10.03.1955
Efri deild: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

129. mál, Brunabótafélag Íslands

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 10. landsk. þm., frsm. hv. allshn. þessarar deildar og nefndarmaður við að semja það frv., sem hér liggur fyrir, vildi gera lítið úr því, að þær athugasemdir, sem ég gerði, hefðu við veruleg rök að styðjast, og taldi auðskilin þau atriði, sem ég taldi að hefðu þurft að vera skýrari. Ég hafði ekki viljað tefja málið með langri ræðu um þann höfuðágreining, sem er í þessu máli og var víst allmikið tekizt á í sambandi við í Nd. En ég hef hins vegar bent á nokkur atriði frv., sem ég taldi að ætti að geta orðið samkomulag um að laga og vil gera tilraun til að fá löguð, og mér þykir nú reyndar undarlegt, að hv. 10. landsk. skuli ekki, af því að hér er um hans smíðisgrip að ræða, vilja fallast á þessar lagfæringar. Mér finnst það óþarfa stórlæti af hans hendi. Hann taldi fyrst, að lítið væri leggjandi upp úr því, þó að komið hefðu fram tilboð um bætt kjör í brunatryggingarmálum, og vildi með því fullyrða, að Brunabótafélagið hefði verið vel á verði um að gefa mönnum, sem skyldugir voru til að skipta við það, svo góð kjör sem hægt var, þó að þeir ættu ekki í annað hús að venda. Og hann vitnaði til þess, að orðið hefði nú að hækka vátryggingar bifreiða. Og víst er þetta rétt hjá honum, að tryggingarfélögin hafa komið sér saman um að hækka iðgjöld frá því, sem þau voru lægst. En kannske hv. þm. geti líka sagt, — hann sagði það ekki, — að gjöldin vegna bilanna séu komin í þá hæð, sem þau voru áður en þau voru lækkuð. Ég get hugsað mér, að það geti alltaf orðið svo og muni sennilega verða svo, þegar unnið er að þessum málum á frjálsum vettvangi, að það kunni að þurfa að leiðrétta eitthvað. Og þarna er aðeins um leiðréttingu að ræða, en ekki að horfið sé frá þeirri stefnu að hafa kjörin sem bezt eða fallið sé í sama farið aftur.

Þá minntist hv. þm. á þær athugasemdir, sem ég hef gert við frv., og þó ekki allar. Hann taldi, að það lægi ljóst fyrir, hvenær ætti að kjósa í fulltrúaráð og framkvæmdarstjórn. Frv. gerir ráð fyrir, að kosið sé strax að afstöðnum reglulegum kosningum, en þær eru afstaðnar fyrir ári og þrjú ár þangað til þær fara fram að nýju. Hann taldi, að með því að 27. gr. gerði ráð fyrir, að lögin gangi strax í gildi, þá lægi ljóst fyrir, að þessa menn ætti strax að kjósa. En hví þá ekki að gera grein fyrir þessu í lögunum eða þá a.m.k. í greinargerð, sem fylgdi frv., til þess að taka af allan vafa? En það er náttúrlega vegna þess, að það hefur ekki legið ljóst fyrir þeim, sem sömdu frv., eins og kemur í ljós hjá hv. 10. landsk., hvenær hægt er að kjósa þessa nefnd. Í greininni, sem ég því miður hef ekki í höndum, er tekið fram, hverjir hafi kosningarrétt. En um leið og lögin ganga í gildi, er það ekki í ljós komið, hverjir hafa kosningarrétt. Þess vegna hygg ég, að hv. þm. verði að kannast við, að það er ekki hægt að kjósa strax og lögin ganga í gildi. Það er ekki hægt að kjósa fyrr en það er í ljós komið, hverjir verða í Brunabótafélagi Íslands á þessu kjörtímabili eða hverjir ráðast þangað fyrir byrjun næsta starfsárs. (Gripið fram í.) Það er sagt, að fulltrúaráðið verði kallað til funda 4 hvert ár, og á það bendir hv. þm. (GÍG: Það stendur: Fyrsta aðalfund félagsins skal halda þegar eftir að lög þessi koma til framkvæmda.) En það stendur enn óhaggað, að lögin koma til framkvæmda áður en hægt er að kjósa fulltrúana, áður en fullkomin skipun er komin á félagið.

Þá vildi hv. þm. gera lítið úr því, að felld hefði verið úr 7. gr. undantekningin fyrir Reykjavík, og vildi láta líta svo út, að ég hefði ekki gert ráð fyrir því, að það væri hægt að sjá annars staðar í lögunum, að Reykjavík gæti haft skipti við félagið, en ég benti einmitt á það um leið. En jafnvel þó að þessi heimildarákvæði séu, þá er þetta ónákvæmni í byggingu, sem var óþörf, eins og ég benti á, af því að fyrirmyndin, grein í núverandi lögum Brunabótafélagsins, tók skýrt fram, að Reykjavík væri undanþegin. Nú vil ég benda hv. þm. á 27. gr., sem gerir ráð fyrir því, að öll eldri ákvæði, sem komi í bága við þau lög, sem verið er að setja með þessu frv., séu úr gildi numin, og þá gripur það í raun og veru til laganna um brunatryggingar fyrir Reykjavík, ef strangt yrði eftir faríð, og slík ósamkvæmni sem þessi og ónákvæmni sýna hroðvirkni.

En aðalatriðið í athugasemdum mínum snerti 20. gr., og þess vegna vil ég aðeins minnast á það meira, af því að hv. 10. landsk. hélt því fram, að hér væri ekki verið að breyta neinu til óþæginda fyrir þá, sem málið snertir mest, eða sveitarfélögin í landinu. Hann sagði, að Brunabótafélag Íslands hefði skrifað snemma árs öllum sveitarfélögum til þess að hafa samband við þau um viðskiptin áfram, og þá varað við því að segja til í tíma, af því að þessi lög vofðu yfir. Þau bréf, sem Brunabótafélagið skrifaði, voru aðallega tilboð um framtíðarviðskipti. Sveitarfélögin bjuggust við því, að leiðum yrði ekki lokað fyrir þeim, en leiðirnar stæðu a.m.k. opnar til 15. okt. Það er ekkert þægilegt að semja um svona hluti bréflega eða í gegnum síma og ekki sízt fyrir það, að mörg sveitarfélög hafa hugsað sér — og það að gefnu tilefni — að leita samninga um lán í sambandi við nýja tryggingarsamninga og hafa hugsað sér, að þau gætu notað árið fram að 15. okt. til þessa. Menn úr fjarlægum héruðum eiga örðugt með ferðalög að vetrinum. Þess vegna er það svo í raun og veru, að ef frv. þetta er samþykkt óbreytt, þá er upphafinn sá fyrirvari, sem brunatryggingalögin frá í fyrra utan Reykjavíkur gáfu mönnum. Og ef hann er upphafinn, þá er sama sem að komið sé aftan að mönnum og þeir lokaðir inni með samninga sína hjá Brunabótafélaginu. Það hefur aldrei verið tilætlunin, a.m.k. var það ekki tilætlun þeirra manna, sem voru í fyrra að flytja mál um það að gera brunatryggingar frjálsar fyrir sveitarfélög.

Hv. 10. landsk. minntist ekkert á það, sem ekki kemur fram í þessu frv. til l. um Brunabótafélag Íslands, hver væri hinn eðlilegi eigandi þess og hvernig hægt væri að gera ráðstafanir, ef það kæmi fyrir, sem rökrétt er að hugsa sér að geti komið fyrir, að félagið hætti að starfa. Slíkt er um allan félagsskap. Og yfirleitt hygg ég, að það sé í öllum venjulegum félagslögum gert ráð fyrir einhverju slíku.

Ég vil svo að lokum vænta þess, að brtt. mín verði samþykkt, þyki sanngjörn og eðlileg, og ég hygg, að með henni sé, ef samþ. verður, staðið við nokkurn hluta af því, sem lofað var með frv. frá í fyrra, en þó nægilega staðið við hann til þess, að engum sé misboðið að því er fyrirvarann á þessu ári snertir.