18.02.1955
Neðri deild: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. 2. umr. um málið var lokið hér í hv. þingdeild fyrir nokkrum dögum, og var þá tekin aftur til 3. umr. brtt., sem hv. 2. þm. Reykv. (EOI) hafði flutt. Var hún tekin aftur til þess, að samgmn. gæfist tækifæri til þess að athuga hana og taka afstöðu til hennar.

Nefndin hefur nú haldið fund og athugað þessa brtt. og orðið sammála um að koma nokkuð til móts við fyrri lið brtt. Það, sem fyrir hv. þm. vakti með þeirri brtt., var að fá tvímælalaust tekið fram í sjálfum lögunum, sem um þetta mál verða sett, að ekki sé meiningin með þeim að þrengja kosti þeirra manna, sem nú þegar hafa gert sér bifreiðaakstur að aðalatvinnu. N. taldi rétt að koma til móts við þessa brtt., enda hafði því verið lýst yfir af hennar hálfu áður, að það væri alls ekki meiningin með þessari lagasetningu að reka einn eða neinn, sem þegar hefði gert sér bifreiðaakstur að atvinnu, út úr sinni stétt. Það varð því að samkomulagi innan n. að flytja svo hljóðandi brtt. við frv. eins og það var orðið eftir 2. umr.:

„Aftan við 1. gr. bætist nýr málsl., svo hljóðandi: Óheimilt er þó að skerða atvinnuréttindi þeirra manna, sem á lögmætan hátt stunda leigubifreiðaakstur, þegar lögin taka gildi.“

Það þarf ekki að skýra þessa brtt. Hún er aðeins árétting á þeirri yfirlýsingu, sem fram hafði komið af hálfu n. áður, og með henni er enn fremur tekið undir þá skoðun, sem fram kom hjá hv. 2. þm. Reykv., er flutti brtt. við 2. umr. á þskj. 352. Ég vil aðeins geta þess, að n. gat ekki fallizt á orðalag hans á fyrri hluta till. hans, m.a. vegna þess, að hann miðar eingöngu við Reykjavík. Hins vegar er búið að breyta frv. í það horf, að gert er ráð fyrir, að heimild þess nái einnig til fleiri kaupstaða, þ.e.a.s. Akureyrar og Hafnarfjarðar. Enn fremur liggur fyrir brtt. frá hv. þm. Siglf. og hv. 4. landsk. þm. um það, að heimildin nái einnig til Siglufjarðar. Taldi n. ekki ástæðu til þess að mæla gegn þeirri till., þar sem sú stefna hefði verið tekin í hv. þd. að verða við óskum, sem kæmu fram frá einstökum kaupstöðum í þessu efni um heimild til þess að takmarka fjölda leigubifreiða.

Um 2. tölul. brtt. hv. 2. þm. Reykv. vil ég aðeins segja það, að n. taldi, að það væri fyrst og fremst reglugerðarákvæði, sem hann þar kemur inn á, þ.e.a.s., hvernig fara skuli um úthlutun atvinnuleyfa. Ég vil aðeins minnast á það í sambandi við ummæli, sem féllu hér við 2. umr. um sölu og brask með atvinnuleyfi, að það verður að telja alveg öruggt, að í reglugerð verði settar skorður við því, að slíkt brask geti hafizt. Þessi afgreiðsluleyfi verða ekki framseljanleg manna á milli. Þau verða bundin við nafn og þess vegna ekki möguleikar á því, að um þau skapist svartur markaður.

Ég tel óþarfa að fjölyrða um þetta. Nefndin taldi sem sagt, að 2. liður brtt. hv. 2. þm. Reykv. ætti heima í reglugerð, og enn fremur taldi hún eðlilegt, að það væri samgmrn., en ekki stéttarfélag bifreiðarstjóra, sem setti slíka reglugerð. Það er yfirleitt ekki tíðkað hér, að einstök samtök í þjóðfélaginu setji reglugerðir. Það er leitað álits einstakra aðila og samtaka og síðan settar reglugerðir af opinberum aðilum með hliðsjón af áliti og tillögum.

Ég tel ekki þörf á að fara fleiri orðum um málið að svo komnu máli, en vil fyrir hönd n. mæla með því, að það nái fram að ganga hér í hv. þd. með þeirri brtt., sem n. flytur nú við 3. umr., og þeirri brtt., sem flutt er af hv. þm. Siglf. og hv. 4. landsk. þm. Ég leyfi mér svo að óska þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir hinni skriflegu brtt.