19.04.1955
Efri deild: 71. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (1671)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er aðeins tvennt, sem ég vil taka fram. Það fyrra er það, að rétt er hjá hæstv. dómsmrh., að frumkvæðið á að vera hjá bæjarstjórninni til að afnema „harkarana“, og stjórnarráðið getur náttúrlega ekkert gert, fyrr en hún er búin að taka sínar ákvarðanir. Að því leyti til var ásökun mín á ráðherrann röng, því að það var bæjarstjórnin, sem átti að byrja. En það sýnir aftur á móti mönnunum, sem eru með þessu, að bæjarstjórnin vill hafa „harkarana“. Hvers vegna vill hún hafa „harkarana“? Lögin eru samþ. 16. febr. 1953, nú er komið fram í apríl, komnir 26 mánuðir, og bæjarstjórnin hefur engar ráðstafanir gert til að taka upp, að „harkararnir“ verði bannaðir, sjálfsagt að þeir haldi áfram keyrslunni. „Harkararnir“ hafa nóg að gera, þótt hinir bílarnir séu á ferðinni, og maður þarf stundum að bíða þrátt fyrir það eftir bíl, stundum af því að maður getur ekki hringt í „harkarana“, af því að ekki er vitað, hvar þeir eiga heima.

Mér skilst, að ef þetta á að halda áfram, þá verði áframhaldið það, að þessi lög verði samþykkt, — það megi enginn bíll keyra nema frá stöð eftir lögunum, bæjarstjórnin eigi að hlutast til um, að það sé tekið upp og haldið áfram með það, hins vegar fái „harkararnir“ að vera áfram. Eigi ég t.d. vörubíl heima hjá mér og taki hann í keyrslu fyrir þann, sem vill, þá er ekkert hægt að gera, bæjarstjórnin hefur þagað. Hver og einn getur verið áfram vörubílstjóri, keyrt um bæinn eins og honum sýnist, ef hann er ekki skrásettur á neinni stöð. Ráðherrann á bara að ákveða, hvað margir bílar mega vera skrásettir á stöð. Hann á ekki að ákveða tölu „harkaranna“, hann á ekki að ákveða tölu bílstjóra, sem hafa bílinn heima hjá sér, eru ekki á neinni stöð og keyra glatt um bæinn fyrir því. Lögin eru þess vegna alveg tilgangslaus, ef það á að ganga fram hjá því, að bæjarstjórnin sé eins og hún hefur verið og skipti sér ekki af því, að bílarnir séu ekki skrásettir á stöð.

Hv. þm. Str. var að tala um og líkja þessu frv. við áætlunarferðirnar um landið. Það er bara allt annað, og er búið að benda á það hér áður, en hann var þá ekki við umr. hér, svo að hann hefur hvorki heyrt það né það, sem frsm. n. hefur haldið fram í því sambandi, og endurtók þess vegna sumt af því og bætti nokkru við. En ég skal benda honum á í því sambandi, að það er ekki neitt nýtt, að íslenzka þjóðfélagið reyni að skipuleggja ferðalög. Póstferðirnar hafa alltaf verið skipulagðar, og póstarnir léðu mönnum alltaf hesta og létu þá verða sér samferða. Svo langt er síðan menn fundu ákveðna þörf á því hér á landi að hafa skipulegar fastar ferðir millí. staða á landinu. Menn vissu, hvenær póstarnir komu og fóru, og þeim urðu menn samferða. Ég hef sjálfur orðið samferða pósti úr Borgarfirðinum til Akureyrar oft í gamla daga. Þeir hurfu og hættu að lána mönnum hesta og lofa þeim að flytja þá með sér. Svo komu bílarnir, fyrst áætlunarlausir, fóru eftir því, sem um var beðið, en þjóðfélagið sá nauðsyn á því að skipuleggja þetta, nauðsyn á því, að þeir menn, sem ætluðu frá Akureyri suður til Reykjavíkur, vissu, hvenær þeir gætu fengið ferð, og þyrftu ekki hver um sig að semja, einn við Pétur og annar við Pál og þriðji við Jón, um að keyra sig frá Akureyri og suður í Reykjavík. Þá komu áætlunarferðirnar, og svoleiðis er það núna, að þjóðfélagið er búið að skipuleggja fastar ferðir, svo að við vitum klukkan hvað og hvaða dag farið er frá þessum stað á hinn staðinn. Þetta er alveg tilsvarandi því, sem er með járnbrautir og aðrar slíkar ferðir erlendis. Það stendur í raun og veru ekkert í sambandi við bílana út af fyrir sig, þeir eru aðeins farartæki, heldur stendur það í sambandi við nauðsyn þjóðfélagsins á því að skipuleggja fastar ferðir um landið, þannig að menn geti notið ferðanna á sem hagkvæmastan og ódýrastan hátt. Þetta á enga samstæðu við þetta bílafrv., sem hér er á ferðinni og gerir ekki annað en takmarka atvinnufrelsi manna og skapa okkur óþægindi, sem að því eigum að búa, hvort sem við erum í Reykjavík, Siglufirði, Vestmannaeyjum, Akureyri, hvar sem við erum í þessum kaupstöðum, sem l. eiga að ná til. Þeim er ekki ætlað að ná til annarra en kaupstaða. Maður úti á Seltjarnarnesinu má hafa bílastöð og keyra eins og hann vill hérna í Reykjavík. Hann má færa einhverja bílastöðina hérna út á Seltjarnarnesið, og þaðan getur hann svo rekið keyrsluna hérna um Reykjavíkurbæ eins og honum sýnist, og ekkert sagt við því eftir lögunum, — eða hann getur farið með hana suður í Kópavog, hinn nýja kaupstað, sem þar er að rísa upp, og rekið hana þaðan. Það er ekkert að segja við því heldur, þó að hann geri það. Það er þýðingarlaust, hvað þetta snertir. Það teppir ekki „harkarana“, meðan bæjarstjórn Reykjavíkur ekki vill eiga frumkvæðið að því að taka upp, að þeir verði að keyra frá stöð. Það teppir ekki einstaka menn, sem eiga vörubíla og keyra með þá og eru ekki á stöð. Það teppir ekki, að það komi stöðvar rétt í jaðrinum á Reykjavík og keyri eins og þeim sýnist um bæinn, hvort heldur er frá Seltjarnarnesi eða Kópavogi eða úr Mosfellssveitinni. Það eina, sem það gerir, er að hefta atvinnufrelsi manna og er annað sporið, sem stigið er á þeirri braut, og sjálfsagt ekki það síðasta því að ég mun strax á næsta þingi, ef ég lifi það, koma með frv. um að takmarka tölu kaupmannanna, þeirra sem lifa á verzlun. (Gripið fram í: Þá gera lögin ekkert til.) Það er ekkert þægilegt, t.d. fyrir Siglufjarðarmanninn, sem vill keyra, en kemst ekki á stöð, — ja, hann getur verið „harkari“, en hann getur hvorki verið uppi á Siglufjarðarskarði né norður á Almenningnum eða í Héðinsfirði til að ætla að reka atvinnuna frá Siglufirði, og því síður getur hann staðsett sig úti á hafinu. Hann hefur engan stað til að staðsetja sig á sama hátt og þeir, sem vilja keyra í Reykjavík, því að þeir hafa nóga aðstöðu til þess.