04.04.1955
Neðri deild: 69. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

132. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv. var nokkru fyrir jólin flutt af hv. landbn. þessarar d. eftir tilmælum hæstv. landbrh. Síðan hefur það verið mjög rækilega rætt í landbn., og auk þess lágu fyrir n. umsögn og till. varðandi frv. frá búnaðarþingi. N. hefur að nokkru leyti haft samráð við menn úr landbn. Ed., og eru þær brtt., sem n. leggur fram á þskj. 528, samkomulagstill. Þær hníga að nokkru leyti í þá átt að draga úr þeim gjöldum, sem þetta frv. hefur í för með sér fyrir ríkissjóð, og að öðru leyti til frekari skýringar á þeim atriðum, sem um er að ræða.

Ég skal nú með örfáum orðum fara yfir þessar brtt. n. og skýra það, sem ástæða þykir til að víkja að.

1. brtt. er aðeins orðabreyting um það, að í staðinn fyrir „héraðssamböndum“ komi: búnaðarsamböndum, og er það auðvitað sjálfsögð breyting.

2. brtt. er umorðun á 3. gr. frv. og gerir ráð fyrir umorðun á 11. gr. l., þar sem styrkákvarðanirnar aðallega eru.

Fyrsta breyt. þar er sú, að í staðinn fyrir, að í frv. stendur „7/10 kostnaðar úr ríkissjóði“ við vélgrafna skurði, þá er till. n., að þetta verði fært niður í 65/100.

Önnur breytingin er sú, að fellt er niður úr ákvæðunum orðið „akur“, og er það gert með tilliti til þess, að það er talið ekki örgrannt, að það sé mögulegt að fá tvöfaldan styrk eða tvisvar styrk út á sama land, ef það er fyrst tekið út sem t.d. hafraslétta og svo sáð í það árið eftir grasfræi og það tekið út þannig. En sem sagt, n. þykir nægilegt að miða þetta við jöfnun og vinnslu á landi til túnræktar. Þarna gerir n. aðra breyt. í þessu sambandi, og það er að skipta landinu í tvennt, að það sé heldur lægra framlag á sanda en annað land. Till. búnaðarþings var að vísu um það, að þessu væri skipt í þrennt og það væri enn nokkru hærra út á mýrarjörð, en n. hefur ekki fallizt á það, m.a. með tilliti til þess, að oft er í sama flaginu bæði mýrarjörð og móajörð og erfitt að aðgreina það.

Þá er 3. liður, grjótnám úr ræktunarlandi. Þar er tvennt tekið fram til breytinga. Það er hækkun á þessum lið, eins og gert er ráð fyrir í frv., helmingshækkun frá því, sem nú er í l. Og annað er í þessari brtt., að það er undantekning frá því, að það sé aðeins það grjótnám, þar sem ekki er seljanlegt grjótið, því að það eru dæmi til þess á einstaka stað í kringum kaupstaði, að það er mögulegt að selja grjótið. En þessi hækkun á liðnum um grjótnám er miðuð við það einkum að gera þeim auðveldara, sem erfiðasta hafa aðstöðu og stytzt eru komnir með jarðrækt, og gildir þetta einkum um Vestfirði og Austfirði, þar sem örðugast er um jarðrækt.

Þá er tvennt, sem n. vill breyta frá frv. Annað er það, að hún leggur til að fella niður framlag til garðávaxtageymslna úr öðru efni en varanlegu efni, þ.e. öðru efni en steinsteypu. Enn fremur leggur hún til að fella niður framlag til búvélageymslna. Í stað þess tekur n. upp till. um framlag til súgþurrkunarkerfa í þurrheyshlöðum. Eins og menn sjá, er þar lagt til, að það sé miðað við gólfflöt á hlöðunni og 5 kr. á fermetra.

Þá er 6. liður í þessari sömu gr., sem er tryggingarákvæði fyrir því, að mönnum sé ekki liðið, eins og nokkuð hefur þótt bera á, að vanrækja algerlega að leggja fram til fyrningarsjóða í ræktunarsamböndum og félögum, og þetta ákvæði leggur n. til að sé til hindrunar því, að hægt sé að komast undan þessari skyldu, sem er mjög nauðsynlegt að sé hlýtt.

Þá er 3. aðalbrtt. n. Hún er sú, að í staðinn fyrir 20% hækkun fyrir utan verðuppbótarhækkun sé það fært niður í 15%. Þetta er með tilliti til þess ástands, sem nú er. — 2. liður í þeirri brtt. er um það, sem hefur verið tekið upp eftir till. búnaðarþings, að það sé lægra tillag til einstakra búnaðarfélaga af jarðræktarframlaginn, þegar um er að ræða vélgrafna skurði, heldur en aðrar jarðabætur, þannig að það sé ekki nema 3% af því, en 5% að öðru leyti, sem búnaðarfélögin fá til sameiginlegra félagsþarfa. — Þá er enn fremur 3. breyt. við þessa gr. sú, að það sé heimilað, ef áveitu- eða framræslufélög láta ræsa fram sitt land, að þá fái þau þau 3%, sem búnaðarfélögunum eru ætluð, til sinna sameiginlegu félagsþarfa.

4. brtt. n. er breyt. í þá átt, að í staðinn fyrir að í l. eru undir sama lið flóðgarðar, flóðgáttir og vatnsbrýr, leggur n. til að sundurliða þetta og hafa hærra ríkisframlag á flóðgáttir og vatnsbrýr en á flóðgarða, þannig að á flóðgarðana sé 1/3 kostnaður, en á hitt helmingur kostnaðar.

Þá er 5. brtt. n. um umorðun á bráðabirgðaákvæðum l., og er þar um að ræða tvö atriði. Í öðru lagi það, sem er tekið upp eftir till. búnaðarþings, að þegar ekki er kostur á búfræðikandidötum til þess að gegna héraðsráðunautsstörfum, sé heimilt til bráðabirgða og til eins árs í senn með samþykki Búnaðarfélags Íslands að ráða til þessara starfa, eins og oft hefur áður verið, búfræðing með venjulegri búfræðimenntun. Hitt ákvæðið er um það, eins og að nokkru leyti er í frv. og er mikið atriði, að greiða skuli hærra framlag á jarðabætur til þeirra jarða í landinu, sem hafa minna tún en 10 ha, og þetta er á sama veg og með grjótnámið til þess ætlað, að það sé létt undir með þeim aðilum, sem versta hafa aðstöðu til jarðræktar í landinu og stytzt eru komnir áleiðis, og gildir, eftir því sem við teljum eða komumst næst, einkanlega fyrir afskekktustu byggðir landsins, á Vestfjörðum og Austfjörðum. Það er þó ekki ætlazt til, að þessi hlunnindi nái lengra samkv. þessu frv. en til ársloka 1960.

Þá er síðasta brtt. um gildistöku þessara laga, og er að sjálfsögðu nauðsynlegt að breyta því ákvæði frá því, sem í frv. er, og leggur n. til, að þau taki ekki gildi fyrr en 1. jan. n.k., en að borguð séu þó út framlög samkv. þessum l. á þær jarðabætur, sem teknar verða út á þessu ári. því að samkv. venjulegum reglum á ekki að borga þau framlög fyrr en á næsta ári, og þykir n. eðlilegt, að þessu sé hagað á þennan veg.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða miklu meira um þetta, en vil endurtaka það, að þessar till. allar eru samkomulagstill., og við væntum þess, að þetta nauðsynlega mál geti fengið greiða afgreiðslu hér í gegnum hv. Alþingi.