19.04.1955
Efri deild: 71. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þegar ég ræddi till. mína á þskj. 582 í gær, lýsti ég því yfir, að ég mundi taka till. aftur, ef hæstv. ráðh. vildi lýsa því yfir hér í þessari hv. deild, að reglugerð yrði samin með tilliti til þess að ná því sama og farið er fram á í till. og réttur þegnanna tryggður þannig gagnvart leyfishöfum.

Nú hefur hæstv. ráðh. rætt hér þetta mál nokkuð, en þó svo óljóst, að ég get að sjálfsögðu ekki fellt mig víð þá yfirlýsingu, sem hann gaf hér, nema hann vilji beinlínis taka það fram, að slíkt ákvæði verði sett inn í reglugerðina. Hann gat um, að það mætti setja það inn í reglugerðina, en ekki, að það yrði sett inn í hana. Svo framarlega sem slík yfirlýsing kemur ekki beint fram frá ráðh., að slíkt ákvæði sem hér um ræðir verði sett inn í reglugerðina, þegar hún verður samin, eftir að lögin eru samþ., mun ég ekki treysta mér til að taka þessa till. aftur, heldur óska eftir, að málinu verði frestað enn, og reyna að ná samkomulagi um það við hv. nefnd, að till. verði þá breytt í þá átt, að það skuli sett í reglugerð ákvæði um þetta atriði. Mér þykir rétt að láta það koma fram hér í umræðunum.