14.04.1955
Efri deild: 68. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

(Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Til viðbótar brtt. samgmn. á þskj. 527, sem áður hefur verið lýst, við frv. það, sem hér liggur fyrir til framhalds 2. umr., flytur n.brtt. á þskj. 571 um það, að nú skuli Vestmannaeyjakaupstaður og Keflavík koma til viðbótar þeim kaupstöðum, sem heimildinni um takmörkun leigubifreiða er ætlað að ná til samkv. frv. eins og það var samþykkt frá hv. Nd. En því flytur samgmn. þessar brtt., að henni barst nú milli umræðna símskeyti frá Bifreiðarstjórafélaginu Ekill í Vestmannaeyjum og bréf frá Bifreiðarstjórafélaginu Fylki í Keflavík, þar sem stjórnir þessara félaga fara eindregið fram á, að n. flytji brtt. við frv. í þá átt, að ákvæði þess nái einnig til þessara kaupstaða. Nefndin sá ekki ástæðu til annars en verða við þessum tilmælum félaganna, og því er brtt. á þskj. 571 — að fyrir orðin „og á Siglufirði“ komi: á Siglufirði, í Keflavík og Vestmannaeyjum — flutt. Ég held ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þessa brtt. nefndarinnar. Hún skýrir sig að öðru leyti sjálf.

Ég vil þá fara nokkrum orðum um málið í heild vegna þeirra ummæla og fsp., sem fram komu við fyrri hluta þessarar umræðu og ég lofaði þá f.h. samgmn. að athuga nokkuð. Nefndin hélt einn fund um málið og varð sammála um að breyta ekki fyrri brtt. sinni, en flytja þá brtt., sem ég nú hef lýst, um Keflavík og Vestmannaeyjar.

Það kom fram við umr., að vafasamt gæti verið, hvað langt það næði, sem talað er um í brtt. nefndarinnar á þskj. 527, að við ráðstöfun ökuleyfa skuli þeir sitja fyrir, sem áður hafa stundað akstur leigubifreiða, — hvort leigubifreið í þessu sambandi næði til 6–8 manna fólksbifreiða eingöngu. Í þessu sambandi vil ég skýra frá því, að það er álít nefndarinnar, að leigubifreið í þessu sambandi, sem hér er átt við, nái til venjulegra stöðvarbíla, strætisvagna og annarra fólksflutningabíla á sérleyfis- og langleiðum, svo að þeir, sem aka þessum bílum, missa ekki nein réttindi við það, þó að frv. sé samþ.

Hv. 4. þm. Reykv. þótti ekki nægilega skýrt kveðið á um það í brtt. nefndarinnar, að öryrkjar skyldu sitja fyrir um úthlutun ökuleyfa, en um þetta segir í brtt., að úthluta skuli eftir starfsaldri, nema sérstakar ástæður mæli því í gegn. Ég vil taka fram, að þegar nefndin vék þarna frá skilyrðislausri starfsaldursreglu, þá hafði hún í huga, að menn, sem hefðu skerta starfshæfni til annarra starfa en bifreiðaaksturs, ættu að öðru jöfnu að sitja fyrir um stöðvarréttindi. Ef til vill hefði mátt orða þetta eitthvað á annan veg í till., en n. áleit nú ekki ástæðu til að breyta þessu. En ég vil að þessu gefna tilefni lýsa því, hvað fyrir nefndinni vakti með þessu ákvæði.

Þá var nokkuð minnzt á, hvernig nefndin hefði hugsað sér að koma í veg fyrir, að stöðvarleyfin gengju kaupum og sölum, en um það eru ákvæði í frv. Stöðvarleyfin eru nú seld háu verði. Í þessu sambandi vil ég skýra frá því, að n. hefur nokkuð athugað, hvernig þessu er nú háttað eins og stendur. Þeir bifreiðarstjórar, sem öðlazt hafa rétt til stöðvarpláss, en láta það af hendi einhverra orsaka vegna, virðast ráða því sjálfir, hver við tekur og við hvaða verði, en stöðvarplássin eru eftirsótt og því margra peninga virði, 15–20 þús. kr., eftir því sem upplýst hefur verið hér við þessa umr.

Eru nokkuð skiptar skoðanir um, hversu heppilegt þetta ástand sé, og viðurkennt af mörgum, að það þurfi lagfæringar við. En ef athugað er, á hvern hátt þetta gæti lagazt, mætti hugsa sér, að eftir að frv. þetta væri orðið að lögum, yrði sett ákvæði í væntanlega reglugerð, þar sem tekið væri fram t.d., að leyfishafa .væri óheimilt að láta af hendi afgreiðsluleyfi sitt nema til viðkomandi stéttarfélags eða bifreiðastöðvar. Væri það þá t.d. framkvæmt á þann hátt, að þegar leyfishafi hætti að hafa bifreið í leyfi sínu og segði því upp, þá gæfi hann yfirlýsingu þar að lútandi, sem maður gæti hugsað sér að skráð yrði á leyfið, og það siðan afhent viðkomandi bifreiðastöð, sem strax afhenti það stéttarfélaginu, sem síðan úthlutaði því eftir reglugerðarákvæðum þar að lútandi. Þetta er aðeins bending um, á hvern hátt mætti koma þessu máli fyrir, eftir að þetta frv. væri orðið að lögum.

Þá vil ég enn leggja áherzlu á það, sem felst í síðari málslið 1. gr. frv., þar sem segir: „Óheimilt er þó að skerða atvinnuréttindi þeirra manna, sem á lögmætan hátt stunda leigubifreiðaakstur, þegar lögin taka gildi.“ Á þetta að sjálfsögðu við alla, sem þennan atvinnurekstur stunda nú, bæði þá, sem aka eigin bíl, og þá, sem eiga fleiri bíla og hafa bílstjóra upp á kaup. Er það fyrst og fremst bifreiðastöð Steindórs, sem þannig er ástatt um, þó að aðeins sé dæmi um fleiri, en í smáum stíl. Atvinnuréttindi þessara aðila skal eigi skerða eftir þessu frv.

Þá skal ég að lokum koma að því, sem fram kom hjá hv. þm. Barð., þar sem hann skýrði frá því, að stjórn Bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils hefði ekki öll staðið að því að fá frv. þetta flutt, þó að sagt sé í grg. fyrir frv. á þskj. 278, að það sé flutt samkvæmt ósk stjórnar Bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils, og bréf, sem prentað er sem fskj. með frv., sé undirritað f.h. stjórnar félagsins.

Eins og ég drap á við fyrri hluta þessarar umræðu og ég hef aflað mér gleggri upplýsinga um síðan, starfaði Bifreiðarstjórafélagið Hreyfill í þremur deildum, sjálfseignarmannadeild, launþegadeild og strætisvagnstjóradeild. Þessar þrjár deildir höfðu hver sína stjórn, sem fóru með sérmál deildarinnar. Í V. kafla félagslaganna, sem er um verkefni deilda, segir: „Sjálfseignardeild skal fara með og taka ákvarðanir um þau mál, er varða hagsmuni sjálfseignarbifreiðarstjóra sérstaklega.“ Það var stjórn þessarar deildar félagsins, sem bað um, að frv. yrði flutt, og er ekki annað að sjá en að hún hafi verið í sínum fulla rétti með að biðja um, að frv. yrði flutt. En þótt svo væri, að hinar tvær deildir félagsins hefðu átt rétt á að vera með í ráðum um þetta mál, þá er það þó að athuga hvað snertir strætisvagnstjóradeildina, að þegar hér var komið sögu, voru strætisvagnstjórar orðnir fastir starfsmenn Reykjavíkurbæjar og þá þegar sýnt, að þeir mundu ekki halda áfram að vera í stéttarfélagi bifreiðarstjóra, enda nú svo komið, að þeir eru ekki lengur í því. Samkvæmt nýjum lögum félagsins, sem samþykkt voru á félagsfundi 24. marz s.l. og staðfest af Alþýðusambandi Íslands 30. s.m., starfar það nú í tveim deildum, sjálfseignarmannadeild og launþegadeild, en strætisvagnstjóradeildin er víkin úr félaginu. Virðist því vera, að fram komin skrifleg mótmæli þeirra sem bifreiðarstjóra í strætisvagnstjóradeild Bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils séu ekki á réttum grunni reist. Mótmælaskjal þeirra, sem hér liggur fyrir og rætt var um við fyrri meðferð þessa máls, er ódagsett, undirritað af 69 bifreiðarstjórum, afhent mér sem formanni samgmn. af þeim sjálfum 28. f.m., en 24. s.m., eða fjórum dögum áður, víkja þeir úr félaginu. Þó hefst skjalið á þessum orðum: „Við undirritaðir bifreiðarstjórar í strætisvagnstjóradeild Hreyfils mótmælum“ o.s.frv. Af þessu, sem ég hef nú sagt um þetta, er ljóst, að þessir menn geta ekki mótmælt frv. sem félagar í stéttarfélaginu, en geta það vitanlega sem almennir borgarar eða sem bifreiðarstjórar utan félagsins. Umkvörtun þeirra um það, að stjórn sjálfseignardeildarinnar leitaði ekki til þeirra um þetta mál, virðist því vera nokkuð út í bláinn.

Það eru, sem skiljanlegt getur verið, nokkuð skiptar skoðanir um þetta mál. Sumir hv. þm. benda á, að verið sé að skerða atvinnurétt manna í þeirri stétt, sem hér á hlut að máli, loka þessari atvinnugrein o.s.frv.; með þessu sé öðrum stéttum gefið fordæmi um að fara eins að. Ég vil í þessu sambandi benda á, að það, sem hér um ræðir, er ekki neitt nýtt. Eins og bent hefur verið á áður, var félagi vörubifreiðarstjóra í Reykjavík veitt takmörkunarheimild með lögum 1953 og sett um það reglugerð sama ár, sem nú er farið eftir, svo að það er ekki að öllu leyti rétt, sem kom fram hjá hv. 1. þm. N–M. í síðustu umræðu, að þessum lögum hefði ekkert verið framfylgt. Þessi reglugerð hefur verið gerð, og eftir henni er nú farið.

Þá má benda á, að langferðaleiðir, hinar svonefndu sérleyfisleiðir, eru allar bundnar samkv. lögum um skipulag fólksflutninga með bifreiðum. Í stjórn þessara sérleyfisleiða eða þeirri nefnd, sem fer með þessi mál samkvæmt lögunum, á hv. 1. þm. N–M. sæti. Ég verð nú að segja það, að þessar ferðir eru allar skipulagðar, sem kunnugt er, á þann hátt, að einum eða fleiri aðilum er veitt leyfi fyrir vissum leiðum, og þar fá ekki aðrir að koma til. Á þeim leiðum, sem ég þekki til, virðist þetta ganga vel. Þeir einstaklingar og félög, sem leyfin hafa, virðast kappkosta að hafa góð ökutæki, góða bílstjóra og leggja á það áherzlu að inna þessa þjónustu vel af hendi, þrátt fyrir það að þeir hafa einkarétt á sínum leiðum, og enginn talar um atvinnuskerðingu, þó að öðrum en sérleyfishöfum sé bannað að flytja fólk á þessum leiðum. Ég á t.d. hluta af bíl, sem við rekum eða okkar verzlun. Hann gengur daglega milli Reykjavíkur og Selfoss. Hann er þannig, að hann getur flutt tvo farþega, en við höfum ekki neitt leyfi til þess að flytja farþega með honum og taka gjald fyrir, vegna þess að hann gengur á sérleyfisleið bifreiðastöðvar Steindórs og Kaupfélags Árnesinga. Ég bendi á þetta í því sambandi, að það er ekki neitt nýtt, sem fram kemur í þessu frv., og mér finnst ákvæði þess hliðstæð sérleyfislögunum, þar sem í báðum tilfellum er um skipulagningu og atvinnutakmarkanir að ræða.

Ég vil svo að síðustu enn minna á rökin fyrir máli þessu, sem er að finna í bréfi stjórnar bifreiðarstjórafélagsins, sem prentað er sem fskj. með frv., og minna á, að hugmyndin með frv. þessu er sú að skerða ekki atvinnurétt þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli, heldur að gera þessa atvinnu tryggari fyrir þá menn, sem hana stunda nú og framvegis og að gera þjónustu þeirra betri við almenning en hún annars mundi vera.