11.03.1955
Efri deild: 57. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (1538)

129. mál, Brunabótafélag Íslands

Lárus Jóhannesson:

Af því að frsm. í máli þessu er ekki viðstaddur, vildi ég taka það fram út af brtt. hv. þm. Str., að þessi orð, sem hann vill láta fella þarna niður, eru alls ekki að ófyrirsynju sett. Um leið og tryggt er hjá Brunabótafélaginu eins og öðrum tryggingarfélögum, þurfa þau náttúrlega að endurtryggja, og sá endurtryggingarsamningur er gerður til ákveðins tíma. Við það er sex mánaða fresturinn miðaður. En ef eitthvert sveitarfélag fer fram á það að fá breytt til um tryggingarkjör, getur Brunabótafélagið eðlilega ekki svarað því undireins, vegna þess að það fer eftir svo mörgum aðstæðum, hvort hægt er að breyta þeim kjörum og hvað sanngjarnt er, t.d. hvernig brunavarnir eru í því, hvernig er háttað með steinhús, timburhús og annað o.s.frv.

Þetta frv., eins og það liggur fyrir, hefur verið samið af nefnd, og okkur í allshn. virðist ákaflega vandlega frá því gengið, svo að ég er hræddur um, að hv. þm. Str. hafi ekki athugað þessa hlið málsins, þegar hann kom með brtt. sína, því að frv. er alls ekki borið fram á nokkurn hátt til þess að handjárna eða binda, heldur af því að Brunabótafélagið verður auðvitað að kynna sér aðstæður heima fyrir í hverju einstöku sveitarfélagi, áður en það getur samið um þau kjör, sem þar henta. — Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri.