11.02.1955
Neðri deild: 44. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Með þessu frv. er farið fram á að gefa samgmrh. rétt til þess að ákveða, hve margar fólksbifreiðar skuli vera í gangi í Rvík, sem hafa það að atvinnu að keyra fólk. Ég álít, að við þurfum mjög vel að athuga þetta mál og þessi tilmæli, sem hér liggja fyrir. Í fyrsta lagi varðar þetta rétt manna til vinnu, og það er tvíþætt hvað það snertir. Annars vegar kemur þarna fram sá ákaflega eðlilegi hlutur, að þeir menn, sem stunda leigubifreiðaakstur sem atvinnu, vilja eðlilega vera nokkuð öruggir um að geta haft lífsframfæri af sínu starfi og fara þess vegna fram á ákveðna vernd í því sambandi. Hins vegar vitum við, að þessar tilhneigingar til verndar ákveðinna iðnhópa eða hópa innan verkalýðsstéttarinnar eru að vísu mjög eðlilegar frá sjónarmiði þessara hópa, en það þarf um leið að gæta ákaflega mikillar varkárni gagnvart þeim hóp, sem allar svona takmarkanir að lokum koma til með að lenda á, gagnvart þeim mönnum, sem eru að byrja lífið og hafa á milli þess að velja, í hvaða iðngreinar eða atvinnugreinar þeir eigi að fara, og finna þær þá stundum lokaðar fyrir sér. Við verðum að gera okkur ljóst, að jafnóðum sem við takmörkum fjölda atvinnumanna í ákveðinni grein, þá erum við um leið að ýta öðrum fjölda í ríkari mæli að þeim greinum, þar sem engin takmörkun er enn þá, að því að vera ófaglærðir menn, hafnarverkamenn, byggingarverkamenn eða annað slíkt. Og það er alveg nauðsynlegt fyrir okkur í þessum samböndum að reyna að taka tillit til hvors tveggja í senn, eðlilegrar kröfu, í þessu tilfelli bifreiðarstjóranna, um nokkurt atvinnuöryggi fyrir sig, og hins vegar tillit til þess fjölda og þeirra einstaklinga, sem yrðu útilokaðir frá því að fara inn í þessa grein. Þess vegna verðum við að gæta ákaflega mikillar varkárni í ákvörðunum um þessa hluti. Ég dreg ekki í efa neina af þeim röksemdum, sem stjórn Bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils færir hér fram í því bréfi, sem hér fylgir með. Það er alveg rétt, að það hefur verið mikið aðstreymi að þessari grein. Það hefur verið mjög erfitt fyrir þá, sem í henni eru, að hafa af því lífsframfæri. Þeir hafa orðið að leggja í mikinn kostnað, og venjulega eru frekar slæm lánskjör á þeim tækjum, sem þeir nota, og ég veit, að þeir hafa orðið margir hverjir að vinna tvöfaldan vinnutíma til þess að reyna að skapa sér sæmileg lífskjör í þessari grein.

Ég álít þess vegna, að frv. eins og þetta þurfi mjög ýtarlegrar athygli, og við verðum að reyna á sem beztan hátt að afgreiða þetta mál með því að taka eðlilegt tillit til þeirra óska og hins vegar vernda rétt hinna, sem þetta óbeint mundi bitna á.

Nú er eitt atriði í sambandi við þetta frv., eins og það liggur fyrir, sem ég vildi vekja athygli hv. þm. á. Það er með þessari breytingu á 1. gr. laganna, 2. mgr. Er ekki prentvilla í þessu?

Er meiningin að fella burt alveg þetta með bæjarstjórnina? Ég skal lesa upp, hvernig núverandi lög eru. Þau byrja þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Bæjarstjórn er heimilt, að fengnum tillögum hlutaðeigandi stéttarfélaga bifreiðarstjóra, að ákveða, að allar leigubifreiðar í kaupstaðnum, hvort heldur eru fólks-, vöru- eða sendiferðabifreiðar, skuli hafa afgreiðslu á bifreiðastöð, sem fengið hefur viðurkenningu bæjarstjórnarinnar.“

Þetta er sem sagt fyrri mgr. eins og hún er núna. Síðari mgr. er svona:

„Bæjarstjórn er enn fremur, að fengnum tillögum hlutaðeigandi stéttarfélags og samþykki samgmrn., heimilt að takmarka fjölda vörubifreiða í Reykjavík. Samgmrn. setur með reglugerð nánari ákvæði um slíka takmörkun.“

Ég hafði skilið þetta þannig, að þetta ætti eingöngu við að breyta seinni partinum af þessari 2. mgr. Er það ekki, forseti? (Gripið fram í.) Það er meiningin að þetta breytist hvort tveggja, sem sé að svipta bæjarstjórnina alveg því valdi, sem hún hefur núna til að takmarka fjölda vörubifreiða.

Þá þýðir þetta m.ö.o., að samgmrh. fær einn þá heimild að ákveða, hve margar leigubifreiðar skuli vera í Reykjavík, hvort heldur er til fólkseða vöruflutninga. Nú hefur það verið svo eftir þeim lögum, sem Alþingi samþykkti seinast, að bæjarstjórn Rvíkur hefði þennan rétt, og eftir þessu að dæma á að taka hann af bæjarstjórninni. Nú eru það ýmis verkalýðsfélög, sem hafa ákvarðanir á einn eða annan hátt um það að takmarka, hve margir skuli vera í viðkomandi iðngrein. Svo að segja öll fagfélögin hafa mestmegnis með samningum við atvinnurekendur fengið fram ákvæði, sem takmarka, hve margir fá inngöngu í viðkomandi iðngrein, með því að takmarka, hve margir eru teknir til kennslu, og styðjast þar við iðnlögin. En í þessu sambandi er það sem sé á vissan hátt á valdi sjálfra verkalýðsfélaganna, sjálfra starfsmannafélaganna með samkomulagi í þessu tilfelli við atvinnurekendurna, meistarana, að ákveða, hve margir skuli vera þar. Með þessari grein, eins og hún hér liggur fyrir, er verkalýðsfélagið svipt öllu valdi til að geta ákveðið þetta. Það hefur tillögurétt, getur gert tillögur, en ekki meira, og það er samgmrn. eitt, og ekki einu sinni viðkomandi bæjarstjórn, sem hefur valdið í þessu efni. Ég álit, að þetta sé mjög mikið vald, sem lagt er í hendur ráðherrans með þessu móti. Og ég er dálitið hissa á, að eitt verkalýðsfélag skuli að öllu leyti vilja gefa slíkan rétt í hendur ríkisstj. Það væri ekki nema eðlilegt, að það kæmu a.m.k. samningar til frá hálfu viðkomandi verkalýðsfélags. Eðlilegast fyndist mér nú, að það væri við bæjarstjórn viðkomandi bæjar — eða þá annars við ríkisstj. Hér er sem sé lagt til að taka það vald af bæjarstjórninni, sem hún hefur haft, og leggja það nú í vald ráðherrans, og verkalýðsfélagið á ekki að hafa neitt vald um þetta, heldur ráðherrann einn. Nú vildi ég spyrja: Þegar ætti að fara að framkvæma þetta vald ráðherrans, hvernig mundi það vera gert? Þetta fer fram á að takmarka fjölda leigubifreiða, og Bifreiðarstjórafélagið Hreyfill og þess stjórn segir: Það eru nú þegar of margar leigubifreiðar í gangi, t.d. í Reykjavík. — Nú skulum við segja, að ráðherra fengi þetta vald, og hann fellst á þá skoðun, sem Bifreiðarstjórafélagið Hreyfill heldur fram, að það séu of margar bifreiðar í gangi, og hann ákveður að takmarka fjölda þeirra. Hvernig á þá að framkvæma þá takmörkun? Hvaða aðilar eru það, sem eiga að hætta að keyra? Nú er t.d. í Rvík ein stór stöð, þar sem er samvinnufélag, það eru enn fremur nokkrar einkastöðvar, nokkurt samstarf bifreiðarstjóra um rekstur bílanna á slíkum einkastöðvum, en að minnsta kosti á einni stöð er einn eigandi, sem á alla bílana. Við skulum segja t.d., að það væri góður samvinnumaður, sem væri samgmrh., hann áliti, að samvinnufélagsskapur væri mjög heppilegur og eðlilegast rekstrarform og einkarekstur væri ekki eins heppilegur undir slíkum kringumstæðum. Ef það ætti að fækka, mundi það þá t.d. þýða, að einkabifreiðastöð, við skulum segja t.d. Steindórs, væri lögð niður? Eða hver hefði valdið til þess að ákveða það? Ef einkabifreiðastöð væri lögð niður, þá misstu þeir menn, sem starfa þar sem bilstjórar, atvinnuna. — Hver á að missa atvinnuna í þessu tilfelli? Um þetta er ekkert ákvæði, og þegar Alþingi veitir ráðherra svona rétt, þá er ekki nema eðlilegt, að það sé tekið fram, hvernig ætlazt sé til að slíku valdi skuli beitt. Það er á ýmsan hátt eðlilegur hlutur um þá, sem sjálfir eiga sín tæki og reyna að reka þau, að það sé að þeim hlynnt, en ef til vill mundu hinir, sem eru leigubifreiðarstjórar hjá einum atvinnurekanda, segja, að þeir ættu ekki heldur að verða atvinnulausir.

Nú skulum við segja, að það yrði takmarkað við fjölda fólksflutningabíla, sem nú væru í gangi. En eftir nokkurn tíma er máske Reykjavík orðin stærri og þörf orðin á því að bæta við bílum. Hvar á þá að bæta við bilunum? Á hvaða stöð og hverjum á að hleypa að? Á þá ráðherrann einn að ákveða það, hvaða aðilar skuli fá að bætast við í hópinn? Og það yrði kannske orðinn nokkuð langur listi, sem sækti þarna um. Ég býst við, að viðkomandi verkalýðsfélag t.d. mundi gjarnan vilja hafa úrslitaáhrif á það. Ég held þess vegna, að um þessa hluti þurfi að vera nánar ákveðið í lögum, það sé ekki rétt að gefa eingöngu með reglugerð ríkisstjórninni allt vald um framkvæmd svona hluta.

Ég vildi þess vegna óska, að hv. samgmn. eða fulltrúi hennar gæfi nokkru nánari skýringar á, hvernig flm. hafa hugsað sér þetta í framkvæmd, eða sá ráðherra, sem með þetta ætti að hafa að gera, gæfi deildinni nokkrar upplýsingar um, hvernig hann fyrir sitt leyti mundi hugsa sér að framkvæma svona. Ekki sízt þegar verið er að leggja í hendur samgmrh. vald, sem bæjarstjórn áður hefur haft, a.m.k. að miklu leyti, — áður þurfti bara samþykki samgmrn., — þá er eðlilegt, að þm. hafi nokkra vitneskju um, hvaða aðferðir eigi að nota við að koma þessu fram. Ég vildi þess vegna eindregið óska eftir, að einhver aðili úr hv. samgmn. gæfi okkur nokkru nánari skýringar á þessu, svo að við gætum gert okkur betur í hugarlund, hvernig þetta mál yrði í framkvæmd.