11.02.1955
Neðri deild: 44. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ef menn eru þeirrar skoðunar, að sanngjarnt sé að setja lög sem þessi, þá verð ég að taka undir með þm. Ak. og segja, að það hljóti að vera sanngjarnt, að aðrir kaupstaðir landsins fái sömu réttindi, ef hér er um réttindi að ræða. Og mér skilst á þeim mönnum hér í Reykjavík, sem sækja þetta fast, að hér sé um mikil réttindi að ræða fyrir þessa stétt.

En við verðum að gæta að því, að þetta mál hefur tvær hliðar eins og flest önnur. Það er sú hlið, sem snýr að þeim mönnum, sem vilja öðlast réttindin og svo að almenningi, sem verður að taka þeim afleiðingum, sem af réttindunum stafa.

Ég fyrir mitt leyti tel það mjög varhugavert að setja lög eins og þessi, að heimila einni stétt að loka sig inni og að það sé raunverulega á hennar valdi, hversu margir menn eru í stéttinni. Þegar búið er að loka einni stétt, þá gerist það, eins og alltaf er, að mönnum fækkar í stéttinni, og eftir því sem mönnum fækkar í stéttinni, eftir því er betri aðstaðan fyrir þá, sem eftir eru. Og þegar búið er að loka einni stétt, þá er erfiður eftirleikurinn fyrir þá, sem vilja komast inn í stéttina. Allur nýgræðingur í stéttinni á erfitt uppdráttar. Það er alveg eins og þegar innflutningshöftin voru sett á og í mörg ár þar á eftir. Þeir, sem höfðu áður verið í verzluninni, fengu réttindin, og nýgræðingurinn í stéttinni var svo að segja drepinn eða kyrktur í mörg ár, vegna þess að nýir menn gátu ekki fengið réttindi fyrir þeim, sem fyrir voru. Og það væri ekki heldur nema mannlegt, þegar búið er að loka einni stétt eins og þessari, að stéttarplássin færu að ganga kaupum og sölum á svörtum markaði fyrir hátt verð. Og þið skuluð reiða ykkur á það, ef þetta verður að lögum, að þá verður skammt þangað til stöðvarplássin í Reykjavík eru komin upp í hátt verð. Menn fara með slíkan kaupskap eins og þeim finnst hagfelldast fyrir sig, og það er ekki neitt við því að segja út af fyrir sig.

Það er sagt, að hér sé eingöngu um heimild að ræða. Það er alveg rétt. Þetta er heimild handa ráðherra. En þegar slík heimild er gefin að frumkvæði stéttarfélags, þá er mjög hætt við því, að viðkomandi ráðh. telji sér skylt að verða við kröfum félagsins og að láta lögin koma til framkvæmda. Þess vegna vil ég ekki gefa neinum ráðh. þessa heimild, og sérstaklega ekki undir þeim kringumstæðum, sem hér eru, að stéttarfélag skrifar n. í Alþ. og þessi n. tekur að sér að bera fram breytinguna, sem stéttarfélagið biður um.

Mér finnst, að það sé ekki nema eðlileg ályktun að segja, að þó að þetta sé ekki nema heimild, þá verði heimildin notuð. Það er ekki nokkur vafi á því. Ef þessi heimild fæst, þá eru það verðmæt réttindi fyrir þá menn, sem þarna verða innan veggja. Og hvað getur svo svona fordæmi leitt af sér? Er nokkuð meira, þó að t.d. úrsmiðir eða klæðskerar kæmu næst og óskuðu eftir því, að heimild væri gefin fyrir því, að takmarka mætti þátttakendurna í þessum iðngreinum? Eða við skulum segja, að veitingahús í höfuðstaðnum, allar sjoppurnar og öll veitingahúsin, stofnuðu með sér félag og kæmu svo til Alþ. og segðu, að þau óskuðu eftir því, að heimild væri gefin fyrir því að takmarka stofnun veitingastaða í bænum. Það dettur víst engum í hug að neita því, að veitingastaðir í Reykjavík eru of margir, og þó eru ekki allir veitingastaðirnir, sem spinna gull af starfsemi sinni. Þess vegna væri ekkert óeðlilegt, þó að eitthvað slíkt gerðist, og ég álít, að ef einhver slíkur hópur kæmi með sína málaleitun til Alþ., þá ætti hann rétt á að fá jafngóðar undirtektir og sá starfshópur, sem hér er um að ræða.