24.02.1955
Neðri deild: 52. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (1516)

129. mál, Brunabótafélag Íslands

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Hv. þm. V-Húnv. hefur sýnilega þótt mikið við liggja að vera vel undirbúinn í máli þessu, enda hirti hann ekki um að svara því, sem sagt var hér í gær, heldur kemur hér nú undirbúinn til þess að deila á menn um það, hvor sé meira fylgjandi einstaklingsfrelsi og einstaklingsframtaki — hann sem mælir gegn frv um Brunabótafélagið, eða hinir, sem fylgja því. Ég verð að segja fyrir mig, að ég hef jafnan litið svo á, þó að hv. þm. sé manna frjálslyndastur í skoðunum, að ég væri engu minni frjálshyggjumaður en hann í þeim greinum, sem hér er um ræða. En þessar umræður eru nú farnar að færast talsvert mikið í þófsáttina, og finnst mér ekki ástæða til þess að halda þeim uppi lengur.

Ég vil þó segja hv. þm. út af því eina atriði, sem mér fannst nokkru máli skipta í ræðu hans, að hann tók í munn sér sömu röksemdir og hv. 1. þm. Árn. hampaði hér við umr. í gær, að það að vera fylgjandi samtryggingum húseigna væri svipað því að vera því fylgjandi, að bær eða ríki tæki að sér alla vörusölu í bænum eða á landinu. Ég vék lítils háttar að þessu við umræðurnar í gær, og ég tel ekki ástæðu til að fara nánar út í það. Þetta er tvö ólík mál. Það er hrein fjarstæða að bera þetta saman.

Þeir, sem mælt hafa gegn frv. um Brunabótafélagið, en með frv. um brunatryggingar utan Reykjavíkur, hafa haldið því fram, að Brunabótafélagið ætti að standa jafnfætis öðrum félögum á frjálsum markaði. Mér hefur raunar skilizt, að þeirra málafylgja öll hafi snúizt um þetta eina atriði. Þeim hefur fundizt, að félaginu væru gefin meiri fríðindi en rétt væri og að það stæði því betur að vígi með þessu en önnur félög. Þess vegna virtust mér mjög athyglisverðar þær upplýsingar, sem hv. þm. Ak. kom með hér nú varðandi það félag, sem þessir hv. þm. eru að berjast fyrir; það er vitanlegt, að þeir eru að berjast fyrir hagsmunum Samvinnutrygginga. Ég skal ekki álasa þeim fyrir það eða leggja þeim það nokkuð til lasts. En það er vitanlegt, að fyrir hagsmunum þessa félags hafa þeir verið að berjast. Nú upplýsir hv. þm. Ak., að þeir samningar, sem Samvinnutryggingar hafa gert við menn, séu með sex mánaða uppsagnarfresti af hálfu tryggingartaka, alveg elns og greinir í frv. um Brunabótafélagið. M.ö.o.: Samvinnutryggingar þykjast þurfa að hafa sama fyrirvara um uppsögn á sínum tryggingum og frv. gerir ráð fyrir að Brunabótafélagið hafi, Ja, þá sé ég nú ekki annað en að hruninn sé grundvöllurinn undan fótum þessara hv. þingmanna, sem hér hafa haldið uppi mjög löngum og hörðum umræðum einmitt um þetta atriði. En hv. þm. reynir að bjarga sér út úr ógöngunum með því að segja, að honum komi ekkert við, hvað Samvinnutryggingar geri. Það kann vel að vera, að honum komi það ekki við. Mér dettur ekki í hug að bera á móti því. En svo segir hann: Ja, er þá ekki bezt að gera bæði félögin jöfn, setja það í frv. um Brunabótafélagið, að uppsagnarfresturinn sé aðeins tveir mánuðir? Þá standi þau jafnt að vígi. — Ég endurtek þetta vegna þess, að hv. þm. virtist ekki taka ettir því, sem ég skaut fram í við umræðurnar, er ég spurði hann: Ef þetta er gert, ef frv. um Brunabótafélagið er breytt þannig, að uppsagnarfresturinn sé tveir mánuðir, eru þá Samvinnutryggingar bundnar við sama ákvæðið? Ég sé ekki annað en að þessi lög gildi aðeins fyrir Brunabótafélag Íslands. Þótt Brunabótafélaginu sé skipað með lögum að losa tryggingar sínar með tveggja mánaða fyrirvara, er engin skylda lögð á herðar Samvinnutryggingum né neinu öðru tryggingarfélagi. Þau geta haldið 6 mánaða ákvæði í sínum samningum, ef þau kæra sig um. Ég efast um, að Samvinnutryggingar kæri sig um að sleppa þessu 6 mánaða ákvæði, og þá gæti vel svo farið, að hv. þm. væri ekki að gera þessu góða félagi neinn greiða. En þá mundi vera búið að leggja kvöðina á Brunabótafélagið, án þess að nokkur kvöð væri á hinum félögunum og án þess að nokkur trygging væri fyrir því, að þau fylgdu sömu reglum.