31.03.1955
Efri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það var hér í fyrra, eins og menn muna og eins og frsm. þessa frv., sem hér liggur fyrir, tók fram, samþ. frv. um leigubifreiðar í kaupstöðum.

Því frv. hefur ekki nema að litlu leyti verið framfylgt, og afleiðingin af því er nú sú, að því er ég bezt fæ skilið, að þetta frv. er fram komið. Ég hef ekki heyrt önnur aðalrök fyrir þessu frv. en að þeir bílstjórar, sem nú rækju bíla hér í Reykjavík sem leigubílstjórar, væru mjög illa haldnir með sín laun fyrir svokölluðum „hörkurum“, en „harkarar“ er nafn á mönnum, sem keyra ekki frá neinni stöð, heldur gera sér að atvinnu að keyra lausa bíla seinni hluta dags og aðallega á kvöldin og ná þá í það, sem þeir geta af fólki. Þeir segja, að þessir „harkarar“ taki svo mikið frá sér af sinni vinnu, að þeir hafi ekki nóg fyrir sig að leggja af þeim akstri, sem þeir nú hafa, og þess vegna vilji þeir láta takmarka fjölda þeirra, sem mega keyra bíla í Reykjavík.

Í þessu sambandi vil ég fyrst benda á það, að 1. gr. frv. í fyrra gefur bænum, þ.e. meiri hluta bæjarstjórnarinnar, alveg ótvírætt rétt til þess að banna öllum að selja fólksflutninga í bílum, nema þeir séu skráðir á stöð og keyri frá stöð. Það hefur bara ekki verið notað. Hvort það hefur verið rætt í bæjarstjórninni og borið þar upp, það veit ég ekki, en hitt veit ég, að það er ekki notað, og þess vegna eru „harkararnir“ til og keyra enn. Svo á að bjarga málinu með því einu að fara að skerða atvinnurétt manna hér á landi og þannig ganga í berhögg við stjórnarskrána, en 69. gr. hennar hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Engin bönd má leggja á atvinnufrelsi manna, nema almenningsheill krefji, enda þarf lagaboð til.“

Þá er spurningin: Er hér um almenningsheill að ræða? Er það almenningsheill, að ég þurfi að bíða upp undir 10 mínútur, þegar ég bið um bíl einhvers staðar úti í bæ, af því að allir bílar séu uppteknir, en það á að gera þá bið enn þá lengri með því að takmarka mennina, sem mega keyra? Er það almenningsheill, sem hér er um að ræða, eða ekki? Ég hygg, að það muni enginn heimfæra þetta undir almenningsheill, og það er því beint brot á stjórnarskránni, brot á atvinnufrelsi manna, að fara að ákveða, hvað margir menn megi vera bílstjórar í stærstu bæjunum hér á landi.

Nú skal ég viðurkenna það og kannske manna fyrstur hér í d., að ég tel, að atvinnuskipting þjóðarinnar sé ákaflega óheppileg, og ég tel, að hæstv. Alþ. eigi sinn hlut að því og hann verulegan, hvernig hún hefur breytzt núna á síðari árum. 1930 voru 35.8% af þjóðinni, sem lifðu á landbúnaði; 1950 eru það 19.9%. 1930 voru það 16.7%, sem lifðu á sjávarútvegi; 1950 eru það 10.8%. En 1930 voru það 18.9%, sem lifðu á iðnaði og iðju, en nú er það 21%. Nú skal það strax játað, að tveir fyrstu flokkarnir þarna eru þeir eiginlegu framleiðsluflokkar í þjóðinni; það eru þeir flokkar, sem vinna þá „pródúktívu“ vinnu, sem þjóðfélagið lifir á, en partur af þriðja flokknum, iðnaðarmönnunum, sem hefur fjölgað úr 18.9 og upp í 21 %, gerir það líka, því að þeir vinna að því að gera verðmætari þá vinnu, sem hinir flokkarnir framleiða, eins og í hraðfrystihúsunum, tóvinnuvélunum o.s.frv. En það er ekki nema partur af þeim, sem gerir það; hinir vinna bein þjónustustörf, eins og rakararnir, skraddararnir, hárgreiðslukonurnar, skóararnir o.s.frv., o.s.frv. Það er ekki núna nema kringum þriðjungur af þjóðinni, sem vinnur að þeirri „pródúktívu“ vinnu, sem öll þjóðin á að lifa á. Hinir vinna að öðru. Ég get þess vegna fullkomlega skilið það, að mönnum detti í hug að reyna að breyta þessu og fá meira af þjóðinni yfir í „pródúktívu“ vinnuna heldur en núna er, en þá á ekki að byrja á bílstjórunum.

Mennirnir, sem lifðu á atvinnu við að sjá um samgöngumál þjóðarinnar, voru á millilandaskipunum, sem fluttu fólk og vörur, á bílunum o.s.frv., voru 1930 7%, en eru núna 9%. Þó að bílunum hafi fjölgað um allan þann fjölda, sem þeir hafa gert núna, og þó að millilandaskipunum hafi líka fjölgað og séu margfalt fleiri menn á þeim en voru 1930, þá hefur þeim bara fjölgað um 2%, sem af þessu lifa, og það er langt frá því, að við eigum að byrja á því að fækka þeim mönnum, ef við viljum fara að brjóta stjórnarskrána og ákveða með löggjöf, hvað hver einstakur þegn í þjóðfélaginu á að vinna. Miklu nær væri að fækka þeim mönnum, sem lifa á verzluninni.

Núna lifir einn maður, sem stundar verzlun, á því að selja 9 mönnum öðrum vörur. Hvort það er heillavænlegt fyrir þjóðarheildina, að verkaskiptingin sé þannig, það veit ég ekki. Ég held það ekki. Ég veit ekki, hvað miklar tekjur meðalmaðurinn, sem verzlar, þarf til að lifa af. En ef við segjum, að hann þurfi t.d. 36 þús., þá eru það 4 þús., sem hann þarf að taka frá hverjum manni, sem hann skiptir við, í meðalálagningu til þess að geta lifað, til þess að hafa svona tekjur. Ef við setjum hann upp í 45 þús., sem ég get vel trúað að meðalmaður í verzlun þurfi, þá deilir maður 9 í það eða 10, ef við reiknum sjálfan hann með, þá eru það bara 4500 kr., sem hann þarf að taka í umsetningu af hverjum manni, sem hann verzlar við. Það er hægt að rífast um það og tala um það, að þurfi að lækka útsöluverð vara og minnka umsetningu, en það verður að taka meinið niður við sjálfan botninn, og það verður að láta fleiri menn fara í þá „pródúktívu“ vinnu og færri vera við að afhenda vörurnar við búðarborðið. Ég gæti verið með í því að styðja að því, að verzlunarfólki fækki, og það á það að gera langt á undan bílstjórunum.

Alveg sama er að segja um mennina í þjónustunni. Þeir voru ekki nema 10% 1930, en þeir eru 11.8% núna. Embættismennirnir og mennirnir, sem lifa á þessari opinberu þjónustu í skrifstofum og annars staðar, eru orðnir 11.8%. Það er ekki nokkur þörf á því að mínum dómi, en ég get vel verið með því að setja einhverjar skorður, en ekki beinlínis að banna það, því að það getum við aldrei gert að mínum dómi.

Ég álit, að við getum aldrei bannað mönnum að stunda þá atvinnu, sem þeir vilji. Við setjum ýmsar skorður, við heimtum ákveðin próf af þeim, sem ætla að verða prestar, læknar, „praktísera“ í lögfræði o.s.frv., o.s.frv. Við setjum ýmsar svoleiðis skorður, bílstjórapróf, meira bílstjórapróf, mótorpróf og stýrimannapróf o.s.frv., til þess að menn fái að gera þetta og þetta, en þegar menn eru búnir að fá þau próf, hafa þeir þau réttindi, sem þeim fylgja, og að fara þá að setja skorður og segja: Nei takk, það mega ekki vera nema —svona margir menn, sem vinna að þessu, — það tel ég algera fjarstæðu. Við höfum legið iðnaðarstéttunum á hálsi fyrir það að vera búnar að hálfloka að sér með sínu iðnaðarnámi. Að minnsta kosti hef ég alltaf hér í þinginu og ýmsir fleiri, t.d. þm. Barð., hæstv. forseti í þessari deild, verið á móti því að gefa þeim möguleika til þess að gera það. Þeir hafa fengið það, og þeir hafa gert það. Þeir hafa hálflokað iðnaðarstéttunum, svo að á tímabili, á meðan ekki var eins mikið um byggingarleyfi og núna hefur verið síðustu árin, lá við, að væri beinlínis hörgull á iðnaðarmönnum. Ég álít það illa farið. En að Alþ. sjálft ekki bara færi að gefa mönnum leyfi til þess arna, heldur sjálft að ákveða, hvað margir menn megi stunda þessa og hina atvinnu í landinn, það nær ekki nokkurri átt. Nú er sagt t.d., að sé svo þröngt sums staðar við bryggjur í landinu, að það sé eiginlega ekki hægt að bæta við útgerðina. Ættum við þá ekki að ákveða, hvað margir bátar mættu róa á þessum stað? Það komast ekki fleiri við bryggjurnar, það er engin ástæða til þess að hafa fleiri. Það kann að vera, að það vanti menn hingað og þangað til að vinna við útgerðina. Eigum við þá ekki bara að segja: Ja, nú fá ekki fleiri menn að róa úr þessu plássi heldur, nema með þessum sjómönnum, sem til eru í því, fleiri fá ekki að gera út þar?

Þetta er allt eðlileg afleiðing, ef gengið er inn á þessa braut á annað borð, að fara að skipta sér af því á Alþingi, hvaða atvinnu einstakir menn í þjóðfélaginu. starfa að. Ég álít það hreinustu fjarstæðu. Og ég álít meira: Ég álít eiginlega, að það sé til hálfgerðrar skammar fyrir Alþ. að koma fram með svona frv., að sýna þann vilja sinn að vilja fara að takmarka, að hverju menn vinni. Það er hægt að reisa skorður, eins og við gerum með prófum og leyfum, menn þurfa að kaupa sér rétt til þess að verzla o.s.frv., kaupa verzlunarréttindi, menn þurfa að sýna próf til að geta fengið þessa og þessa atvinnu, en þegar þau gögn eru í lagi, þá á sá, er þau hefur, að fá leyfi til að stunda hana hvar sem hann vill og ettir þeim lögum, sem annars gilda í þjóðfélaginu. Að segja við manninn: Jú, góði, taktu nú meirapróf. Þú hefur leyfi til að taka meirapróf og kosta þig í þau, en þú færð bara ekki að keyra, góði, þegar þú ert búinn að taka það. Nei takk. Það eru nógir menn fyrir í atvinnunni, og þú færð ekki að keyra, þegar þú ert búinn að taka það. Láttu það bara vera. Við bönnum það, — það álít ég að nái ekki nokkurri einustu átt. Þess vegna er ég alveg á móti þessu frv., og gæti reyndar tínt til margt meira, sem gerir, að ég er á móti því, en ég álit, að þetta sé nóg. Og ég held nú satt að segja, að forseti eigi að gá vel að sér, áður en hann lætur bera þetta frv. upp hér í d. til úrskurðar, því að það er brot á stjórnarskránni. Ég ætla ekki að heimta af honum neinn úrskurð um það. Úrskurðurinn gengur út á það, hvort það sé almenningsheill, að það keyri svona margir menn í Reykjavík eða svona margir menn á Siglufirði bíla á leigu eða ekki. Er það almenningsheill? Er það almenningsheill, að það séu nákvæmlega 30 á bílastöðinni á Siglufirði, en ekki 32 eða einhverjar aðrar tölur? Hvar liggja þau takmörk? Ég held, að það sé ómögulegt undir neinum kringumstæðum að túlka það sem almenningsheill.