04.04.1955
Neðri deild: 69. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

132. mál, jarðræktarlög

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér brtt. í tveim liðum við frv. það til l., sem hér liggur fyrir til umr. um breyt. á jarðræktarl. Brtt. þessa, sem ég flutti við frv. eins og það var flutt hér af hv. landbn., flutti ég sem sérstakt frv. á síðasta þingi, og var því þá vísað til hv. landbn., en hún skilaði aldrei áliti um málið. Nú hefur hv. landbn. tekið það frv., sem hún hér hafði flutt, til mjög ýtarlegrar rannsóknar og flutt við það margar brtt. Þar á meðal hefur þessi hv. n. tekið inn í brtt. sínar við sitt fyrra frv. fyrri liðinn úr mínum brtt. með ofur litlum orðalagsbreytingum, og einnig hefur hún gert þá breytingu að skipta honum í tvennt og ætla ofur lítið lægra framlag þegar um vinnslu sanda er að ræða heldur en mýrlendis. Nú get ég út af fyrir sig fallizt á þessar smávægilegu breyt. n. og þykir vei, að hún hefur að öðru leyti tekið þennan lið úr mínum brtt. upp í sínar brtt., og þakka henni fyrir það. Mun ég þá að sjálfsögðu draga mína till. að þessu leyti til baka, þar sem ástæðulaust er að karpa um orðalag og minni háttar breytingar og enn fremur ástæðulaust að greiða tvisvar sinnum atkv. um svo að segja sömu till.

Hins vegar hefur hv. landbn. ekki séð sér fært að mæla með síðari brtt. minni, b-lið, en þar er þess farið á leit, að styrkur verði veittur til að rækta skjólbelti í ræktunarlöndum. Um það atriði ræddi ég nokkuð á síðasta þingi, þegar ég flutti frv. mitt um þessa breyt., og þá fylgdi því grg., en þar sem alltaf má gera ráð fyrir, að ýmislegt úr grg. og ræðum fari fram hjá hv. þm., vildi ég, með leyfi hæstv. forseta, mega lesa hér upp rökstuðning úr grg. fyrir till. um það, að styrkur verði veittur til að koma upp skjólbeltum í ræktunarlöndum. Í grg. fyrir frv., sem ég flutti á síðasta þingi, segir svo um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„Því verður ekki unað lengur, að jarðræktarlögin geri ekki ráð fyrir framlagi úr ríkissjóði til skjólbelta í ræktunarlöndum, svo þýðingarmikill þáttur sem skjólbeltin eru í allri ræktun.

Náttúran sjálf er hér óyggjandi vegvísir, því að eins og öllum er ljóst, nær gróðurinn ætíð mestum þroska í skjólinu. Og þó að skógræktin hér á landi sé enn svo ung, að hún geti ekki svarað því til hlítar, að hve miklu leyti skjólbeltin bæta eða geta bætt vaxtarskilyrði annars gróðurs, hafa þau þegar sýnt þann vöxt og árangur, að ekki verður um deilt, að mikils má af vænta í framtiðinni. Við okkar óstöðugu veðurskilyrði er engin ástæða til að ætla, nema síður sé, að skjólbeitin hafi minna gildi fyrir annan gróður hér en erlendis, þ.e.a.s. a.m.k. 25% uppskeruaukningu. Þar að auki má gera ráð fyrir þroskaöryggi, sem aldrei verður nákvæmlega reiknað í tölum. Í þessu sambandi er rétt að geta þess, sem er mjög athyglisvert, að hinn merki tilraunamaður Klemenz Kristjánsson á Sámsstöðum hefur gerzt brautryðjandi um ræktun skjólbeita. Hefur hann ritað margt athyglisvert um gildi skjólbelta fyrir ræktun. T.d. má nefna, að hveiti náði þroska á köldu sumri í skjólbelti, þegar það náði ekki meira en hálfum þroska á bersvæði.“

Í framhaldi af þessu vildi ég svo enn mega lesa hér upp nokkur ummæli Klemenz Kristjánssonar tilraunastjóra á Sámsstöðum, sem hann viðhefur í viðtali við Frjálsa þjóð nú nýlega, en þar segir Klemenz Kristjánsson um skjólbeltin sérstaklega, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hef gert tilraun með ræktun á skýldu landi. Á Sámsstöðum eru skjólbelti úr birki, 4–20 ára gömul. Tilraunir sýna, að korn, sem ræktað er á skjólbeltalandi, verður í góðum árum 16–20% þyngra en á bersvæði. En í erfiðum árum er munurinn miklu meiri. Þá hefur uppskeruaukinn af skjólbeltunum komizt upp í 44%. Skjólbeltin eru til verulegs uppskeruauka í góðum árum, en til stórfellds öryggis í vondum árum. Skjólbelti eru einhver bezta jarðabót, sem hægt er að gera. Nú hlýtur það að liggja fyrir að endurbæta ræktunina, fá meira gras til að vaxa á túnunum og fá fleira en gras eitt til þess að vaxa í íslenzkum jarðvegi. Góð skjólbelti á ræktunarlandi eru eitt af úrræðum til þess.“

Spurningu um það, hvort skjólbeltin kosti ekki mikla umhirðu, svarar Klemenz Kristjánsson á þennan veg:

„Því verður ekki neitað, að það kostar nokkuð að koma skjólbeitunum upp. Ég hef aðallega notað birki, en greni er líka gott. Sé víðir notaður, þarf að klippa hann. Skjólbelti úr birki eru 10–15 ár að vaxa til fulls gagns og þurfa góða umhirðu í 10 ár. Þau mega ekki verða fyrir ágangi, þau þurfa áburð, og gras má ekki vaxa að hríslunum. En eftir 10 ár þurfa þau ekki umhirðu. Elztu skjólbelti á Sámsstöðum eru nú orðin yfir tvær mannhæðir.“

Þetta segir sá merki ræktunarfrömuður, Klemenz Kristjánsson. Af hans ummælum er það ljóst, að fyrstu 10 árin er það nokkuð dýrt og nokkuð erfitt að rækta skjólbeltin. Það má því fyllilega gera ráð fyrir því, að fátækir bændur treysti sér ekki almennt til að leggja í þann stofnkostnað án þess að fá nokkurn styrk til þess að koma þessum skjólbeitum upp, jafnvel þótt þeir viti og skilji og geri sér grein fyrir því, hver hagur þeim væri að því að hafa skjólbeltin, eftir að þau hafa náð fullum þroska og geta veitt öðrum vexti það skjól, sem til er ætlazt, og aukið uppskeruna þá á þann veg, sem Klemenz Kristjánsson greinir hér frá, um 16–20% í góðæri, en allt upp í 44%, þegar verra er árferði.

Af þessum sökum þykir mér mjög miður, að hv. landbn. skyldi ekki hafa þann skilning til að bera á þessu máli, að hún sæi sér fært að mæla með því, að till. mín yrði samþ. En ég vil, sérstaklega eftir að ég hef vitnað hér til ummæla Klemenz Kristjánssonar, sem er fræðimaður á þessu sviði, vænta þess, að hv. þm. hafi betri skilning á þessu máli en n. og styðji með atkv. sínu, að það nái fram að ganga.