21.03.1955
Neðri deild: 62. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (1582)

176. mál, vernd barna og ungmenna

Gunnar M. Magnúss:

Herra forseti. Svo sem hv. frsm. menntmn. hefur tekið fram, hefur þetta frv. breytzt allmjög frá því að hv. þm. Barð. (GíslJ) bar það fram í Ed. og dregizt mjög saman. Mætti ætla, að það væri orðið það skýrt og mótáð, að ekki þyrfti að gera athugasemdir við það frá öðrum aðilum, þar sem svo mjög hefur verið um það fjallað í Ed. og menntmn. Nd. En ég held samt sem áður, að ekki hafi verið athugað eða komi nógu skýrt fram það, sem er í raun og veru mergur málsins.

Hér er talað um vistheimill. Í raun og veru skilja menn nokkuð þýðingu þess orðs, en þrátt fyrir það er annað orð, sem þarf að bindast þessu, til þess að það sé óvefengjanlegt, hvað við er átt með þessu, og það er orðið skóli. Það þarf að vera alveg ákveðið, að það sé vistheimili og skóli fyrir þessar stúlkur, sem þarna eiga að dveljast. Vistheimili getur verið dvalarstaður um stundarsakir, eins og við þekkjum dæmi til úr okkar þjóðlífi. Það hefur verið gripið til þess oft og tíðum og oft misheppnazt, því miður. Stærsta dæmi þess er frá styrjaldarárunum síðustu, þegar stofnað var vistheimili í Borgarfirði fyrir stúlkur, sem höfðu afvegaleiðzt, eftir að herinn kom til landsins. Það má segja, að þrátt fyrir góða viðleitni í sambandi við rekstur þess heimilis hafi hann mjög farið öðruvísi en til var ætlazt, ég vil ekki segja mistekizt, ég er ekki nógu kunnugur málum, en það náði ekki þeim tilgangi, sem æskilegt var. Og hvers vegna ekki? Vegna þess, að til þess var hlaupið að stofna þetta vistheimili mjög fljótlega, án þess að hafa meginhugsjónina fyrir stafni, þ.e.a.s. þá meginhugsjón, að stúlkurnar hefðu ákveðin markmið til þess að keppa að, ekki til þess að þeim væri hent út úr borgarlífinu eða þjóðlífinu um stundarsakir, meðan ærsl þess lékju áfram.

Það er alveg nauðsynlegt, að með stofnun svona vistheimilis sé einnig ákveðinn skóli, sem hafi það takmark að gera stúlkurnar, sem þangað verða sendar, að hæfum borgurum til þess að gegna vissum og ákveðnum störfum. Þetta er gert í öðrum löndum með svona vístheimilum og skólum, en ég held, að það hafi ekki verið nægilega tekið fram hér í þessum umræðum; ég hef að vísu ekki fylgzt með þeim í Ed., en ég sé, að af því frv., sem hér er lagt fram, er þetta ekki greinilegt.

Þau kvennasamtök, sem hafa sent Alþ. orðsendingar um þetta mál, hafa þessa skoðun, sem ég bendi hér á. Ég er hér með skjöl, sem áfengisvarnanefnd kvenna og Mæðrafélagið í Reykjavík hafa sent Alþ., eftir að frv. kom til umræðu í Ed. Vitanlega eru konur eins og sennilega allir meðmæltar því, að eitthvað sé gert og sem fyrst og sem bezt í þessum málum. En þær benda hér á, t.d. Mæðrafélagið, að það sé nauðsynlegt að taka fyrirmynd, t.d. frá Norðurlöndum, um að stofna skóla, sem gefi stúlkunum ákveðið takmark og veiti þeim ákveðin réttindi, þegar þær hafa verið þar sinn tíma, t.d. tvö ár. Það getur vel verið, að sumt af þessu kæmi fram í reglugerð fyrir slíkri stofnun sem hér er gert ráð fyrir að sett yrði á fót. En það er í sambandi við hugmyndina um vinnuskóla, sem starfræktir eru annars staðar á Norðurlöndum, sem benda má á, að stúlkur, sem hafa verið á svona skólum og endað sinn tíma, eru jafnvel teknar fram yfir aðrar stúlkur til þeirra starfa, sem þær hafa tekið próf í. Það er tekið hér fram í grg. frá Mæðrafélaginu, þar sem það mælir með því, að eitthvað sé gert í þessum efnum, að t.d. vefnaður, þvottar, bökun, barnagæzla, garðrækt og fleira sé kennt, — ég ætla ekki að sundurliða það, — en þetta tilheyrir sérstaklega kennslu í skólum, og það er ekki hægt að stofna svona heimili eða samþykkja stofnun svona vistheimilis eða skóla án þess að annað atriðið sé algerlega fyrir hendi. Það er gott að fá veggina upp, skólana, en hitt atriðið er þó enn þá mikilsverðara, og það er starfsfólkið eða kennararnir, sem eiga að sjá um þetta. Er fyrir hendi nokkur maður eða nokkurt fólk, — það má vel vera, að svo sé, en það þarf líka að vera upplýst, — sem getur tekið að sér störf slíks heimilis eða slíks skóla? Ef svo er ekki, — og þeir eru nokkrir, sem þyrftu að starfa við svona heimili, — þá er ekki hægt að stofna það. Þá fer alveg eins og hér uppi í Borgarfirðinum, að hjörðin tvístrast og árangurinn verður hæpinn og e.t.v. stundum neikvæður, því að það að senda stúlkur á svona heimill er mjög ábyrgðarmikið. Þær verða að fara af frjálsum vilja, og þær verða að sjá vonarglætu í því, að þær geti sinnt sínum áhugamálum, því að allar eiga nú einhver áhugamál. Fái þær það ekki og séu sendar samt, þá er einmitt líklegt, að verr sé af stað farið en heima setið.

Það má vel vera, að það upplýsist, að hér séu fyrir hendi menn, sem geti tekið þetta að sér en það þarf líka að vera jafnhliða.

Ég vildi koma með þá till., — ég veit ekki, hvort það er hægt að skjóta orðinu skóli hér inn, en held, að það geri þetta sterkara og ákveðnara, ef það er nefnt vistheimili og skóli. Vistheimili, eins og ég sagði áðan, getur táknað aðeins dvalarstað um stundarsakir. Það má segja, að fangar séu settir til vistar á Skólavörðustig 9 um stundarsakir, en þeir eiga ekki að vera þar til neins annars en að eyða þar tímanum annaðhvort vegna dóms eða að bíða dóms. Ég vildi því leggja til, að þessu orði verði bætt inn í, ef það er hægt á þessu stigi málsins, en annars skjóta því til nefndar. Ég legg áherzlu á, að jafnframt sé séð fyrir, að heimilið geti starfað, og það getur ekki starfað, nema því aðeins að kennslukraftar séu fyrir hendi. Það þarf alveg sérstaka menn til þess að læra að umgangast þetta fólk. Ég hef kynnt mér þessi mál nokkuð á Norðurlöndum fyrir stríð og komið á mörg slík heimili, sérstaklega í Danmörku, og þar voru menn, sem höfðu lengi kynnt sér þessi mál, áður en þeir voru álitnir færir til þess að taka við skólunum og stjórna þeim. Í raun og veru, þegar senda skal stúlkur á svona heimili, þarf að vera sérþekking á hverri þeirra, og skólinn þarf að vera svo margbrotinn, að hann geti sinnt sem flestum eða öllum þörfum þeirra á þessum sviðum.

Ég lýsi vitanlega fylgi við þetta frv., að það komist í gegn, því að það er nauðsynlegt, en vil benda á þá nauðsyn, að þetta hvort tveggja sé fyrir hendi, að þar sé skólafólk, sem getur og kann að fara með þá, sem þangað verða sendir, og að til þess að það sé ótviræðara um stefnu og starf þessarar stofnunar, verði bætt þarna inn í orðinu „skóli“.