég sé óþarft.

Hv. 3. þm. Reykv., frsm. meiri hl. n., vék að þessum sömu atriðum. Hann lét þess getið af sinni hálfu, að ef gengið væri frá þessu frv. eins og það er, þá væri þessi uppsagnarfrestur ekki óeðlilegur. Í þessu felst það hjá hv. þm., að samkvæmt þessu frv. er allmikil binding hjá mönnum að tryggja hjá félaginu, og þessi sex mánaða uppsagnarfrestur, miðaður við 15. okt., lýtur fyrst og fremst að því að tryggja, að innan þess tíma, sem lögin tiltaka, verði að vera búið að segja upp tryggingunum, annars verði menn að vera hjá félaginu næsta ár. Ég skil mætavel þennan tilgang og vék að því stuttlega áðan, og það þarf ekki þess vegna af hv. fylgismönnum þessa frv. að vera að undirstrika það betur, ákvæði þessa frv. bera það fullkomlega með sér, hvað meint er í þessu efni.

Þá vék hv. 3. þm. Reykv., frsm. meiri hl., að því, að það væri ekki óeðlilegt, þar sem þetta tæki til manna úti um landið, að sýslunefndir og bæjarstjórnir kysu fulltrúa, sem kæmu saman einu sinni a.m.k. á hverjum fjögurra ára fresti til þess að ráða ráðum sínum. Mér skildist hjá honum, að aðalverkefnið mundi þá eiga að vera að gera samninga við félagið, áframhaldandi samninga um tryggingu, allir félagarnir í hóp; það kom svo út. (Gripið fram í.) Ja, ég er ekki viss um, að ég hafi misskilið hv. frsm., því að hann undirstrikaði sín ummæli með því, að það væri meiri von um góða og hagstæða samninga, ef allir stæðu saman, heldur en ef þeir gerðu það einn og einn. (Gripið fram í.) Ja, ekki vil ég neita þessu, en nokkuð kynnu að vera mismunandi þó viðhorf manna til áframhaldandi samninga, og eitt er víst, að hingað til hefur það ekki gilt hjá þessum félagsskap, að menn hafi átt við sömu kjör eða kosti að búa í þessum efnum, hvar sem er á landinu. Ég er þess vegna ekki alveg viss um nema viðhorf þessara fulltrúa til áframhaldandi samninga kynnu að verða nokkuð mismunandi og ekki þá sýnt, að það verði svo mikill styrkur, ef allir ætla að fara að semja í einu, enda mundi það náttúrlega verða eftir geðþótta manna á því viðhorfi, sem menn hafa til samninganna, og þetta mundi ekki ráða neinu um það.

En mér finnst alltaf, að það komi fram hjá þessum hv. ræðumönnum, að þeir geri ekki ráð fyrir, að þetta snerti verulega aðra en bæjareða sveitarfélög, þ.e.a.s., þau eigi að koma fram sem aðill fyrir alla einstaklingana. En því mega þeir ekki í þessum efnum hafa frjálsar hendur? Það er svo ósköp mikið talað nú á tímum um frjálsræði í ýmsum greinum. Af hverju mega þá einstaklingarnir ekki hafa frjálsræði í þessu, sem er svona einstaklega einfalt og óbrotið. Ef litið er til reynslunnar, sem að baki er, er það þá víst, að hún staðfesti ekki álit þessara hv. þm.? Mig minnir, að Reykvíkingar ættu kost á því í fyrra að vátryggja hús sín fyrir eitthvað 47% minni iðgjöld en áður hafði tíðkazt. Þar var bærinn aðili. Greiða húseigendur þessa bæjar 47% minni iðgjöld nú en þeir greiddu í hittiðfyrra? Ég las í einhverju blaði nýlega, að það hefði verið framlengt óbreytt fyrir árið í ár. Það kann að vera einhver missögn, en ég hef það þá mér til afsökunar, eins og sagt var í gamla daga: Ég tók þetta trúanlegt, því að ég hef lesið það á prenti. — Ég held, að það færi bezt á því, að við hefðum frjálsræði í þessum efnum, þetta mál sé bezt komið með því fyrirkomulagi.

Hv. 3. þm. Reykv. vék að þeim orðum, sem ég lét falla um fulltrúana og þann kostnað, sem af því leiðir, þetta væri ekki óeðlilegt í sjálfu sér. Ég hef nú aldrei gert mjög mikið úr þessu, en mér finnst þetta samt sem áður of viðamikið og óþarft. Að stéttarfélag bænda hafi sína fulltrúa til þess að sinna sínum málum og þeir komi saman, kostar vitaskuld nokkurt fé, það er alveg rétt, — þeir kæmu saman til að ráða ráðum sínum og það væri ekki talið óeðlilegt. Ég er honum sammála um þetta. En ætlar hv. 3. þm. Reykv. að bera saman þau verkefni, sem fundir stéttarfélags bænda hafa í hvert sinn um að fjalla, málefni stéttarinnar öll, sem til þarf að taka, og þennan eina þátt og leggja þetta að jöfnu? Ég held, að hv. 3. þm. Reykv. hafi ekki hugsað nóg út í það, þegar hann fór að bera þetta saman, hvað hjáleitt það er. Stéttarfélag bænda gæti vitaskuld líka látið tryggingarnar að einhverju leyti til sín taka, en það mundi ekki vera nema einn lítill þáttur af öllu því, sem það þarf að sinna og kemur til með að fást við.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Atkvæði verða vitaskuld látin skera úr. En ég er ekki í miklum vafa um, að þeir, sem frelsi og sjálfstæði unna, fara ekki að bregða fæti fyrir það, að menn megi hafa athafnafrelsi í þessum efnum, af því að það liggur þeim svo nærri og er svo auðvelt að verða við óskum manna í þessu efni.