25.04.1955
Efri deild: 73. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

133. mál, jarðræktar og húsagerðarsamþykktir

Frsm. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Lögin um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum voru sett 1945, þau eru þess vegna 10 ára á þessu ári. Í þessum l. fólst sú merka nýjung að verja fé úr ríkissjóði til styrktar ræktunar- og búnaðarsamböndum til kaupa á stórvirkum vélum til jarðræktar. Það vaknaði þegar mikill áhugi í sveitum landsins til þess að notfæra sér þau hlunnindi, sem lögin buðu upp á. Stofnuð voru ræktunarsambönd í flestum héruðum landsins. Frá því að lögin öðluðust gildi og fram á þennan daga hafa verið stofnuð 66 ræktunarsambönd, sem hafa fengið staðfestingu, og af þeim hafa 65 hlotið styrk úr vélasjóði eða ríkissjóði til vélakaupa. Upphaflega var ákveðið að verja 3 millj. kr. úr ríkissjóði til greiðslu helmings kostnaðar þeirra véla og tækja, sem heimilað var að kaupa. Árið 1950 var ákveðið að hækka þessa upphæð upp í 6 millj. kr., en nú er þetta fé á þrotum eða því sem næst.

Fullyrða má, að með l. um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum hafi verið mörkuð tímamót í ræktunarmálum landsins. Þau hleyptu af stað mikilli og farsælli framfaraöld í ræktun sveitanna. Svo til í öllum héruðum má sjá merki þessa. En þessi þróun má ekki stöðvast. Verði hins vegar ræktunarsamböndin févana, svo að þau geti ekki sinnt hlutverki sínu, þá getur svo farið, að þróunin stöðvist eða úr henni dragi svo, að kyrrstaða myndist. Það væri illa farið.

Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, á að koma í veg fyrir þá hættu. Með frv. er lagt til, að varið verði úr ríkissjóði á næstu sex árum 6 millj. kr. samtals til að halda áfram að styrkja þessi vélakaup eins og verið hefur. Og einnig er lagt til í þessu frv., að þau héruð, sem hafa dregizt aftur úr, skuli sitja fyrir, og enn fremur þau, sem urðu fyrir því óhappi að kaupa vélar, sem reyndust lítt nothæfar fyrir íslenzka staðhætti. Landbn. leggur einróma til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt, og ég vænti þess, að hv. dm. taki því vel og samþykki það eins og það liggur fyrir.