22.02.1955
Neðri deild: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Einar Olgeirsson: Þetta frv. hefur verið til umræðu nokkurn tíma hér í deildinni, og brtt., sem ég hef gert við það og miðuðu að því að tryggja bæði rétt bílstjóra og rétt almennings við afgreiðslu þessa máls, hafa báðar verið felldar, önnur með 13:10 atkv., hin með 13:12 atkv. Ég álít, að þessi afgreiðsla sýni, að það er ekki rétt fyrir d. að afgreiða þetta mál á því stigi, sem það núna stendur. Ef þetta mál á að verða affarasælt, þá held ég þess vegna, að d. eigi að taka þetta í nýrri mynd til athugunar, og greiði þess vegna atkv. á móti afgreiðslu frv. og segi nei.