31.03.1955
Efri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

176. mál, vernd barna og ungmenna

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Eins og menn hér munu muna, þá flutti hv. þm. Barð. (GíslJ) snemma á þinginu frv. til laga um vistheimili fyrir stúlkur. Því frv. var vísað til menntmn. þessarar hv. deildar. N. mælti með þessu frv. með töluverðum breyt., þ.e.a.s. töluverðum úrfellingum, og var frv. síðan samþ. hér í hv. d. — ef ég man rétt, mun það hafa verið 15. des. — og sent til Nd.

Í Nd. var frv. vísað til hv. menntmn. þar, og hefur afgreiðsla hennar á málinu, sem d. síðan hefur fallizt á, orðið með nokkuð einkennilegum hætti. Hún afgreiðir ekki það mál, en í staðinn fyrir það semur hún og leggur fram frv. um sama efni, sem síðan hefur verið samþ. í hv. Nd. og verið hér fyrir menntmn. og hún fjallað um. Þetta nýja frv. er svipað hinn fyrra. Það eru einkum tvær breyt., sem gerðar eru. Önnur þeirra er eingöngu formlegs eðlis, þannig að nú heitir frv.: Frv. til l. um breyt. á l. nr. 29 9. apríl 1947, um vernd barna og ungmenna, þannig að efnið er aðeins fellt inn í þau lög. Hin breyt. má segja að sé frekar efnisleg, að fellt er niður ákvæði fyrra frv. um það, að ríkissjóði sé skylt að leggja fram nauðsynlegt fé í sambandi við stofnun óg rekstur heimilisins, en slíkt ákvæði var í hinu fyrra frv., og skildu ýmsir á þá leið, að þessi skylda ríkissjóðs kæmi þá fyrst til greina, þegar fé væri veitt á fjárl. Frá sjónarmiði þeirra manna, sem þann skilning höfðu, er breytingin í sjálfu sér engin frá fyrra frv., en vitanlega er hér um töluverða breyt. að ræða frá sjónarmiði hinna, sem skildu hið fyrra frv. á þann veg, að ríkisstj. væri skylt, hvað sem fjárlögum liði, að koma upp slíku vistheimili fyrir stúlkur.

Eins og sést á nál. menntmn. á þskj. 524, mælir hún með því að þetta frv. verði samþ. óbreytt. N. hafði undir meðferð fyrra málsins þann skilning, að fjárlagaheimild þyrfti til þess að hefast handa um að reisa slíkt vistheimili, og frá sjónarmiði hennar er þar af leiðandi ekki um annað en formsbreytingu að ræða hér. Getur hún ekki lagt til, að farið verði í stríð við hv. Nd. út af þeirri formsbreytingu.