14.02.1955
Neðri deild: 47. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (1620)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Viðvíkjandi ákvæðunum um setningu reglugerðarinnar ber að skilja 2. till. mína þannig, að sú reglugerð, sem viðkomandi bifreiðarstjórafélag á að setja, er eingöngu um ráðstöfun atvinnuleyfanna. Eftir lögunum, eins og þau eru núna, setur ráðherrann reglugerð almennt um framkvæmd þessara takmarkana, en um þetta sérstaka, sem síðari tillagan hjá mér mælir fyrir um, um atvinnuleyfin og hvernig þeim skuli ráðstafa, er gert ráð fyrir því, að það sé bifreiðarstjórafélagið, sem setur reglugerðina, og samgmrh., sem siðan staðfestir hana. En í þeirri reglugerð á það að felast, að komið sé í veg fyrir, að atvinnuleyfin geti orðið verzlunarvara.

Ég skal viðurkenna, að það er rétt hjá hv. frsm. samgmn., að þetta atriði hefur samgmn. ekki enn þá haft tækifæri til þess að athuga, og út frá því sjónarmiði get ég fallizt á að láta fresta atkvgr. um þessa till. til 3. umr., til þess, að samgmn. fái tíma til þess á milli umræðnanna að athuga um sína afstöðu. Fyrri brtt. mín er hins vegar alveg í samræmi við þann skilning, sem samgmn. hafði lagt í þetta. Ég vil leyfa mér um leið að vona, að samgmn. geti, ef hún athugar þetta milli umræðnanna, fallizt á þær skoðanir, sem þarna koma fram, því að þær eru áreiðanlega ákaflega þýðingarmikill þáttur í því að gera svona frv. framkvæmanlegt, ef á annað borð á að samþykkja það. Það verður að fara það varlega í þessum hlutum.

Viðvíkjandi þeim till., sem þegar hafa komið fram um aðra staði úti á landi, vil ég segja það sem mína skoðun, að það eigi að fara eins hægt í þessa hluti og mögulega getur gengið. Það á ekki að þenja svona ákvæði út eins og einhvern sjálfsagðan hlut. Það er það erfið braut, sem þarna er farið inn á, að það á ekki að gera þessar ráðstafanir nema þá jafnóðum, ef það er svo knýjandi nauðsyn, að meiri hl. Alþingis viðvíkjandi hverjum stað fellst á, að það sé nauðsynlegt.