24.02.1955
Neðri deild: 52. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (1520)

129. mál, Brunabótafélag Íslands

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er aðeins viðkomandi einu atriði, sem ég vil minnast á til viðbótar því, sem hv. 1. þm. Árn. sagði í sinni ræðu. Það er út af þeirri fyrirspurn, sem hv. 5. landsk. þm. kom með til okkar. Hann fór að tala um afurðasölulöggjöf landbúnaðarins og gerði fyrirspurn í því sambandi.

Ég hef ekki orðið þess var, að í þeirri löggjöf væri neitt um það, að bæjar- og sveitarstjórnir gætu tekið þau mál í sínar hendur og samið fyrir alla íbúa viðkomandi bæjar- eða hreppsfélags um kaup eða sölu á afurðum landbúnaðarins, eins og gert er ráð fyrir að bæjar- og sveitarfélög fái heimild til um þau viðskipti, sem hér er um að ræða í þessu frv. um brunatryggingar. En kannske þetta eigi að koma, ef þetta frv. verður að lögum; næsta skrefið verði að koma með frv. um, að bæjar- og sveitarfélög, eða meiri hluti á hverjum stað, geti ákveðið að taka í sínar hendur öll þau viðskipti, hvað sem framleiðendur og neytendur kunni um það mál að segja.