31.03.1955
Efri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mig langar til að benda á eitt atriði, áður en n. tekur málið til athugunar aftur. Það var það, sem hæstv. dómsmrh. var að tala um, þetta um, að það væru fullgildir félagar í viðkomandi bílstjórafélagi. Mér skildist frsm. n. útskýra þetta á þann hátt, að þetta væri sett inn í til þess að reyna að tryggja þeim, sem núna væru fullgildir bílstjórar í bílstjórafélaginu, t.d. manni hjá Steindóri, sem síðar eignaðist bíl og vildi fara að keyra hann sjálfur, að hann gæti komizt að, þegar einhver maður dæi, sem keyrði bíl frá stöð, og því losnaði eitthvert pláss, — eða til að tryggja manni, sem keyrir strætisvagn, að hann gæti komizt að, ef hann fengi sér bíl, og gæti komið í stað annars, er félli frá. En þá gáir hann ekki að því, að það geta komið menn, sem hafa keyrt miklu lengur norður á Akureyri eða vestur á Ísafirði eða norður á Siglufirði eða í Hafnarfirði og eru ekki í neinu bílstjórafélagi hér. Á þetta, fyrir utan það að vera atvinnuhefting, líka að verða nokkurs konar átthagabann, svo að bílstjórarnir geti ekki flutt sig á milli héraða til að keyra bíl, heldur verði alla tíð að vera á sama stað. Ef maður, sem keyrt hefur norður á Akureyri í tuttugu ár, ætlar svo af einhverjum ástæðum að flytja sig til Rvíkur, — það hefur kannske dáið maður á einhverri stöð og hann getur fengið plássið hans, — þá er hann ekki fullgildur félagi í viðkomandi félagi í Rvík og getur það ekki þess vegna. Þetta vildi ég benda honum á, þegar hann nú fer að athuga frv. aftur. — Enn fremur vil ég benda honum á þann misjafna skilning, sem er á milli mín og hv. 4. þm. Reykv. á því, hvað er leigubíll, þar sem hv. 4. þm. Reykv. skildi það þannig, að það væru ekki leigubílar aðrir bílar en þeir, sem menn ættu sjálfir og keyrðu og seldu mönnum sæti í. Ef það er réttur skilningur, þá er verið að hlaða undir þá, sem eiga marga bíla og ráða leigubílstjóra, sem keyra. — Loks skal ég svo upplýsa hann um það, að án þess að rifja neitt upp, þá man ég a.m.k. eftir fimm mönnum, sem eiga fleiri en einn bíl, og sjálfsagt eru þeir miklu fleiri.