19.04.1955
Efri deild: 71. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Hermann Jónasson:

Ég skal ekki blanda mér í þá deilu, hvernig lög hafa verið framkvæmd. En ég vildi segja aðeins örfá orð um þetta mál, sem er talsvert mikið deilumál hér í d. og á Alþ. yfirleitt og víðar.

Það eru nú færð fram þau rök, að það sé óeðlilegt að loka fyrir það, að menn geti stundað atvinnu eftir geðþótta, í þessu tilfelli, að hver og einn geti keypt sér bifreið og stundað bifreiðaakstur, leigt út bifreið hér í bæ. Ég viðurkenni það, að þetta sjónarmið hefur mjög mikið til síns máls. Og það er ekkert óeðlilegt, að það komi fram, því að slíkar takmarkanir eins og þær, sem hér eru gerðar, þurfa að byggjast á nokkuð sérstökum rökum. En það er ákaflega varasamt að taka hliðstæður eins og með bátana í Vestmannaeyjahöfn og jafnvel kaupmennsku, þó að það væri kannske nær. Þessar takmarkanir eru gerðar, að mínu áliti og ég held að áliti flestra þeirra, sem hafa beitt sér fyrir þeim, af því að bifreiðarstjórarnir eru með mjög dýr tæki, sem þeir þurfa að afla sér, — það þurfa að vísu að gera fleiri, sem reka atvinnu, — og þetta er að mínu áliti að verulegu leyti af þjóðfélagslegum ástæðum. Þessi „dagstofa“, sem bifreiðarstjóri ræður yfir, „dagstofa“ á hjólum, veldur því, að þessir menn, sem stunda þessa atvinnu, verða of margir og geta ekki haft eðlilegt framfæri af bifreiðaakstrinum einum, þá sýnir reynslan annars staðar, að það hefur sótt í það, að þeir fara að drýgja atvinnu sína með öðru, sem þeir hafa ákaflega góða aðstöðu til og er þjóðfélagslega mjög hættulegt. Vegna þess að reynslan sýnir, að þessir menn hafa aðstöðu til þess að stunda þá atvinnu, er það, að þessar takmarkanir hafa verið settar hér, að það þykir eðlilegt, að þessir menn hafi hæfilega atvinnu af því að stunda það að flytja þá, sem þurfa á flutningi að halda, en komist ekki í þessa aðstöðu, sem neyðir þá út í óheiðarlegan atvinnurekstur.

En auk þessara þjóðfélagslegu raka, ef svo mætti að orði komast, þá liggja til þess rök, sem við höfum áður gripið til satt að segja hér á Alþingi. Það er vitanlega alveg tvímælalaust, að það er ætlunin með þessum lögum að vernda stéttina, þannig að hún hafi nægilega atvinnu. Það er tilgangur þessara laga meðal annars. En það er ekki tilgangur þessara laga að fá þessari stétt einokun í hendur, þannig að hún geti misnotað aðstöðu sína gagnvart borgurunum. Verndin á ekki að ná lengra en það að sjá fyrir því, að þessi stétt hafi örugga atvinnu, en ekki komi of margir menn inn í stéttina og eyðileggi atvinnuna fyrir henni. Verndin á ekki að ná svo langt, að þessi stétt geti misbeitt því valdi, sem henni er fengið í hendur gagnvart borgurum landsins. Þar verðum við að setja takmörk. Þess vegna er það, að ég, álít, ekki sízt vegna þess, að það er reynsla komin um þetta annars staðar, að við getum varla gengið fram hjá því, að það sé settur eðlilegur varnagli, sem sé þó þannig úr garði gerður, að hann sé ekki heldur misnotaður gagnvart stéttinni, þannig að það geri ákvæði laganna að engu. Þetta meðalhóf verðum við að rata. Með þessu er þjóðfélaginu líka bezt fullnægt, vegna þess að þá eru ekki keypt fleiri tæki til þess að sjá fyrir þessari þjónustu en hæfir, og bifreiðarstjórunum og þegnum þjóðfélagsins er líka bezt fullnægt, enda vitað mál, að þessi þjónusta, bifreiðaakstur, verður því aðeins sæmilega af hendi leyst, að bifreiðarstjórarnir séu þannig settir, að þeir geti haldið bifreiðunum sæmilega við o.s.frv.

En þegar menn tala um það þrátt fyrir þessi rök, að það sé óeðlilegt að setja þessar takmarkanir, þá ættu menn að hugleiða það, að við höfum ekki alltaf hugsað á þennan veg. Hvers vegna erum við að setja takmarkanir um ákveðnar bifreiðar til Akureyrar? Hvers vegna erum við að fá mönnum einkaleyfi til Keflavíkur? Hvers vegna erum við að fá mönnum einkaleyfi víðs vegar um landið og segja við aðra borgara: Þú mátt ekki koma inn á þessar leiðir og ekki flytja neina á þessum leiðum, og ef þú gerir það, þá varðar það refsingu? — Við, sem höfum verið í þeim stöðum, þar sem á að sjá um framkvæmdir, höfum orðið varir við það, að ef nokkur fer inn á þessar leiðir, þá er það ævinlega kært. Hvers vegna erum við að fá þessum mönnum einkaleyfi? Hvers vegna afnemum við það ekki? Og ef það er rétt að fá mönnum einkaleyfi á þessum áætlunarferðum, hvers vegna er þá rangt að fá mönnum jafnframt takmarkað einkaleyfi, eins og ég hef lýst, til þess að flytja fólk í bæjunum? Hver er munurinn á þessu? Vitanlega er ekkert til, sem er algerar hliðstæður, en þetta nálgast það mest að vera algerar hliðstæður. Og þetta er af þeirri einföldu ástæðu, að við erum búnir að prófa hina leiðina. Við erum búnir að prófa það að hafa fjölda af bifreiðum á leiðinni til Akureyrar og leiðinni til Keflavíkur, Selfoss eða Eyrarbakka o.s.frv. Og hver er afleiðingin? Að þeir, sem lenda í samkeppninni, setja of margar bifreiðar inn á þessar áætlunarleiðir. Bifreiðarnar voru niðurníddar, jafnvel svo, að þær reyndust hættulegar í akstri, vegna þess að eigendurnir höfðu ekki efni á að halda þeim við. Síðan var það þannig, að eftir að mjög margar bifreiðar höfðu verið á sumum þessum leiðum, þá gáfust þær upp, og þá voru engir fólksflutningar á sumum þessum leiðum. Ég efast um, að þeir séu margir núna, sem tala um, að það sé rangt að fá mönnum takmarkað einkaleyfi í hendur, eins og hér er gert, sem ég viðurkenni vissulega að verður að gera með gát, — en ég efast um, að þessir sömu menn vildu horfast í augu við það að afnema einkaleyfin á áætlunarleiðunum. Það hefur a.m.k. ekki heyrzt ein einasta rödd um það hér á Alþingi úr munni eins einasta þingmanns.

Vitanlega getur manni alltaf yfirsézt og gerir það oft, en ég held, að það sé jafneðlilegt skref, sem við stígum hér viðvíkjandi þessu frv., sem hér liggur fyrir, eins og um áætlunarbifreiðarnar, enda næstum alger hliðstæða, eins og ég sagði áðan. En við þurfum að gæta þess, að þessi lög verði þannig úr garði gerð, að þau fullnægi því sjónarmiði, sem bifreiðarstjórarnir eðlilega þyrftu að hafa, að þeir séu verndaðir á þann hátt, að þeir hafi sæmilega atvinnu við sinn atvinnurekstur, en jafnframt sé séð fyrir því, að ekki dragi úr þeirri þjónustu, sem þegnar þjóðfélagsins eiga heimtingu á að fá. Og þetta meðalhóf er vel hægt að rata, ef skynsamleg ákvæði eru sett um það í reglugerð. Það finnst mér eðlilegra en að setja það í lög, enda þarf verulega athugun, hvernig á að koma þeim ákvæðum fyrir. Ef till hv. þm. Barð. kemur hér til atkv., þá mun ég ekki greiða atkvæði gegn henni með öðrum formála en þeim, að ég geri það í því trausti, að hæstv. samgmrh. setji slíka reglugerð, enda óskaði ég eftir, að sú yfirlýsing lægi fyrir, að hann mundi gera það. — Frekara sé ég ekki ástæðu til að segja um þetta mál.