11.02.1955
Neðri deild: 44. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Það hefur nú þegar verið upplýst í þessum umræðum, hverjar forsendur eru fyrir flutningi frv. þessa, sem hv. samgmn. hefur hér flutt á þskj. 278, um að heimila ráðh. í samráði við viðkomandi stéttarfélag að takmarka fjölda leigubifreiða í Reykjavík. Og nú hafa komið fram óskir frá Hafnarfirði og Akureyri um, að þeir staðir verði einnig aðilar að þessu frv., þannig að lögin gildi á þessum stöðum einnig.

Ég held, að það sé hverjum manni ljóst, að eins og viðgengizt hefur undanfarið um viðkomuna í þessari stétt, eins og bréf Bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils ber með sér, að atvinnuvegur þessa fólks eða þeirra manna, sem hafa byggt lífsafkomu sína á þessum atvinnuveg, er að falla í rúst, þá sé ekki óeðlilegt, að fram komi óskir um, að takmarkaður sé fjöldi leigubifreiða. Hins vegar er það einnig rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. benti hér á áðan, að í slíkum takmörkunum verður að fara ákaflega varlega með tilliti til annarra stétta í landinu, og þá sér í lagi þeirra, sem enn þá hafa engar takmarkanir um fjölda í sínum starfsgreinum. En það er einnig rétt, sem hann benti hér á áðan, að það er engin tala nefnd í frv. eins og það liggur fyrir, og er sjálfsagt mjög miklum erfiðleikum bundið að koma henni við með tilliti til þess, að bærinn stækkar óðum. Þó að bifreiðarnar séu nægar í dag, þá kunna þær að vera of fáar eftir ákveðinn tíma. En ég er fylgjandi þessu frv. fyrst og fremst með það í huga, að í því séu ekki heimildir til þess að víkja þeim mönnum úr bifreiðarstjóraatvinnunni, sem í dag hafa lögleg stöðvarleyfi. Ég held, að það sé nauðsynlegt, að það komi fram í þessum umræðum þegar, og ég þykist vita, að frsm. n. muni svara þeim fsp., sem þegar hafa verið fram lagðar um þessi efni. En ég legg hiklaust þann skilning í frv. eins og það liggur fyrir, að það séu ekki möguleikar fyrir stjórn Bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils í samráði við ráðh. að víkja neinum þeim manni úr bifreiðarstjóraatvinnu í dag, sem hefur löglegt stöðvarleyfi. Og komi ekkert fram, sem mælir því í gegn, þá mun ég fylgja frv. með tilliti til þeirrar nauðsynjar, sem skýr rök eru færð fyrir í bréfi Bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils.