18.02.1955
Neðri deild: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Samgmn. hefur haft til athugunar þær brtt., sem ég lagði hér fram við 2. umr. og tók aftur til 3. umr., og hv. frsm. hennar hefur nú skýrt afstöðu n. til þeirra tillagna. Hún leggur til hvað mína fyrri till. snertir, að þar sé breytt nokkuð um orðalag, og segir, að það sé líka nauðsynlegt með tilliti til þess, að mín till. var eingöngu miðuð við Reykjavík eins og yfirleitt þetta frv. eins og það kom fram. Ég álít, að það sé rétt að taka tillit til þess, að inn í þá brtt., sem ég var með, þurfi að bætast það að taka tillit til staða utan Reykjavíkur, en ég held, að það sé ekki rétt að breyta orðalaginu, sem ég hef viðvíkjandi Reykjavík.

Eins og mín brtt. er, þá segir þar, að að því er tekur til fólksbifreiða í Reykjavík skuli takmarka við tölu þeirra manna, er hafa atvinnuleyfi samkv. samningum Bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils við bifreiðastöðvarnar í Reykjavík. Þetta er alveg ákveðin takmörkun, þetta eru alveg ákveðnir menn samkvæmt samningum verkalýðsfélagsins við bifreiðastöðvarnar, þannig að um þetta getur ekki verið neinn efi. Ef þarna væri sett í staðinn, að það ætti ekki að skerða atvinnuréttindi manna, sem á lögmætan hátt stunda bifreiðaakstur, þá er það mjög óákveðinn hlutur. Ég álít þess vegna, að það sé rétt að halda hvað Rvík snertir þessari ákvörðun, að það sé takmarkað við tölu þeirra manna, sem hafa atvinnuleyfi samkvæmt samningum Bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils við bifreiðastöðvarnar í Rvík. Þegar Alþingi samþykkir það, þá veit það alveg, hvað það er að gera. Ef samgmrh. álitur nauðsynlegt, að það séu fleiri menn, sem þarna koma til greina, þá hefur hann valdið eftir lögunum til þess að bæta þarna við. En þá er líka alveg ákveðið, á hverju er byrjað, og getur ekki valdið neinum deilum um, hvað átt sé við með lögunum. Við höfum orðið varir við það stundum hér á Alþingi undanfarið, að lög hafa verið afgreidd þannig, að það hefur verið hægt að deila um það eftir á, við hvað þau ættu. Það hefur jafnvel orðið að fara fyrir hæstarétt með lög, sem hæstv. ríkisstj. þó hefur undirbúið og pískað hér í gegnum þingið, og það hefur orðið að gefa út bráðabirgðalög og það meira að segja norður á Sauðárkróki til þess að leiðrétta lög, sem samþ. hafa verið frá þinginu. Ég held þess vegna, að við eigum að ganga þannig frá þessum lögum, ef það á að samþykkja þau, að það sé skýrt og ótvírætt, hvað við sé átt. Hins vegar skal ég viðurkenna, að um staðina úti á landi gegnir nokkuð öðru máli, því að í fyrsta lagi er ég ekki nægilega vel kunnugur því, hvort þeir hafa slíka samninga sem Bifreiðarstjórafélagið Hreyfill hefur hér í Reykjavík við bifreiðastöðvarnar, og í öðru lagi kann að vera eðlilegt þar að láta gilda þá till., sem hv. samgmn. kemur með. Ég vil þess vegna leyfa mér að flytja þá brtt., að aftan við mína brtt. verði bætt svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Og hvað aðra kaupstaði snertir skal óheimilt að skerða með takmörkuninni atvinnuréttindi þeirra, er á lögmætan hátt stunda bifreiðaakstur, þegar lög þessi öðlast gildi.“ Þá mundi öll greinin hljóða þannig, sem ég legg til að bætt sé við: „Skal í upphafi takmarkað, að því er tekur til fólksbifreiða í Reykjavík, við tölu þeirra manna, er hafa atvinnuleyfi samkvæmt samningum Bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils við bifreiðastöðvarnar í Reykjavík, og hvað aðra kaupstaði snertir skal óheimilt að skerða með takmörkuninni atvinnuréttindi þeirra, er á lögmætan hátt stunda bifreiðaakstur, þegar lög þessi öðlast gildi.“

Þegar mín brtt. væri orðin svona, þá held ég, að hún sé orðin alveg ótvíræð og veiti um leið Bifreiðarstjórafélaginu Hreyfli í Reykjavík þann rétt, sem það á, en hins vegar gefa lögin sem heild samgmrh. heimild, þó að hann vilji nú þegar bæta við, ef hann álítur, að það sé ekki nægilega margt, sem nú stundar þennan akstur í Reykjavík.

Um 2. brtt. mína, viðvíkjandi atvinnuleyfunum, segir hv. frsm. samgmn., að það sé raunar reglugerðarákvæði. Ja, hvað sé reglugerðarákvæði nú á tímum, má deila endalaust um. Það er nú farinn að tíðkast sá háttur, að það eru lagðir á þyngstu skattar, sem þjóðin stynur undir, með reglugerð, svo að segja þvert ofan í stjórnarskrána, sem bannar að leggja á skatta og tolla öðruvísi en með lögum frá Alþingi. Og skattar og tollar eru meira að segja látnir renna til einstakra aðila í þjóðfélaginu, ekki til ríkisins sjálfs, lagðir á. og innheimtir með reglugerðarákvæði án nokkurrar endurskoðunar frá ríkisins hálfu. Ég á við bátagjaldeyrinn svonefnda. Hann er settur samkvæmt reglugerð, innheimtur samkvæmt reglugerð, 100 millj. og meira á ári, óendurskoðað, tekið af almenningi og úthlutað til einstakra manna. Það má þess vegna vissulega deila allmikið um, hvað séu reglugerðarákvæði. Ég er nú fyrir mitt leyti á þeirri skoðun, að meira að segja atriði eins og bátagjaldeyririnn sé ekki reglugerðarákvæði, heldur ætti að vera lagaákvæði, ef það á að samþykkja hann. Og ég er yfirleitt á þeirri skoðun, að Alþingi eigi að skoða það sem sína skyldu að ganga þannig frá lögum, að það sé skýrt og ótvírætt, hvað í þeim eigi að vera, og að ríkisstj. hafi alveg ákveðið að halda sér að, þegar hún gefur út reglugerðir. Það hefur komið fyrir, að það hafa verið dæmdar ólöglegar reglugerðir, vegna þess að ríkisstjórnin hefur farið of langt, álitið, að hún hefði vald til þess að gera meira samkvæmt lögunum, og sett reglugerð um ákvæði, sem alls ekki voru í lögunum. Ég álít þess vegna rétt af þinginu, ef það vill tryggja, að eitthvað ákveðið komi fram, að setja það inn í lög, fyrirskipa það í lögum. Annars er ráðherra ekki að neinu leyti bundinn við að gefa út slík fyrirmæli. Og ég efast um, að þeim ráðherrum, sem með þetta mál koma til með að fara, þyki nokkuð betra, að þetta sé það rúmt, að það sé hægt að fara að deila á þá, undireins eftir að svona lög eru samþykkt, fyrir misbeitingu á valdi, sem í lögunum felst.

Nú skulum við athuga, hvernig er með þessi atvinnuleyfi. Það hefur verið bent á það og það réttilega, að þau geta orðið þó nokkur verzlunarvara. Er það endilega sjálfsagt, ef það stendur ekki í lögunum, að það beri að koma í veg fyrir það, að atvinnuleyfin séu verzlunarvara? Sú stefna, sem hæstv. núverandi ríkisstj. fylgir, er sú að gera yfirleitt allt að verzlunarvöru. Hún fylgir yfirleitt þeirri stefnu, ekki aðeins að gera sem flest að verzlunarvöru, helzt heil kjördæmi líka, heldur að leyfa mönnum að græða sem allra mest í þeirra verzlun og afnema allar takmarkanir á því, hve mikið menn megi græða. Og svo framarlega sem einn ráðherra lítur þannig á, að það eigi að fylgja ríkisstjórnarstefnunni hvað snertir atvinnuleyfi á bifreiðastöðvunum líka, þá býst ég við, að hann mundi líta þannig á, að hann eigi ekki að vera að skerða það að neinu leyti, að menn fái að græða vel á þeim atvinnuleyfum, heldur að menn fái að selja þau með ótakmarkaðri álagningu, því að það er meginstefna ríkisstj. að hafa ótakmarkaða álagningu á hlutunum, vera ekki að skerða hana. Það voru afnumin öll þau lög, sem að einhverju leyti hindruðu slíka ótakmarkaða álagningu. Það er ekkert í þessu frv., eins og það er, sem gæfi ráðh. heimild til þess að fara að reyna að hindra það, að menn gætu verzlað með atvinnuleyfin. Það er ekkert, sem gæfi honum neinn rétt til þess að setja neina reglugerð um slíkt. Ég gæti trúað, að hann yrði þá að vitna í allt önnur ákvæði annarra laga, sem eru þó því miður mjög slöpp, um eftirlit með óréttmætum verzlunarháttum og öllu mögulegu slíku. Og ég vil benda á, að hvað atvinnuleyfin, sem með þessum lögum væri verið að veita, snertir, þá eru t.d. 50 atvinnuleyfi eða í kringum það hér í Reykjavík í höndum eins einasta manns, einnar einustu bifreiðastöðvar eins einasta eiganda, sem er verið að gera að eins konar einokunarhafa með þessu. Ég álít þess vegna alveg sjálfsagt, að það sé tryggt, það sé svo fyrir mælt í lögunum og það sé ekki látið vera komið undir neinum efasömum geðþótta ráðherra og efasömum heimildum hans, hvort það sé tilgangur Alþingis að koma í veg fyrir, að atvinnuleyfin verði notuð sem verzlunarvara.

Hv. frsm. samgmn. hafði það enn fremur að athuga við mína till., að viðkomandi bifreiðarstjórafélag setti og samgmrh. staðfesti reglugerðina, og áleit, að það væri sjaldgæft. Það er aðferð, sem er mjög algeng í okkar þjóðfélagi, að þau viðkomandi félög, sem þarna hafa um að fjalla, geri uppkast að reglugerð eins og þau óska eftir henni, það er síðan sent til rn., — í þessu tilfelli samgmrn., — og ef samgmrh. er á annarri skoðun, þá gerir hann till. til viðkomandi félags um að breyta reglugerðinni, því að þessi reglugerð öðlast ekki staðfestingu fyrr en viðkomandi ráðherra vill svo vera láta. M.ö.o.: Það verður að vera samkomulag á milli viðkomandi verkalýðsfélags og ráðherrans um reglugerðina, og það er allur munurinn, sem felst um þetta einstaka ákvæði í minni till. og í þeirri till., sem nú gildir um þetta mál. Eins og lögin eru nú, má samgmrh. setja almenna reglugerð um ýmsa hluti, að fengnum till. hlutaðeigandi stéttarfélaga, sem sé stéttarfélögin senda inn tillögurnar, og honum ber aðeins að líta á þær, athuga þær, og það er alveg á hans valdi, að hve miklu leyti hann tekur tillit til þeirra. Hins vegar mundi með minni till. þurfa að vera samkomulag á millí bifreiðarstjórafélagsins og ráðherrans. Með þessu móti mundi viðkomandi verkalýðsfélagi vera tryggður nokkur réttur. Þó er því ekki tryggður neinn einkaréttur með þessu móti, því að ráðherrann þarf ekki að samþykkja neina reglugerð nema þá, sem honum líkar við, þannig að meðan ekki næst samkomulag, stendur viðkomandi verkalýðsfélag frammi fyrir því, að það fær ekki þessa reglugerð fyrr en það er búið að komast að samkomulagi við ráðherra, en ráðherrann getur ekki heldur sett reglugerð, sem viðkomandi verkalýðsfélag væri alveg á móti, og það er það, sem ég vil girða fyrir. Ég álít, að ef reglugerð á að setja um svona mikilvæga hluti eins og þetta, þá eigi að vera samkomulag á milli þessara tveggja aðila. Ég álít, að með því væri réttur þessara samtaka mest tryggður, og ég álít, þegar á annað borð er farið út á þá hæpnu braut að gefa ráðherra eins mikið vald yfir verkalýðsfélagi og atvinnugrein og þarna er gert, þá verði að reyna að tryggja réttindi verkalýðsfélagsins í slíku sambandi sem allra mest. Jafnhliða er þetta svo stórvægilegt atriði fyrir almenning, að það geti ekki farið svo, að þessi atvinnuleyfi verði verzlunarvara, og fyrir það verður á engan hátt girt, ef mín till. ekki verður samþykkt. Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess við hv. þm., að þeir samþykki þessa till. mína.

Ég verð að segja það. að ég álít, að þetta mál hefði átt að fá betri undirbúning í n. og á þingi en það hefur nú þegar fengið. Ég álít, að það hefði gjarnan líka mátt fara inn á að tryggja að einhverju leyti vinnutíma þeirra bilstjóra, sem þarna eiga að vinna, jafnvel athuga líka um leið, hvort ekki ætti að tryggja þeim dálitið hagstæðari skilmála en nú er um afborganir og vexti af bílum, sem þeir borga. Það er allhart, að ástandið skuli vera þannig nú, að þeir menn, sem þessa atvinnu stunda og oft hafa orðið að sæta svartamarkaðskjörum undanfarið, skuli verða að þræla jafnvel upp í 16 tíma á sólarhring til þess að reyna á örskömmum tíma að borga niður þá bíla, sem þeir hafa keypt, vegna þess að það eru ómöguleg lánskjör á þeim. Og auðvitað kemur þetta niður í fyrsta lagi á bifreiðarstjórunum, en í öðru lagi á almenningi. Þegar verið er að setja reglugerð og lög um sérstaka atvinnugrein, eins og hér er verið að gera um bilstjórana, þá hefði gjarnan mátt taka tillit til þessara aðstæðna.

Það er líka öryggismál fyrir þá, sem bílana nota, að bifreiðarstjórunum sé ekki þvælt út með óhóflega löngum vinnutíma og þeir neyddir til þess af efnahagslegum kringumstæðum að vinna svo langan vinnutíma. Alls staðar þar, sem einhver ákvæði hafa verið sett um þessi mál, og það mun vera á flestum Norðurlöndum, hafa um leið verið teknar einmitt slíkar ákvarðanir, sem veita bifreiðarstjórunum hóflegan vinnutíma og tryggja þar með um leið notendur. Ég vil þó um leið taka fram, að það er í raun og veru alveg merkilegur hlutur og sýnir, hve dugandi menn yfirleitt okkar bílstjórar eru, að það skuli ekki hafa komið að sök, eins mikil og sú vinna er, sem á þá er lögð. Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess við hv. þdm., að þeir samþykki seinni brtt. mína og þá fyrri með þeim viðauka, sem ég hef mælt fyrir og mun nú leggja fram. Ég álít, að það sé ekki rétt af hv. samgmn. að pína þetta mál fram með því offorsi, að það sé ekki tekið tillit til allra skynsamlegra till. og nauðsynlegra, sem fram koma í þessu sambandi. Ég vil þess vegna, ef hæstv. samgmn. ekki getur fallizt á þá brtt., sem ég þarna geri, eindregið óska þess, að hv. þdm. verði við því að samþykkja hana.