31.03.1955
Efri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

176. mál, vernd barna og ungmenna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir leitt að verða að lýsa því yfir hér, að ég er algerlega ósammála frsm. um skilning þessa máls. Ef frv. er samþ. eins og það liggur fyrir nú, þá sé ég ekki annað en að hæstv. ríkisstj. þurfi ekki að leita eftir neinum nýjum heimildum til þess að greiða þann kostnað, sem því er samfara að hefja undirbúning að stofnun og rekstri vistheimilisins. Í 1. gr. segir ekkert annað en að hefja skuli undirbúning, og sá kostnaður, sem því er samfara, kemur á 24. gr. fjárlaga. Hæstv. ríkisstj. hefur þegar með ákvæðum 24. gr. fjárl. verið gefin heimild til þess að greiða nauðsynleg gjöld, sem eru samfara nýjum lögum og þingsályktunum, sem kunna að verða samþ. á þinginu, og þetta frv. er eitt af því, sem heyrir undir það ákvæði, og það er einmitt þess vegna, sem hv. Nd. vill ekki láta samþ. greinina óbreytta, að ríkissjóði skuli skylt að leggja fram nauðsynlegt fé í sambandi við stofnun og rekstur heimilisins, sem getur verið allvíðtækt atriði, eins og upplýst var. Það gæti m.a. kostað allt að 6–7 millj. kr., ef allt á að gerast á einu ári. Það var fullur skilningur hv. menntmn. Nd., að ríkissjóður greiddi allan þann kostnað, sem er samfara framkvæmdum 1. gr. frv., án þess að þurfa að leita um það nokkurrar sérstakrar fjárveitingaheimildar. Þannig skil ég það enn.

Ég vil þá í sambandi við þetta mál aðeins leyfa mér að benda á, að í upphafi lýsti ég því yfir, að ég skyldi taka til baka frv. á þskj. 14, ef hæstv. fjmrh. eða hæstv. ríkisstj. eða hv. fjvn. vildi lýsa því yfir, að tekin yrði upp á fjárl. þessa árs hæfileg fjárupphæð til þess að hrinda þessu máli eitthvað áfram. Það var ekki gert, og þó var hv. fjvn. sent um þetta erindi og skýrð fyrir henni nauðsynin á málínu. En hún sýndist ekki hafa neina löngun til þess að bæta úr þessu málí, og það er þess vegna, að það hefur orðið að sækja þetta mál á þann veg, sem hér er gert, að hvorki hæstv. fjmrh. né hv. fjvn. vildu sinna því, vildu ekki einu sinni taka upp nægilegt fé til þess að hefja undirbúning. Ef það hefði verið gert á þeim vettvangi, hefði verið alveg komizt hjá því að setja fram þessi frv., því að lögin sjálf segja alveg ótvírætt, að hafizt skuli handa, þegar fé sé veitt á fjárl. En vegna andstöðu hv. fjvn. og hæstv. ráðh. hefur orðið að fara þessa leið, að knýja málið fram á þann hátt, sem hér er gert. Ég held því fast fram enn, að ef frv. verður samþ. eins og það liggur fyrir, beri hæstv. ríkisstj. að láta hefja undirbúninginn. Hún ræður því að sjálfsögðu sjálf, hve víðtækt hún lætur vinna það verk, hvort hún aðeins lætur velja staðinn, hvort hún lætur gera teikningar eða hvort hún leigir húsnæði eða lætur undirbúa kaup á húsnæði, sem hún yrði að sjálfsögðu að fá þá samþykki Alþ. til, ef fé þyrfti að leggja fram til þess, en samþykki til að greiða kostnað við að undirbúa málið álít ég að sé þegar veitt og að sá kostnaður verði greiddur samkv. fyrirmælum 24. gr. fjárlaga.