26.11.1954
Efri deild: 22. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (1565)

66. mál, dýralæknar

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð viðvíkjandi þessu frv. Það kom fram við 2. umr. málsins frá hv. 1. þm. Eyf. (BSt) sú aths., hvort ekki mundi vera réttara, að Ólafsfjörður yrði látinn fylgja Skagafjarðarumdæmi, en í frv. er gert ráð fyrir, að Ólafsfjörður fylgi Eyjafjarðarumdæmi. Hv. þm. fór fram á, að n. athugaði þetta milli umræðna, og n. hefur orðið við þeirri ósk, án þess þó að halda formlegan fund um málið. Hefur meiri hl. nm. tekið málið til athugunar og ekki séð ástæðu til þess að breyta þessu með Ólafsfjörð. Meiri hl. n. leggur því til, að Ólafsfjörður verði látinn fylgja Eyjafjarðarumdæmi, eins og í frv. getur, og að frv. verði samþykkt eins og það liggur nú fyrir.